Loksins, loksins

Þrátt fyrir að Saddam Hussein hafi fallist á að gangast við skilmálum ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um vopnaeftirlit eru enn blikur á lofti. Framhaldið ræðst væntanlega á næstu vikum.

Síðastliðin föstudag samþykkti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun þar sem Írökum voru settir afarkostir varðandi vopnaeftirlit í landinu. Samkvæmt henni höfðu Írakar viku frest til að gangast við skilmálunum. Íraska þingið hafnaði tillögunni samhljóða en endanleg ákvörðun var að sjálfsögðu í höndum Saddams Hussein. Það þótti merkilegt að írösk blöð fjölluðu ekkert um atkvæðagreiðsluna sem benti til þess að Saddam ætlaði sér að samþykkja hana. Í sjálfu sér átti Saddam aðeins um tvo kosti að ræða, að samþykkja tillöguna eða fara í stríð. Neitun þingsins er þó talin hafa táknræna merkingu því hún sýnir ákveðið sjálfstæði Íraks gagnvart Vesturlöndum og gerir Saddam kleift að fallast á tillöguna án þess að lækka í áliti innanlands.

Samkvæmt ályktuninni áttu Írakar að fá 30 daga frest til að afhenda öll gögn um áætlanir sínar varðandi efna-, lífefna- og kjarnorkuvopn. Innan 60 daga ætti vopnaeftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna að skila skýrslu um eftirlitsstörfin og samvinnu Íraksstjórnar. Í ályktuninni sagði jafnframt að Írakar yrðu að samþykkja skilmálana og afvopnast, eða taka afleiðingunum ella.

Það voru því vissulega ánægjuleg tíðindi þegar Kofi Annan tilkynnti það að Saddam Hussein hefði fallist á skilmála Öryggisráðsins og að vopnaeftirlitsmenn héldu til Írak á mánudag. Í bréfi sem Íraksstjórn sendi Kofi Annan sagði meðal annars að ríkisstjórn Íraks tæki alltaf friðsamlega kostinn til að verja þegna sína fyrir stríðsógnum. Um leið og þessi tíðindi bárust lækkaði heimsmarkaðsverð á olíu því líkur á stríði fyrir botni Miðjarðarhafs hafa vissulega minnkað.

Bresk og bandarísk stjórnvöld hafa varað menn við of mikilli bjartsýni enda hafi Saddam oft verið tvísaga. Síðast þegar vopnaeftirlitsmenn voru við störf í Írak var þeim haldið frá ákveðnum svæðum og byggingum. Það eigi því eftir að koma í ljós hvernig til tekst í þetta sinn. Þetta eru eðlilegar efasemdir en vonandi mun Saddam ekki koma í veg fyrir að eftirlitsmenn geti sinnt sínum störfum.

Gangi allt að óskum hafa tveir mikilvægir hlutir náðst fram. Fyrir það fyrsta þá hefur alþjóðasamfélaginu tekist að afvopna einn af hættulegustu mönnum heimsins. Þar með hafa öll rök fyrir því að fara í stríð við Írak fallið um sjálft sig. Við getum því einbeitt okkur að öðrum vandamálum eins og baráttunni við hryðjuverkahópa og að leysa málefni Ísraels og Palestínu. Stríð má aldrei verða annað en síðasta úræðið, eitthvað sem gripið er til þegar allar aðrar leiðir hafa lokast.

Saddam Hussein hefur fengið lokatækifæri til að afvopnast og ganga aftur inn í samfélag þjóðanna. Noti hann það er sjálfsagt að íraska þjóðin verði aðstoðuð við að jafna sig á þeim hörmungum sem yfir hana hafa gengið. Að sama skapi verða bandarísk stjórnvöld með Bush í broddi fylkingar að gefa Saddam færi á að eyða vopnabyrgðum sínum. Líklega eiga þeir eftir að ögra hvor öðrum en takist vopnaeftirlitsmönnum að sanna að Saddam hafi afvopnast er engin ástæða til að hvetja til stríðsrekstrar. En miðað við fyrri aðgerðir Saddams verða sannanirnar að vera algjörlega óhrekjandi.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)