Sjálfsvarnarúðar

Umræðan sem átt hefur sér stað í Danmörku um lögleiðingu sjálfsvarnarúða á alveg jafn brýnt erindi hér á Íslandi, ef ekki brýnna. Hér eru ofbeldisfullir glæpamenn látnir ráfa um götur landsins í leit að næsta fórnarlambi. Ástandið er mjög slæmt í þessum efnum og möguleikar fólks til að verjast eru afskaplega takmarkaðir.

Hér á landi er bannað að eiga og nota flestar gerðir af sjálfsvarnarbúnaði. Það er alveg fráleitt að fólk þurfi að gerast lögbrjótar til þess að geta varið sig með þeim hætti sem það kýs og telur henta best. Mikilvægt er að einstaklingar taki sjálfir ákvarðanir um hvernig öryggi þeirra sé tryggt – engum öðrum er treystandi til þess.

Í Bandaríkjunum er borin virðing fyrir þeirri sjálfsögðu reglu að leyfa einstaklingum að verjast ofbeldi. Þar er alls kyns sjálfsvarnarbúnaður seldur. Sjálfsvarnarúðar eru vinsælir þar því að þeir virka vel til þess að gera ofbeldismenn óvirka. Þeir draga úr hættunni á því að fólki verði misþyrmt, nauðgað eða jafnvel drepið. Í Bandaríkjunum eru aðallega seldar þrjár gerðir af sjálfsvarnarúðum mace, táragas og piparúði.

Virka efnið í mace er chloroacetophenone. Það veldur myndun tára, sviða í húð og ljósfælni. Efnið var uppgötvað af þýskum vísindamanni um 1870. Það var notað af frökkum til af hafa hemil á uppþotum í nýlendum þeirra um 1920. Um 1930 var það orðið algengt um allan heim til löggæslu.

Virka efnið í táragasi er orthochlorobenzylidenemalononitrile. Það veldur táramyndum, sviða og kláða í húð og óþægindum í öndarvegi. Það var fyrst búið til af bandarískum vísindamönnum 1928. Um 1960 var farið að nota táragas til að hafa hemil á uppþotum og til löggæslu.

Piparúði er eins og nafnið bendir til unninn úr pipar. Virku efnin kallast capsaicinoidar. Piparúði veldur bruna tilfinningu og bólgum í slímhúðum. Áhrifin stafa aðallega af losun taugaboðefnis sem hefur með annars áhrif á sléttan vöðvavef. Losun þess á stóran þátt í því að gera árásarmenn óvirka. Það veldur samdrætti í líffærum gerðum úr sléttum vöðvavef sérstaklega öndunarvegi, vélinda og svo sléttra vöðva augnanna.

Þessar tegundir af sjálfsvarnarúðum eiga það sameiginlegt að þær byrja að virka hratt og að áhrifin vara í takmarkaðan tíma. Þær valda ekki varanlegum skaða en þann tíma sem efnin virka gera þær árásarmanninn óvirkan en það er einmitt það sem er nauðsynlegt til þess að geta forðað sér úr hættunni. Helsti ókosturinn við táragas og mace en ekki piparúða er að þau hafa ekki áreiðanleg áhrif á þá sem eru undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Ég geri mér ekki grein fyrir því hvers vegna almenningi er bannað að eiga og nota sjálfsvarnarúða. Sennilega liggja einhver illa ígrunduð sjónarmið þar að baki.

Lögleiðing sjálfsvarnarúða hefði í för með sér að annarrs heiðarlegt og löghlýðið fólk þyrfti ekki að gerast lögbrjótar til að geta varið sig og fjölskyldur sínar með þeim hætti sem það kýs. Hægt væri að stýra því hvaða tegundir væru seldar hér þannig að öruggt væri að þær virkuðu eins og til er ætlast. Gæði þeirra tegunda sem nú er smyglað til landsins eru væntanlega afar misjöfn. Erlendis hafa fundist tegundir sem innihalda eitruð efni sem geta valdið varanlegum skaða. Með lögleiðingu væri hægt að hindra að slíkar tegundir kæmust í umferð hér.

Það má hugsa sér að það þurfi sérstakt leyfi frá lögreglustjóra til þess að fá að eiga sjálfsvarnarúða svipað og byssuleyfi eða ökuskírteini. Sú leið hefur verið farin í sumum fylkjum Bandaríkjanna en í öðrum eru sjálfsvarnarúðar seldir í kjörbúðum sem er ef til vill eðlilegra. Algjört bann eins og ríkir hér á landi fyrir almenning finnst mér óskynsamlegt. Það vill nú svo til að lögreglan sjálf hefur undanþágu til að nota sjálfsvarnarúða ef hún telur þess vera þörf. Lögreglan kemst samkvæmt eðli máls oftast í tæri við ofbeldismenn. Mikilvægt er að almenningur hafi rétt til að grípa til sömu aðferða og lögreglan undir sömu kringumstæðum.

Vonandi verða sjálfsvarnarúðar lögleiddir sem fyrst. Bent hefur verið á það ófremdarástand sem ríkir hér. Ástandið er óviðunandi í þessum efnum. Hér er greinilega mikið í húfi enda eru sjálfsvarnarúðar auðvitað ómissandi í baráttu okkar gegn ofbeldi í samfélaginu. Það ætti því að vera forgangsmál að lögleiða þá strax.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)