Land hinna ófrjálsu

Bandaríkjamönnum er einkar annt um frelsi sitt og atriði sem Evrópubúum þykja sjálfsögð, svo sem gæslumyndavélar á opinberum stöðum, valda miklu fjaðrafoki. Þjóðsöngur Bandaríkjanna endar á yfirlýsingu um að Bandaríkin séu land hinna frjálsu. Það skýtur því skökku við að í Bandaríkjunum sé stærri hluti þjóðarinnar á bak við lás og slá en í nokkru öðru ríki í heiminum, og hefur föngum fjölgað ört síðustu 20 ár. Stærsti hluti þessa þjóðfélagshóps er dökkur á hörund.

Fjöldi þeirra Bandaríkjamanna sem sitja á bakvið lás og slá hefur farið hratt vaxandi á síðustu árum. Grafið hér til hliðar sýnir fjölda fanga, í milljónum, síðustu 20 árin. Eins og sjá má hefur fjöldi fanga þrefaldast á þessum tíma. Þessi stöðuga fjölgun er í engu samræmi við samsvarandi tölfræði um glæpatíðni. Á meðan glæpum fjölgaði, á tímabilinu 1980-1990, var því haldið fram að aukinn fjöldi fanga væri afleiðing af aukinni glæpatíðni. Eftir að glæpum tók að fækka, upp úr 1990, hafa sömu aðilar haldið því fram að auknar fangelsanir hafi leitt til fækkunar glæpa. Þeir sem verja þessa aukningu halda sig hinsvegar frá samanburði milli landa, sem sýnir að öðrum löndum tekst að halda glæpatíðni langtum lægri, þrátt fyrir að Bandaríkjamenn fangelsi fimm sinnum stærri hluta þegna sinna en nokkuð annað vestrænt lýðræðisríki.

Þrátt fyrir tilraunir til að tengja aukningu í fangelsunum við glæpatíðnina er ljóst að aðalorsökin fyrir þessari sprengingu er sú að Bandaríkjamenn hafa á undanförnum árum orðið mun refsiglaðari en áður. Fyrir tuttugu árum taldi meirihluti Bandaríkjamanna að megintilgangur fangelsisvistar ætti að vera endurhæfing. Í dag telur meirihlutinn að megintilgangurinn eigi að vera refsing. Hugmyndin um að gera menn að betri þegnum hefur vikið fyrir hugmyndinni um „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“.

Breytingar á umhverfinu innan veggja fangelsanna hefur verið í góðu samræmi við þessa hugarfarsbreytingu. Þótt ótrúlegt megi virðast er nú erfiðara fyrir áður fyrir fanga að mennta sig, þar sem fjárveitingar til slíkra verkefna hafa í engu fylgt þeirri sprengingu sem orðið hefur í fjölda fanga á síðustu 20 árum, og í sumum tilvikum hafa fjárveitingar til slíkra verkefna jafnvel verið skornar niður.

Samhliða minnkuðum möguleikum til endurhæfingar hefur hvatinn fyrir fanga til að bæta sig minnkað stórkostlega. Einn helsti hvatinn til að taka sig á er að sjálfsögðu möguleikinn á því að sleppa út fyrr. Árið 1970 losnuðu 75% fanga í kjölfar þess að skilorðsnefnd hafði úrskurðað um reynslulausn. Sambærilegt hlutfall í dag er 30%. Afgangurinn situr inni þar til þeir hafa tekið út sína refsingu, án þess að þeirra hegðun innan fangelsisins hafi nokkur áhrif á það hvenær þeir losna.

Aðalástæðan fyrir þessari breytingu eru svokölluð skyldurefsingaákvæði (e. mandatory sentencing) sem sett hafa verið í ýmsum fylkjum Bandaríkjanna, og er þar þriggja högga reglan best þekkt. Þessi lög leiða til þess að dómari og fangelsisyfirvöld hafa engan möguleika á því að milda refsingar, hvorki vegna aðstæðna eða hegðunar fanga. Skyldurefsingaákvæði voru í að hluta til hugsuð sem leið til að draga úr kynþáttamismunun sem sumum þótti einkenna ákvörðun refsingar. Sú hefur þó ékki orðið raunin. Þessi ákvæði gefa í flestum tilvikum saksóknara val um það hvort þau eru nýtt, og reynslan sýnir að saksóknarar eru mun líklegri til að nýta þær heimildir þegar sakborningur er þeldökkur.

Enn er staðan sú að svertingjar eru stærsti þjóðfélagshópurinn í fangelsum, þrátt fyrir að þeir séu aðeins um 12% þjóðarinnar. 8% þeldökkra karlmanna á aldrinum 25-29 ára situr nú á bak við lás og slá. 20% allra þeldökkra karlmanna hafa einhverntíma setið í fangelsi. Svertingjar eru mun líklegri til að fara í fangelsi en hvítir menn fyrir sama glæp og einnig til að hljóta dauðarefsingu. Þetta stafar að hluta til af því að svertingjar hafa lægri tekjur en hvítir og þurfa því oftar að reiða sig á lögskipaða verjendur. Fjárveitingar til slíkra verjenda eru mjög takmarkaðar, og svo dæmi sé tekið er útgjaldaþak vegna málsvarnar í dauðarefsingamálum í Alabamafylki réttar 200.000 kr. Nýlegar tölur um dóma sem hefur verið hnekkt með aðstoð DNA rannsókna, í sumum tilfellum eftir að sakborningar hafa setið árum eða áratugum saman í fangelsi, styðja einnig þá kenningu að svertingjar séu mun líklegri til að fara saklausir í fangelsi en hvítir.

Á Íslandi njóta nú kröfur um auknar refsingar, sérstaklega í ofbeldis- og kynferðisglæpamálum mikillar hylli. Það er engum vafa undirorpið að í sumum tilfellum hafa refsingar glæpamanna verið ansi hjákátlegar í samanburði við glæpinn og dómar vegna ofbeldis- og kynferðisglæpa virðast mjög vægir í samanburði við dóma í auðgunarmálum. Það er hins vegar engin ástæða til að tapa áttum í þeirri umræðu. Það er fátt sem bendir til þess að stórauknar refsingar hafi tilætluð áhrif við að draga úr glæpum, og sú tilhneiging til að horfa vestur um haf í leit að fyrirmyndum er einkar uggvænleg. Bandaríkjamenn eiga dýrt og óskilvirkt réttarkerfi sem mismunar mönnum á grundvelli fjárhagsstöðu og kynþáttar. Við getum gert mun betur.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)