Heimavarnarráðuneyti verður til

Eftir kosningasigur Repúblikana í Bandaríkjunum virðist sem ekkert standi í veginum hjá Bush forseta með að koma stefnumálum sínum í gegn. Nú virðist hafa náðst næg samstaða í Öldungadeildinni til þess að hrinda hinu umdeilda frumvarpi um Heimvararnarráðuneytið (Department of Homeland Security) í gegn.

Heimavarnarráðuneytið er hugarsmíð Bush stjórnarinnar og er tilgangurinn sá að steypa saman í eina heild fjöldann allan af stofnunum sem áður störfuðu sjálfstætt. Hið nýja ráðuneyti umun veita 170 þúsund manns atvinnu og mun starfa með ýmsum undanþágum frá lögum og reglum um starfsmannahald ríkisins.

Deilurnar um Heimvarnarráðuneytið hafa fyrst og fremst snúist um réttindi og skyldur starfsmannanna en Bush telur mikilvægt að ráðuneytið hafi mun meiri sveigjanleika en aðrar stofnanir í þessum efnum. Demókratar hafa hins vegar staðið vörð um hagsmuni stéttarfélaga í þinginu og fram að þessu nýtt meirihluta sinn í Öldungadeildinni til þess að hindra framgöngu frumvarpsins.

Þó er ólíklegt að umhyggja fyrir réttindum starfsmanna sé hin raunverulega ástæða þess að Demókratar hafa ekki viljað hleypa frumvarpinu í gegn. Ýmsir líta nefnilega svo á að stofnun ráðuneytisins sé liður í því að auka völd Bush forseta verulega og að skjóli þess verði réttindi borgaranna til friðhelgis og einkalífs skert verulega.

Áhyggjur af þróun mannréttinda í kjölfar aukins ótta við hryðjuverk eru ekki úr lausu lofti gripnar. Ljóst er að ríkisstjórnir víða um heim munu telja nauðsynlegt að beita öllum leiðum til þess að stöðva þá hrinu voðaverka, sem nú dynur á heiminum. Í Bandaríkjunum er auðvelt að benda á árásirnar 11. september 2001 og með tilvísan í þá hörmulegu atburði réttlæta ýmsar ákvarðanir, sumar tímabundnar – aðrar varanlegar, sem undir venjulegum kringumstæðum myndu mæta harðri andstöðu meðal almennings og hjá fjölmiðlum.

Heimavarnarráðuneytið, sem mun einnig hafa mjög frjálsar hendur um upplýsingagjöf, er stofnanaferlíki sem margt frjálslynt fólk óttast að muni valda óbætanlegu tjóni á þeim frjálslyndishugsjónum sem Bandaríkin hvíla á. En almenningur og fjölmiðlar hafa vitaskuld meiri áhyggjur af því að deyja í hryðjuverkaárás heldur en að tapa hluta af persónufrelsi sínu – og þannig er það gjarnan í stríði að ríkið, sérstaklega framkvæmdavaldið, tekur sér miklum mun meiar vald heldur en eðlilegt gæti talist á friðartímum.

Gagnrýnendur Bush hafa margir bent á að “stríðið við hryðjuverk” sé í raun ekki stríð í hefðbundnum skilningi og telja að stjórn Bush sé að færa sér viðkvæmt ástand í nyt til þess að taka sér sífellt meira vald. Þetta er vissulega hætta sem hafa þarf vakandi auga fyrir.

Eins og margoft hefur verið rætt í pistlum hér á Deiglunni þá er stærsta hættan við hryðjuverkin einmitt sú að fólk á Vesturlöndum hætti að leggja trú á lýðræði, mannréttindi og frjáls viðskipti. Mikilvægt er að þeim dýrmætu gildum sé ekki fórnað varanlega í þeirri ofsafengnu (og að miklu leyti órökréttu) hræðslu við hryðjuverk sem gripið hefur um sig í Vesturlöndum á síðustu fjórtán mánuðum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.