Nú er skrattanum skemmt

–>Samfylkingin hefur um langa hríð sagst vera fylgjandi auknu lýðræði í landinu. En hvernig vinnur hún í raun?

Samfylkingin er á góðri leið með að verða lýðræðislegasta stjórnmálaafl í heimi. Hún er svo lýðræðisleg að það fór vandræðalegur kliður um flokkinn þegar gamaldags Hafnafjarðarkrati bauð sig fram á móti hinum skelegga formanni Össuri Skarphéðinssyni. Hún er svo lýðræðisleg að engin afstaða var tekin til Evrópusambandsins á síðasta landsfundi, heldur á að afgreiða þetta í póstkosningu einhvern tíma seinna. Allir sem fylgjast með pólitík vita að það er ekki hlutverk landsfunda og stjórnmálaflokka að búa til stefnu. Auðvitað á að fylgja fordæmi Bill Clinton og fara eftir skoðanakönnunum. Ákveðni og festa heyra sögunni til og nú dugir ekket annað að haga seglum eftir vindi, sérstaklega ef hægt er að klína lýðræðishugtakinu á alla vitleysuna og nota það sem bjánalega útskýringu og afsökun fyrir andvana stjórnmálaafl. R-listinn hefur tekið upp þessar orðræðu Samfylkingarinnar eins og reyndar flest annað sem kemur úr þeirri átt. Þar hefur flugvallarkosningunni verið hampað sem grundvallarbreytingu á íslenskum lýðræðishefðum því að við borgarbúar fengum að greiða atkvæði um það hvort flugvöllurinn ætti hugsanlega að fara eftir sextán til tuttugu ár. Rúmlega sextíu prósent borgarbúa sáu ekki ástæðu til að taka þátt í þessari vitleysu.

R-listinn fer mjög lýðræðislega að uppstillingu á lista fyrir Borgarstjórnarkosningar í vor og því ekki furða að þeir keppist við að ásaka Sjálfstæðisflokkinn um einræðistilburði og ruddaskap. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar nefnilega að fara þá ólýðræðislegu leið að stilla Birni Bjarnasyni upp í fyrsta sæti listans. R-listinn fer hins vegar lýðræðislegu leiðina og velur einn flokk af þremur sem fær efsta sætið, en flokkurinn velur síðan eftir einhverjum óskilgreindum aðferðum einstakling í það sæti. Að vísu ætlar R-listinn að stilla upp manni í áttunda sæti og það er víst bara tilviljun ein að þar fer Ingibjörg Sólrún borgarstjóraefni Samfylkingarinnar, fyrirgefiði R-listans.

Þegar búið er að raða sætum niður á þrjá flokka samkvæmt lýðræðislegum reglum uppstillingarnefndarinnar þá velja flokkarnir frambjóðendur eftir lýðræðislegum leikreglum og að sjálfsögðu ætla flokkarnir sem ekki fá borgarstjórastólinn að skiptast á um að gegna embætti forseta Borgarstjórnar, alveg eins og á leikskólunum. Í samræmi við lýðræðishefðir ætla þeir svo að skipta um stefnu eftir því hver ræður þá vikuna og þegar Ingibjörg hættir þá ætla Helgi Hjörvar, Alfreð Þorsteinsson og huldumaðurinn í sjöunda sæti að skiptast á að vera borgarstjórar, því það er svo lýðræðislegt. Já, það gleymdist víst að segja ykkur frá huldumanninum en hann er valinn af tveimur fulltrúum frá hverjum flokki auk borgarstjóra. Það verður því eins konar þjóðaratkvæðagreiðsla á milli þessara sjö einstaklinga um sjöunda sætið, því stundum er nóg að láta bara örfáa sjá um lýðræðið. Eitt sjö í viðbót og þá fáum við bara Guð almáttugan í R-listann.

Það er hreint og beint ótrúlegt að fylgjast með tilburðum þeirra sem helst gagnrýna Sjálfstæðiflokkinn fyrir þá aðferðarfræði sem hann notar við val á lista fyrir komandi kosningar. Lýðræði felst að miklu leiti í skýrum leikreglum, en þær eru engan veginn til staðar hjá núverandi meirihluta í borginni. Ef til vill væri æskilegt að umræða um leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins hefði aldrei farið af stað. Borgarbúar fengu þó tækifæri til að fylgjast með umræðu um kosti og galla uppstillingar hjá stjórnmálaflokkum og erfiðleika sem geta fylgt því að hafa marga einstaklinga í ltlum hópi sem eru hæfir til forystu. Það vandamál þarf R-listinn svo sannarlega ekki að glíma við.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)