Kínverjar og Internetið

Einhver helsta von okkar til þess að frelsi í harðstjórnarríkjum aukist er almenn uppfræðsla og aukinn samtakamáttur almennings. Internetið er því sennilega einhver sú skæðasta ógn sem steðjar að kínverskum stjórnvöldum – en í öllum ógnunum felast tækifæri og kínversk stjórnvöld hafa í hyggju að nýta sér möguleika upplýsingatækninnar til þess að auka enn eftirlit með þegnum sínum.

Ef farið er inn á leitarsíðuna google.com og leitarorðinu “human rights” slegið upp þá fást þær upplýsingar að um 2.890.000 síður innihaldi þessi orð. Ef maður er hins vegar staðsettur í Kína og slær inn þessum sömu leitarorðum þá fæst ekkert svar og reyndar var ekki einu sinni hægt að nálgast leitarsíðuna Google þar í landi fyrr á árinu. Ástæðan er sú að kínversk yfirvöld eru ekki sérlega áhugasöm um að 50 milljónir nettengdra Kínverja kynni sér efni sem getur raskað alsherjarreglu, grafið undan stjórnvöldum eða stefnt öryggi ríkisins í hættu. Í Kína er heldur ekki hægt að notast við leitarorðin “Taiwan”, “Tibet” eða “Falun Gong” svo nokkur dæmi séu nefnd.

Kínverskum stjórnvöldum stendur mikil ógn af því frjálsa flæði upplýsinga sem internetið hefur upp á að bjóða. Það er nefnilega óþægilegt að viðhalda ógnarstjórn yfir þegnum sem eiga auðvelt með að fá samanburð frá öðrum ríkjum, geta skipulagt fundi og samtök og komið sjónarmiðum sínum á framfæri með litlum tilkostnaði. Auðveldara er að hafa taumhald á illa upplýstum og bjargarlausum þegnum sem enga von hafa til þess að finna til nægilega mikillar samstöðu til þess að þora að rísa upp gegn kúgunarvaldinu og heimta breytingar.

Þrátt fyrir augljósa ókosti Internetsins fyrir kínversku stjórnina hefur sú stefna ekki verið mörkuð að banna notkun þess. Netnotkun hefur vaxið mjög á síðustu árum og útlit er fyrir að notendafjöldinn í Kína verði orðinn meiri en í nokkru öðru ríki veraldar innan fárra ára. Kínversk stjórnvöld sjá nefnilega ekki bara vankantana við Internetið heldur einnig kostina og, samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International, er hafin vinna sem mun gera þeim kleift að fylgjast mjög náið með atferli netnotenda. Því miður hafa kínversk stjórnvöld hlotið atbeina nokkurra af stærstu netfyrirtækjum heims í þessari viðleitni sinni m.a.: Websense, Sun, Cisco, Nortel og Microsoft en þau fyrirtæki mun skv. Amnesty hafa aðstoðað kínversk stjórnvöld við að breyta síubúnaði þannig að rekja má óæskilega netnotkun beint inn á þá tölvu þar sem “brot” er framið.

Fyrr á þessu ári kom upp eldur á internetkaffihúsi í Peking og 25 manns létu lífið. Öryggismálaráðuneytið lét þá umsvifalaust loka 2.400 netkaffihúsum í borginni. Svipaðar tylliástæður hafa margoft verið notaðar til þess að draga úr frelsi kínverskra borgara til þess að nálgast internetið. Alvarlegasta fullyrðingin í skýrslu Amnesty International er sú að 33 aðilum sé nú haldið föngnum vegna notkunar sinnar á Internetinu og talið er tveir þeirra hafi verið líflátnir.

Ljóst er að kínversk stjórnvöld munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að reyna að koma í veg fyrir að Internetið gagnist þeim sem berjast gegn harðræði stjórnvalda. Við því var að búast. Það er hins vegar ámælisvert að alþjóðleg netfyrirtæki skuli taka þátt í þeim tilraunum og verða þannig samsek í þeim grófu mannréttindabrotum sem almenningur í Kína verður fyrir að hálfu stjórnvalda. Sú takmörkun sem kínversk stjórnvöld reyna að hafa á möguleikum þegnanna til þess að nálgast efni á Internetinu er sambærileg við bókabrennur fyrr á öldum – og eins og haft er eftir Heinrich Heine þá er stutt í að mennirnir sjálfir verði brenndir þegar byrjað er að brenna bækurnar þeirra. Og því miður hafa kínversk stjórnvöld vílað hvorugt fyrir sér í gegnum tíðina.

***

Upplýsingar sem bannaðar eru í Kína skv. fjarskiptalögum:

(1)Upplýsingar sem ganga í berhögg við grundvallarsjónarmið stjórnarskrárinnar

(2)Upplýsingar sem stefna þjóðaröryggi í voða, greina frá ríkisleyndarmálum, grafa undan stjórn ríkisins, eða grafa undan þjóðarsamstöðu

(3)Upplýsingar sem eru skaðlegar heiðri og hagsmunum ríkisins

(4)Upplýsingar sem stuðla að kynþáttahatri eða mismunun, eða grafa undan samhug þjóðarinnar

(5)Upplýsingar sem grafa undan stefnu ríkisins í trúarlegum málefnum, eða kynda undir villitrúarsamtök eða hindurvitni

(6)Upplýsingar sem dreifa sögusögnum, raska allsherjarreglu, eða grafa undan stöðugleika í samfélaginu

(7)Upplýsingar sem dreifa klámfengnu eða lostafullu efni,sem stuðla að fjárhættuspili, ofbeldi, morðum og voðaverkum, eða hvetja til glæpsamlegrar hegðunar

(8)Upplýsingar sem fela í sér móðganir eða ærumeiðingar, eða skarast við lögmæta hagsmuni annarra einstaklinga; og

(9)Aðrar upplýsingar sem bannaðar eru samkvæmt lögum eða reglugerðum.

*Þýtt úr skýrslu Amnesty International. Sjá hér.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.