Flóttinn til vinstri

Þann fjórtánda þessa mánaðar kusu þingmenn Demókrata í bandarísku fulltrúadeildinni Nancy Pelosi í embætti leiðtoga þingflokksins. Samhliða því hafa forystumenn flokksins lýst því yfir að hann þurfi að færa sig lengra til vinstri. Hér er þeirri spurningu velt upp hvort stefnubreytingin sé Demókrötum til góðs eða ills.

Þann fjórtánda þessa mánaðar kusu Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings nýjan leiðtoga, en Richard Gephard, sem áður gegndi embættinu, sagði af sér eftir sögulegan ósigur flokksins í þingkosningum vikuna áður. Nancy Pelosi er fulltrúi San Fransisco á þinginu og er í vinstri armi flokksins – svo langt til vinstri að einn bandarískur leiðarahöfundur hefur lýst pólitískum skoðunum hennar sem „aðeins til vinstri við Pol Pot”.

Samhliða leiðtogavalinu hafa forystumenn flokksins lýst því yfir að flokkurinn þurfi að færa sig lengra til vinstri til að greina sig frekar frá andstæðinunum í Repúplikanaflokknum.

Pelosi er ætlað að púsla saman Demókrataflokknum, sem eðlilega er í sárum eftir háðulega útreið, og vinna bandarísku þjóðina á hans band í því skyni að sigra í forseta- og þingkosningunum árið 2004. Það er hins vegar vert að spyrja hvort Pelosi sé rétta manneskjan til verksins og hvort stefnan sem sett hefur verið til vinstri sé heppileg fyrir Demókrata.

Bill Clinton og aðrir hægrisinnaðir Demókratar höfðu mikið fyrir því að færa flokkinn lengra inn á miðju bandarískra stjórnmála og uppskáru fyrir vikið sigur á Repúplikönum í forsetakosningunum 1992. Bandaríkin eru ekkert frábrugðin öðrum samfélögum að því leyti að á miðjunni er langflest atkvæði að finna – og vinna – og er því ljóst að sá flokkur sem þar nær fótfestu kemur til með að vinna kosningar þangað til honum er velt úr sessi.

Með nokkrum sanni má segja að Repúplikanar hafi ekki unnið kosningarnar nú í ár heldur að Demókratar hafi tapað þeim. Forysta flokksins getur sér til um að hann hafi tapað vegna þess að hann hafi ekki sett sig á móti stefnu George W. Bush í fleiri málum en raun varð á og að lausnin sé, eins og áður segir að færa sig lengra til vinstri.

Það er rétt að stefnumál flokkana voru um margt svipuð – aukin áhersla á þjóðaröryggi og baráttuna gegn hryðjuverkum bar þar hæst – en þau voru í takt við áhyggjur og skoðanir flestra Bandaríkjamanna. Ástæðan fyrir ósigri Demókrata var hins vegar ekki sú að þeir væru of sammála Repúplikönum heldur treystu kjósendur þeim ekki fyrir öryggi sínu af þeirri einföldu ástæðu að þingmenn flokksins studdu Bush forseta nauðugir viljugir og eingöngu í því skyni að vinna atkvæði. Það er sama hvað menn segja um greindarfar Bandaríkjamanna – kjósendur þar, eins og annars staðar, þekkja loddara þegar þeir sjá þá.

Það hefði því ekki átt að koma neinum á óvart að Repúplikanar, sem löngum hafa sett þessi málefni á oddinn, hafi unnið sigur og njóti frekar trausts kjósenda. Þegar kemur að manns hjartans málum kýs maður ekki þann sem nýlega skipti um skoðun, heldur þann sem ætíð hefur barist fyrir þeim.

Síðari hluta fimmta áratugarins og fyrri hluta þess sjötta skiptust yfirráð yfir þinginu og Hvíta húsinu tiltölulega jafnt milli flokkanna tveggja. Sum kjörtímabil höfðu Repúplikanar meirihluta og önnur réðu Demókratar ríkjum. Þegar líða tók á sjötta áratuginn fór að halla undan fæti hjá Repúplikönum. Stöðugt fækkaði þingmönnum þeirra og loks tók steininn úr þegar John Fitzgerald Kennedy hafði af þeim forsetaembættið árið 1960.

Viðbrögð Repúplikana voru afar svipuð viðbrögðum Demókrata núna. Flokkurinn fjarlægðist miðju bandarískra stjórnmála og uppskár blóðugan ósigur í forsetakosningunum 1964, þar sem Barry Goldwater, frambjóðandi Repúplikana, rétt marði sigur í sínu eigin ríki en varla mikið meira en það og meirihluti Demókrata í fulltrúadeildinni nam 45 þingsætum. Næstu áratugi var fulltrúadeild bandaríkjaþings nánast í eigu Demókrata og breyttist það ekki fyrr en í kosningunum 1995.

Þetta er sú framtíð sem blasir við Demókrötum hverfi þeir ekki af þeirri braut sem þeir eru á núna og snúi sér aftur að miðju bandarískra stjórnmála.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)