Niðurstaða prófkjörs

Afdráttarlaus stuðningur við formann og varaformann auk töluverðrar endurnýjunar eru stóru tíðindin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Líklegt er að lítið verði hróflað við þessari niðurstöðu

Óhætt er að fullyrða að niðurstaðan í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sé merkileg og jafnvel mætti ganga svo langt að segja að hún markaði nokkur vatnaskil.

Fyrir prófkjörið hafði verið mikið um það rætt að ungt fólk ætti erfitt uppdráttar í Sjálfstæðisflokknum, en nú lítur út fyrir að þrír ungir menn, þ.e. yngri en 35 ára, setjist á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á næsta kjörtímabili.

Stærstur er auðvitað sigur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem hlaut dúndrandi kosningu í 6. sætið, sama sæti og hann hafði stefnt á. Ekki einungis hlaut Guðlaugur Þór glæsilega kosningu í 6. sætið heldur greiddu um 75% þátttakenda honum atkvæði sitt. Aðeins Davíð Oddsson, Geir Haarde, Björn Bjarnason og Pétur Blöndal hlutu fleiri atkvæði í heildina og því er ljóst að Guðlaugur Þór skipar sér í forystusveit flokksins hér eftir.

Góð kosning forystunnar er að sama skapi mikill sigur fyrir Davíð og Geir, og óneitanlega sterkt fyrir framboð flokksins í vor að forystumenn hans skuli hafa slíkt og annað eins umboð frá flokksmönnum. Björn Bjarnason kom sterkur inn í 3. sætið eins og búast mátti við. Þá hlýtur árangur Péturs Blöndal að vekja athygli en hann náði 4. sæti þrátt fyrir að hann hafi í fjölmörgum málum verið forystunni erfiður ljár í þúfu. Með þessu er líklegt að flokksmenn séu að gefa þau skilaboð að gott sé að einhver þingmaðurinn gegni hlutverki „samvisku flokksins“ inni á þingi.

Einna óvæntastur er þó árangur Sigurðar Kára Kristjánssonar sem náði 7. sætinu og skaut aftur fyrir sig fjórum af sitjandi þingmönnum flokksins. Sigurður Kári verður að öllum líkindum lang yngstur þingmanna á næsta kjörtímabili og fyrsti fulltrúi sinnar kynslóðar á Alþingi. Árangur Sigurðar Kára er ekki síst athyglisverður í því ljósi að félagi hans Ingvi Hrafn Óskarsson gaf einnig kost á sér og alls voru sex frambjóðandanna á SUS aldri en hann virðist ekki hafa lent í því að aðrir tækju atkvæði frá honum. Það virðist hafa hjálpað Sigurði mjög að hann einn óskaði eftir stuðningi í sjöunda sæti og auk þess ber flestum saman um að kosningabarátta hans hafi verið sú kraftmesta í þessum slag, allt útlit afar smekklegt og útpælt.

Þá er líklegt að stuðningsmannalistar með ýmsum þungavigtarmönnum hafi haft nokkuð að segja. Einnig er vitað að Sigurður Kári hefur verið í uppáhaldi hjá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni síðan á menntaskólaárum sínum og greinilegt að stuðningur hans er um þessar mundir ómetanlegur fyrir þá sem vilja klífa metorðastigann í Sjálfstæðisflokknum. Nægir þar að nefna þá Gísla Martein Baldursson, varaborgarfulltrúa, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarfulltrúa og aðstoðarframvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, Ásdísi Höllu Bragadóttur, bæjarstjóra í Garðabæ auk Sigurðar Kára.

Birgir Ármannsson náði einnig mjög góðum árangri. Hann sóttist eftir stuðningi í 6. sæti ásamt Guðlaugi Þór og Stefaníu Óskarsdóttur og þótt hann fengi ekki nægan stuðning í sætið sem hann óskaði sér er ljóst að mjög margir hafa ekki viljað skila kjörseðlinum án þess að hafa hans nafn með. Birgir mun án vafa verða góð viðbót við þinglið sjálfstæðismanna, enda maður með mikla þekkingu á mörgum sviðum og bæði yfirvegaður og nákvæmur í framkomu.

Katrín Fjeldsted og Lára Margrét Ragnarsdóttir munu skipa 6. sætið á listum flokksins ef úrslit prófkjörsins ráða endanlegri skipan listanna. Til þess að þær komist inn mun flokkurinn þurfa um 55% fylgi í Reykjavík og ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að halda mjög vel á spilunum til þess að slíkt fylgi náist en í síðustu Alþingiskosningum var 45,7% en töluvert meira þarf til þess að tryggja 6. mann í hvoru kjördæmi inn.

Stefanía Óskarsdóttir háði mjög kraftmikla kosningabaráttu en uppskar ekki eins og hún sáði. Meðal þess sem vann mjög gegn henni var að mikil barátta var um 6. sætið og hugsanlega var því um taktískan ósigur að ræða hjá henni.

Ingvi Hrafn Óskarsson virðist einnig hafa lagt mikið í sína kosningabaráttu og er 13. sætið vafalaust nokkur vonbrigði fyrir hann. Guðrún Inga Ingólfsdóttir auglýsti frekar lítið en náði mjög ásættanlegum árangri, og eins og hjá Sigurði Kára kom það sér vel fyrir hana að vera sú eina sem óskaði eftir stuðningi í sætið sem hún bað um, það níunda. Soffía Kristín, Deiglupenni og yngsti þátttakandinn, getur einnig vel við unað með að hafa fengið um þriðjung atkvæða þrátt fyrir að hafa háð mjög ódýra kosningabaráttu og vera lítt þekkt í upphafi baráttunnar. Málefnin sem hún lagði áherslu á vöktu athygli og ljóst að hún kemur mjög sterk út úr þessum slag, rétt eins og Guðrún Inga. Þær náðu báðar að stimpla sig sterkt inn og víst að framtíðin er björt hjá þeim ef þær halda starfinu áfram.

Framboð Vernharðs Guðnasonar var aldrei líklegt til árangurs enda var hann algjörlega óþekktur innan flokksins.