Vegið úr launsátri

Deiglan fjallar um bréf sem verið er að senda félagsmönnum í Samfylkingunni þar sem rifjaðar eru upp gamlar syndir tveggja frambjóðenda í prófkjöri Samfylkingarinnar sem lýkur á morgun.

Það heyrist oft að íslenskir kjósendur hafi gullfiskaminni og því fyrnist syndir stjórnmálamanna á tiltölulega skömmum tíma. Þessi meinta gleymska eða umburðarlyndi landans fyrir breyskleika stjórnmálamanna útkýrist þó líklegast ekki af því að Íslendingar séu gleymnari en aðrir heldur frekar af linkind fjölmiðla. Rannsóknarblaðamennska hefur nefnilega ekki sést hér á landi í mörg ár. Allt of mörg mál eru þöguð í hel þar sem þau eru of pólitísk eða viðkvæm.

Hneykslismál hafa því oft orðið eins og gjaldþrot. Þetta hefur verið erfitt fyrir viðkomandi í aðdraganda málsins og þegar það stendur yfir og viðkomandi er smá tíma að jafna sig. En þegar því er lokið þá er hann hvítþveginn og getur byrjað nýtt líf án þess að þurfa að hafa miklar áhyggjur af hinum rjúkandi rústum sem hann hefur skilið eftir sig.

Það kemur því alltaf á óvart þegar gamlar syndir skjóta aftur upp kollinum opinberlega. Maður er bara orðin svo vanur því að slík mál séu þöguð í hel á opinberum vettvangi. Viðkomandi er jú búinn að taka út sína refsingu á meðan málið stóð yfir! Það er helst að menn tuði um þetta á kaffihúsum í góðra vina hópi og kvarti yfir meintu gullfiskaminni Íslendinga, náttúrulega án þess að gera nokkurn skapaðan hlut.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að verið sé að senda félagsmönnum í Samfylkingunni bréf þar sem rifjaðar eru upp gamlar syndir tveggja frambjóðenda í prófkjöri Samfylkingarinnar sem lýkur á morgun. Þarna er verið að tala um meint og sönnuð brot fóstbræðranna Helga Hjörvars og Hrannars B. Arnarssonar vegna ýmiss konar fjárglæfrastarfsemi í kringum fyrirtækin sem þeir ráku saman. Reyndar er rétt að geta þess að Helgi Hjörvar slapp mun betur frá rannsókn brotanna en Hrannar gerði.

Það er merkilegt að þessar syndir fóstbræðranna komu fyrst upp á yfirborðið í kringum síðustu sveitarstjórnarkosningar fyrir fjórum árum síðan en eru samt enn í umræðunni. Það lítur því allt út fyrir það að þessar syndir séu komnar til að vera.

Umrætt bréf hlýtur að koma stuðningsmönnum þeirra fóstbræðra verulega á óvart. Af málflutningi þeirra og stuðningsmanna þeirra fyrir fjórum árum er að sjá að þeir hafi innilega trúað því að meint brot þeirra félaga hafi verið hluti af stóru hægri samsæri til að koma höggi á þá. Nú kemur það á daginn að félagar þeirra í Samfylkingunni hafa einnig áhyggjur af fortíð þeirra. Það gæti þó ekki verið að þetta hafi ekki verið stórt hægri samsæri eftir allt saman?

Samfylkingarbréfið sem nú gengur á milli manna er víst nafnlaust og undirritað af „áhyggjufullum samfylkingarmönnum“. Þar er því vegið úr launsátri sem ber vott um töluverðan heigulshátt og gjörsamlega gengisfellir bréfið efnislega. Þetta er hins vegar íslenska leiðin við það að dreifa óhróðri en undirritaður mann ekki eftir því í svipinn að slíkum upplýsingum hafi verið dreyft öðruvísi en með nafnlausum bréfum. Samt sem áður verða menn að standa á bak við eigin skoðanir og taka afleiðingunum. Menn eiga aldrei að þurfa að vega úr launsátri í lýðræðisþjóðfélagi.

Það er samt alveg hægt að skilja afstöðu bréfritara. Fjölmiðlar gera ekkert til að komast til botns í slíkum málum og sinna á engan hátt rannsóknarhlutverki sínu. Þeir virðast vera ginnkeyptari fyrir ásökunum syndarans um pólitískar ofsóknir heldur en hvort sannleikur búi á bak við ásakanirnar. Sá sem kastar slíkum ásökunum fram hefur oft komið verr út í fjölmiðlum heldur en syndarinn þrátt fyrir að ásökunin um alvarlega háttsemi sé á rökum reist!

Kannski voru bréfritararnir orðnir þreyttir á þessu ástandi. Kannski voru þeir búnir að vera heillengi á kaffihúsum í góðra vina hópi að tuða um meint gullfiskaminni íslenskra kjósenda gagnvart fortíð íslenskra stjórnmálamanna. Munurinn á þeim og okkur hinum var bara, að þeir ákváðu að gera eitthvað í því!

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.