Alþingi götunnar

Deiglan fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslur í ljósi nýjustu ummæla Hjálmars Árnasonar, alþingismanns.

Vilja þeir Alþingi götunnar? Spurði Hjálmar Árnason 10. þingmaður Reykjaneskjördæmis og varaformaður þingflokks Framsóknarflokksins, furðu lostinn yfir þeirri tillögu Vinstri grænna um að bera Kárahnjúkavirkjun undir þjóðaratkvæði í næstu sveitarstjórnarkosningum. Hjálmar kaus að varpa spurningunni fram í DV síðasta föstudag. Hjálmar hélt áfram og sagði að Vinstri grænir gleyma því að við búum við það lýðræðisfyrirkomulag að hér eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar á þjóðþingi.

Nú er það efalaust skynsamlegt hjá þingmanninum að mæla gegn þessari tillögu Vinstri grænna. Ef menn eru á annað borð í stuði fyrir þjóðaratkvæði þá eru mun mikilvægari mál til að greiða þjóðaratkvæði um s.s. ESB. Jafnframt er ljóst að til að þjóðaratkvæðagreiðsla ætti rétt á sér, þyrfti upplýst umræða að eiga sér stað sem er nær útilokað nú á þessu þingi vegna tímaskorts og pólitískrar orrahríðar í kringum sveitastjórnarkosningarnar. Í raun er þetta sniðug tillaga hjá Vinstri grænum en því miður ekki nógu vel ígrunduð og nær óframkvæmanleg.

Það er ekki afstaða háttvirts 10. þingmanns Reykjaneskjördæmis sem er athugaverð heldur ofangreind ummæli um tillöguna. Ummælin bera keim af töluverðri lítilsvirðingu háttvirts þingmannsins fyrir eigin umbjóðendum. Það vill nefnilega svo til að þrátt fyrir afstöðu þingmannsins eru þjóðaratkvæðagreiðslur hluti af því lýðræðisfyrirkomulagi sem við búum við í dag. Það gengur jafnvel svo langt að undir vissum skilyrðum áskilur stjórnarskrá þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp. Það er því gert ráð fyrir „Alþingi götunnar“ í Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins nr. 33/1944. Einnig er rétt að benda háttvirtum þingmanninum á það að ef hin nýja Evrópustefna Framsóknarflokksins fær hljómgrunn hér á landi þá verður „Alþingi götunnar“ að samþykkja inngöngu í Evrópusambandið!

Það er sorglegt að lesa yfirlætisleg skrif þingmannanna okkar um sig sjálfa, lýðræðislega kjörna fulltrúa á þjóðþinginu sem hljóta að vera hæfastir til að taka ákvarðanir fyrir land og þjóð og sjá um lagasetninguna. Það er staðreynd að stærstur hluti lagafrumvarpa er saminn af sérfræðingum í ráðuneytunum en ekki á Alþingi. Alþingi virðist því vera einhvers konar afgreiðslustofnun fyrir stjórnarfrumvörp. Skýrasta dæmið um þetta eru e.t.v. nýju lagabreytingarnar við tóbaksvarnarlög nr. 74/1984 sem flugu í gegnum þingið athugasemdalaust þrátt fyrir að fela í sér eina grófustu atlögu að tjáningarfrelsinu frá stofnun lýðveldisins. Svo mikil var árverkni Alþingis.

„Alþingi götunnar“ er e.t.v. ekki jafn slæm hugmynd og háttvirtur 10. þingmaður Reykjanes vill meina. Undirritaður myndi t.d. treysta „Alþingi götunnar“ mun betur til að taka ákvarðanir um hluti þar sem Alþingi er blindað af pólitískum rétttrúnaði t.d. varðandi siðferðismál eða bara smámál eins og sölu léttvíns í matvörubúðum. Hægt er að treysta því að umræða myndi verða í þjóðfélaginu í kringum þjóðaratkvæðagreiðslu annað en t.d. á Alþingi þegar títtnefnd tóbaksvarnarlög fóru í gegn.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.