Gunnar Potter í Krossinum

Margir sértrúarsöfnuðir gera lítið annað en að ala á fordómum og fáfræði þeirra sem eiga um sárt að binda. Krossinn er einn þessarra safnaða.

Fyrir nokkrum árum átti sér stað sá merkilegi atburður í Menntaskólanum í Reykjavík að ungur drengur talaði tungum í miðjum tíma. Þessi drengur var meðlimur í Veginum, sem er söfnuður sem svipar nokkuð til Krossins, en þar var þetta víst daglegt brauð. Svo virtist vera sem heilu fjölskyldurnar settust niður á þriðjudags- og fimmtudagskvöldum og töluðu tungum í svona hálftíma til klukkutíma. Auðvitað var enginn fótur fyrir þessu eins og viðkomandi maður viðurkennir í dag, en innan safnaðarins var þetta hin almenna skoðun að hver sem er gæti sest niður og þulið upp Guðs heilaga orð á löngu gleymdum málum.

Innan sértrúarsafnaða á borð við Veginn, Krossinn og Votta Jehova er samkrull af fólki sem hefur tekið ástfóstri við hina stórmerkilegu bók biblíuna. Í krafti hennar hafa ýmsir hreintrúarmenn boðað meðal annars andúð á samkynhneigðum og ójafnan rétt kynjanna. Þegar rætt er við slíka menn er venjulega ekki hægt að koma að neinum rökum því ávallt er vísað í hinu æðstu bók og þeir sem ekki taka boðskapnum fagnandi eru sagðir villutrúarmenn og þeir ásakaðir um að hafa ekki kynnt sér málið.

Þar sem Gunnar í Krossinum boðar nú bókabrennu vegna Harry Potter bókanna, eflaust í anda þeirrar sem haldin var í Bandaríkjunum nýverið, mætti ætla að Gunnar hefði einmitt kynnt sér málið. Ekki reyndist það nú vera, en Gunnar sagði í viðtali í 19:20 að hann hefði ekki lesið þær, en hins vegar hefði hann skoðað myndirnar framan á þeim. Sumir halda því eflaust fram að ástæðan fyrir því að Gunnar lesi ekki bækur sem hann fjallar um á opinberum vettvangi heldur skoði í þeim myndirnar, sé sú að Gunnar kunni ekki að lesa. Þetta þykir undirrituðum einum of einföld söguskýring og vill þess vegna benda fólki á að Gunnar skoðaði ekki einungis myndirnar, heldur hafði hann einnig samband við fólk sem þegar hafði brennt bækurnar. Þau voru öll sammála um að þær væru slæm fyrirmynd ungs fólks og því fylgdu þau hinum þjóðlega sið, að brenna bækur á Þrettándanum, og eflaust töluðu þau tungum yfir öllu saman.

Gunnar les líklega kristilegar bókmenntir fyrir börnin sín, en þær eru álíkar barnabókum sem boðuðu nazisma og kommúnisma. Ekkert svigrúm er gefið fyrir mismunandi túlkanir og ef við bætist að öðrum bókum er haldið frá, þá er voðinn vís. Bækur sem miða að því að hefta hugann í fjötra ákveðinnar hugmyndafræði eru ekki að skapi þeirra sem aðhyllast frelsi einstaklingsins. Börnum verður að vera í sjálfsvald sett að kanna mismunandi viðhorf og skoðanir sem þau síðan nota til að móta eigin hugmyndir á efri árum.

Í sjálfu sér er ekki hægt að setja neitt út á trúarbrögð almennt, enda hafa þau hjálpað mörgum að komast yfir erfiðleika í lífi sínu Öllum er hollt að hugleiða grundvallarspurningar um upphaf og eðli heimsins og hvort eitthvað afl hafi ef til vill rúllað boltanum af stað. En þegar trúarbrögð snúast upp í öfgar eins og hjá Gunnari og Osama Bin Laden þá er ekkert sem getur réttlætt tilvist þeirra. Söfnuðir sem boða óréttlæti í krafti Guðs eru andstyggilegir enda hafa margir þjáðst og látið lífið vegna þeirra.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)