Sama tóbakið

Tóbaksvarnarlög eru þrándur í augum þeirra sem hafa frelsi að leiðarljósi. Í íslensku lögunum eru furðuleg ákvæði um heftingu á tjáningarfrelsi. Eins er merkilegt að skoða landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins í þessu samhengi!

Sama tóbakið

Hér á Íslandi hefur um langt skeið verið gildandi bann við tóbaksauglýsingum. Við samþykkt nýrra laga um tóbaksvarnir á síðasta þingi skapaðist umtalsverð umræða um hvort slíkar takmarkanir sem þar er mælt fyrir um á tjáningarfrelsinu stangist á við ákvæði stjórnarskrárinnar bæði hvað verðar tjáningarfrelsið og eignarréttinn. Á síðum Deiglunnar hefur oftsinnis verið fjallað um fyrri þáttinn, nú síðast fyrir tveimur dögum en áður í áhugaverðum pistli Andra Óttarssonar þann 31. maí sl. Síðari spurningin, um rétt manna til að ráðstafa eignum síðum, er ekki síður mikilvæg.

Með hinum nýju lögum var veitingamönnum gert skylt að gera ákaflega óarðbærar breytingar á rekstri sínum til þess að tryggja að lögbundið magn sæta sé á reyklausum svæðum. Raunar er það ekki óalgeng sjón að sjá reyksvæði kaffihúsa þéttsetin á sama tíma og örfáir sitja á hinu mannréttindamikla reyklausa svæði. Þetta veldur því að reykingarfólk bregður sér inn á kaffihús og sér að allt er fullt, þrátt fyrir að hálfur staðurinn sé tómur, og fer með viðskipti sín annað. Ómögulegt er að meta skaðann sem veitingastaðaeigendur verða fyrir vegna þess að þeir neyðast, lögum samkvæmt, til þess að setja tilteknar reglur í eigin húsum, sem kunna að skarast beint á við hagsmuni þeirra.

Raunar má segja að þessi þáttur umræðunnar um tóbaksvarnarlögin hafi verið nokkuð vanræktur þar sem bein íhlutun ríkisins í rekstur atvinnufyrirtækja, svosem eins og veitingahúsa, er ákaflega varhugaverður. Kaffihús og veitingastaðir eru sem betur fer þannig að fólki er frjálst að sækja þau eða sækja þau ekki. Eigendur þessara staða hafa það ekki að markmiði að viðskiptavinum sínum líði illa – heldur þvert á móti að þeim líði vel – og því ætti þeim að vera fullvel treystandi til þess að ákveða sjálfir hvernig húsreglum skuli háttað – í því augnamiði að auka vellíðan viðskiptavina sinna og auðvitað eigin hagnað af rekstrinum.

Sé aftur vikið að banninu á tóbaksauglýsingum þá mun nokkur umræða hafa átt sér stað um slíkt í Evrópusambandinu. Nokkur ríki þessi tóku í gildi bann við slíkum auglýsingum við síðustu áramót. Meðal þeirra ríkja var okkar gamla herraþjóð Danmörk. Danir eru ekki sérlega hrifnir af boðum og bönnum þótt þeir virðist kæra sig kollótta um gríðarháa skattheimtu og aðra efnahagslega frelsisskerðingu. Í leiðara dagblaðsins Politiken í gær var fjallað um auglýsingabannið. Leiðarahöfundur skilur svosem rökin á bak við auglýsingabannið þótt ekki sé hann hrifinn af því. Hann bendir hins vegar á að á sama tíma og Evrópusambandið berjist hatrammlega gegn tóbaksauglýsingum, vegna þess hve óholl varan er, rekur það mjög svo framsækna landbúnaðarstefnu sem byggist á því að taka pening úr arðbærum rekstri og færa hann yfir í óarðbæran. Þannig stundar Evrópusambandið það í tilfelli tóbaksræktenda að gera allt mögulegt til þess að draga úr eftirspurn eftir vörum þeirra en samtímis verða tóbaksræktendur styrktir um 220 milljarða króna á næstu þremur árum til þess að halda framleiðslu sinni áfram.

Það er ég viss um að ábyrgum stjórnmálamönnum eins og Winston Churchill hefði hryllt við slíkri hringavitleysu.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.