John Rawls

John Rawls, merkasti stjórnmálaheimspekingur 20. aldarinnar, lést síðastliðinn sunnudag. Hugmyndir Rawls um val á samfélagsgerð í frumástandi þar sem einstaklingar eru bak við slæðu þekkingarleysis mörkuðu straumhvörf í stjórnmálaheimspeki á síðustu öld.

John Rawls, merkasti stjórnmálaheimspekingur 20. aldarinnar, lést á heimili sínu síðastliðinn sunnudag. Rawls var 82 ára gamall. Dánarorsökin var hartaáfall.

Mikilvægasta verk Rawls, bókin A Theory of Justice, sem kom út árið 1971, markaði straumhvörf í stjórnmálaheimsspeki. Fyrir útkomu bókarinnar var stjórnmálaheimspeki nánast dautt fag. Athygli heimspekinga beindist að mestu að öðru. Með bókinni blés Rawls nýju lífi í stjórnmálaheimspeki og gjörbreytti jafnframt hugmyndum manna um fagið.

Nytjahyggja hafði verið ríkjandi viðhorf í stjórnmálaheimspeki allt frá því á 19. öld. Rawls byggði hins vegar kenningar sínar um æskilega þjóðfélagsmynd á samfélagssáttmála (e. social contract) á sama hátt og heimspekingarnir Hobbes, Locke og Rousseau höfðu gert. Hann hafnaði nytjahyggju en lagði þess í stað áherslu á að grundvallarréttindi hvers einstaklings hafi forgang yfir hag heildarinnar.

Rawls taldi að til þess að komast að því hvers konar samfélagsgerð sé réttlát þurfi einstaklingur að ímynda sér að hann sé bakvið „slæðu þekkingaleysis” (e. veil of ignorance), þ.e. að hann viti ekkert um stöðu sína í samfélaginu s.s. kyn, greind, stétt, aldur, kynþátt eða auð. Samkvæmt Rawls er sú samfélagsgerð sem yrði fyrir valinu við slíkar aðstæður réttlát.

Rawls færir síðan rök fyrir því að samfélagsgerðin sem yrði fyrir valinu við slíkar aðstæður myndi uppfylla tvö skilyrði. Fyrsta skilyrðið er að hver einstaklingur hafi eins víðtæk mannréttindi og mögulega samrýmast því að aðrir hafi sömu réttindi. Síðara skilyrðið er að ójöfnuður í lífskjörum sé aðeins umborinn að svo miklu leyti sem hann kemur þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu til góða. Þessar niðurstöður Rawls eru umdeildar og hafa skapað óhemju umræðu innan stjórnmálaheimspeki síðan bók hans kom út.

Önnur hugmynd Rawls sem hefur haft mikil áhrif er hugmyndin um íhugult jafnvægi (e. reflective equilibrium). Rawls taldi að góð siðfræði byggðist á samspili kenninga og almennrar skynsemi. Einstaklingur eru í íhugulu jafnvægi ef hann hefur fundið siðfræðilegt kenningakerfi sem er þess eðlis að beiting þess leiðir til aðgerða sem eru ávallt í samræmi við það sem hann telur vera almenna skynsemi. Markmið þess sem hugsar um siðfræði er að komast í íhugult jafnvægi. Þetta er gert með því að byrja með einfalt kenningakerfi. Hugsa um þær afleiðingar sem beiting þess myndi hafa við hinar ýmsu aðstæður. Ef þær virðast ekki skynsamlegar er kenningakerfinu breytt. Þetta ferli er endurtekið þar til beiting kenningakerfisins leiðir ávalt til skynsamlegra aðgerða.

Rawls var fæddur í Baltimore í Bandaríkjunum. Hann útskrifaðist með B.A. gráðu frá Princeton í byrjun árs 1945. Hann gékk í herinn og barðist í Kyrrahafi fram á haust sama ár. Eftir að stríðinu lauk snéri hann aftur til Princeton og lauk doktorsprófi við skólann árið 1950. Á sjötta áratuginum kenndi hann við Oxford of Cornell. Árið 1960 flutti hann til MIT og tveimur árum síðar flutti hann til Harvard þar sem hann var prófessor til æviloka. Árið 1995 fékk Rawls alvarlegt slag sem hann náði sér aldrei af. Hann lætur eftir sig eiginkonu, fjögur uppkomin börn og fjögur barnabörn.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.