Tollabandalagið sýnir klærnar

Samkvæmt fréttum útvarpsins í dag er útlit fyrir að Evrópusambandið hafi í hyggju að beita þvingunum til þess að EFTA löndin sætti sig við kostnað vegna stækkunar ESB. Því miður virðst fríverslunarhugsjónin ekki lengur vera lykilatriði í hugmyndafræði Evrópusambandsins.

Í hádegifréttum í dag var sagt frá því að norska blaðið Aftenposten hafi heimildir fyrir því að Evrópusambandið hafi í hyggju að rifta samningunum um Evrópska efnahagssvæðið gangi aðildarlönd EES ekki að þeim hugmyndum sem Evrópusambandið hefur um þátttöku þeirra í kostnaði við stækkun sambandsins til austurs.

Nú ber vitaskuld að taka slíkum sögusögnum með mestu varúð þótt virðulegur fjölmiðill á borð við Aftenposten geri þær að umfjöllunarefni. Hins vegar er augljóst að þrýstingur Evrópusambandsins á EFTA löndin fer sívaxandi. Þessi þrýstingur sýnir einna best hversu langt frá upphaflegri hugmyndafræði sinni Evrópusambandið er komið.

Evrópusambandið sem slíkt er í raun mjög góð hugmynd. Grundvallarsjónarmiðin sem liggja á bak við það eru byggð á frelsi fólks til viðskipta, ferðalaga, búsetu og athafna. Eftir því sem sambandið hefur tekið að sér stærra hlutverk í innanríkismálum hefur það hins vegar fjarlægst þessi góðu markmið.

Mikilvægt er að skilja þann grundvallarmun sem er á tollabandalagi og fríverslunarbandalagi. Aðilar að tollabandalagi semja sameiginlega um viðskiptakjör við útlönd en innan fríverslunarbandalaga geta aðildarríkin samið við þriðja aðila án þess að það hafi áhrif á viðskiptakjör innan fríverslunarsvæðisins. Þannig geta Íslendingar gert sérstakan fríverslunarsamning við Kanada án þess að það komi öðrum þjóðum innan EFTA eða NAFTA við. Enda er þar um fríverslunarbandalög að ræða.

Aðliar að tollabandalagi hafa enga slíka möguleika. Við stækkun Evrópusambandsins í austur falla samningar Íslands við hin nýju aðildarlönd úr gildi. Þetta þýðir í sumum tilvikum að viðskiptakjör Íslands við þessi lönd versna því enn hefur Evrópusambandið ekki afnumið alla tolla. Þá má bæta því við að ýmsar af þeim kröfum sem settar eru um vörur innan markaðssvæðisins virka sem tæknileg viðskiptahöft.

Nýverið varð stærsta fríverslunarbandalag heims til í Asíu. Nú eru til staðar nokkur mjög stór fríverslunarsvæði og hefur aðeins ein heimsálfa orðið útundan í þeirri þróun, nefnilega sú sem mest þarf á því að halda að koma vörum sínum á erlenda markaði, Afríka. Það væri mikið heillaskref fyrir heimsbúa alla ef þessi þróun heldur áfram. Ef Evrópusambandið er að hörfa frá þessari stefnu er það mikið og alvarlegt áhyggjuefni.

Frjálslynt fólk hefur á undanförnum árum sett sífellt fleiri spurningamerki við stefnu Evrópusambandsins hvað viðskiptafrelsi varðar. Því miður virðast hagsmunir öflugra þrýsihópa, s.s. bænda, enn ráða alltof miklu um stefnumótun sambandsins.

Íslendingar eiga að verja EES-samninginn og tryggja þannig viðskiptahagsmuni sína í Evrópu. Stærra markmiðið hlýtur þó að vera að stækka viðskiptasvæði okkar enn frekar og með stöðu okkar utan tollabandalaga getum við unnið að því markmiði óhindrað. Mikilvægt er að við sýnum gott fordæmi á alþjóðavettvangi með því að stuðla að jákvæðri þróun í þessum efnum. Aðild að Evrópusambandinu, miðað við þá stefnu sem þar virðist ríkjandi, er því ekki æskileg.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.