Stríðsástandið í Póllandi

Í dag er liðið 21 ár frá því að lýst var yfir stríðsástandi í Póllandi. Eftir margra mánaða verkfallaöldu tók herinn völdin til að „koma á reglu í landinu“. Á þessum degi er rétt að staldra við og velta fyrir sér sögulegu mikilvægi þessa atburðar.

Allt árið 1980 höfðu stjórnvöld Póllands smám saman verið að missa tökin á ástandinu í landinu. Pólskur efnahagur var í molum og verðhækkanir í júnímánuði vöktu af sér mikla öldu óánægju og verkfalla. Starfsfólkið krafðist krafðist afnáms ritskoðunar, leyfis til að stofna frjáls verkalýðsfélög, launahækkana, verðlækkana o.fl.

Stjórnin ákvað að koma til móts við margar af kröfum fólksins. Þannig var óháða verkalýðsfélagið „Samstaðan“ skráð formlega þá um haustið og samnefnt vikublað hóf göngu sína á svipuðum tíma. Margir verkalýðsforingjar litu á þetta sem veikleikamerki af hálfu ríkisstjórnarinnar og fóru að setja fram nýjar kröfur.

Hins vegar hvöttu margir menntamenn úr hópi stjórnarandstöðunnar fólk til að sýna skynsemi. Þá þegar voru stjórnvöld í Moskvu farin að krefjast þess af Pólverjum að komið yrði lögum yfir „andbyltingarsinna“ í landinu. Þá hófu ríki Varsjárbandalagsins hafið undirbúning að innrás inn í landið. Frekari tilslakanir stjórnvalda mundu aðeins auka líkur á sovéskri innrás, en slíkt væri engum til góðs.

Þann 13. desember 1981 var lýst yfir stríðsástandi í landinu þrátt fyrir að engin hafði ráðist inn í það. „Neyðarástand“ var nefnilega ekki skilgreint í Stjórnarskránni. Verkföll voru laminn niður með valdi, um 70 manns létu lífið og 50 þús. voru fangelsuð. Sjónvarpið flutti aðeins fréttir og þjóðrernissinnaðar stríðsmyndir. Slökkt var á símum. Óheimilt var að ferðast út fyrir bæjarmörk án leyfis. Öll miðstjórn Samstöðunnar var fangelsuð.

Stríðsástandið varði í eitt og hálft ár en margar frelsisskerðandi tilskipanir voru ekki afnumdar fyrr en mörgum árum síðar.

Í heildina mörkuðu stríðslögin þó upphaf á enda kommúnismans. Flestir forustumenn Samstöðunnar héldu áfram að berjast gegn alræðinu þegar þeim var sleppt. Engin þeirra var t.d. tekinn af lífi fyrir landráð eða neitt svoleiðis. Samstaðan var jafnvel fyrir formlega skráningu komin með um 3 milljónir félagsmanna. Mest urðu þeir 10 milljónir þar af 1 milljón sem einnig voru félagar í Kommúnistaflokknum. Hún var einfaldlega of sterk fyrir stjórnvöld til að ráða við.

Í lok níunda áratugarins fóru svo fram hringborðsumræður milli stjórnar og stjórnarandstöðu sem leiddu af sér frjálsar kosningar, umbætur í átt til frjáls markaðskerfið og langþráð lýðréttindi. Pólska alþýðulýðveldið hætti að vera til og í staðinn varð til Lýðveldið Pólland.

Hið pólitíska svið Póllands mótast enn í dag að stórum hluta af atburðunum fyrir tveimur áratugum síðan. Vinstrimenn koma flestir úr röðum fyrrverandi kommúnista en hægrimenn úr röðum Samstöðunnar. Það eru auðvitað frekar skrýtnir hægrimenn sem eiga rætur sínar að rekja til verkalýðsfélags. Pólska stjórnmálasviðið er því skipt eftir sögulegum forsendum og því miður er enn sjaldgæft að menn úr fylkingunum tveimur geti starfað saman. Vonandi styttist þó í það að á sviðið stigi menn sem geti starfað með öðru fólki á málefnalegum forsendum en ekki eftir pólitískum víglínum vonds ríkis sem sem betur fer er hætt að vera til.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.