Á ríkið að fjármagna heilsugæsluna? En tannlækningar?

Heimsóknir flestra til heimilislæknis eru tiltölulega tíðar og ódýrar. Það er því spurning hvort nokkur þörf sé á því að dreyfa þeirri litlu áhættu sem felst kostnaðinum við að fara til heilsugæslulæknis.

Í þessum pistli langar mig til þess að vekja lesendur Deiglunnar til umhugsunar um rökin sem liggja að baki því að ríkið fjármagni mismunandi hluta heilbrigðiskerfisins. Í dag er málum þannig háttað að ríkið fjármagnar nánast allt heilbrigðiskerfið eins og það leggur sig, nema hvað það fjármagnar ekki tannlækningar fullorðinna og ekki heldur ýmis ódýr lyf svo sem verkjalyf o.þ.h. Það skrýtna er að sterkari rök virðast hníga að því að ríkið fjármagni tannlækningar fullorðinna en að það fjármagni heilsugæsluna.

Megin rökin fyrir því að ríkið fjármagni heilbrigðiskerfið eru að í slíku kerfi felst samtrygging. Í stað þess að hvert og eitt okkar beri áhættuna sem fylgir því að þurfa að greiða fyrir okkar eigin heilbrigðisþjónustu þykir skynsamlegt að allir landsmenn taki sig saman um að bera þennan kostnað sameiginlega. Þetta leiðir til þess að í stað þess að greiða himinháar upphæðir í vondu ári þegar eitthvað kemur fyrir þá greiðum við mun viðráðanlegri upphæðir á hverju ári. Með þessum hætti er áhættunni dreift og stórum hluta hennar eytt öllum til hagsbóta.

En samtryggingin hefur einnig neikvæðar afleiðingar. Hún minnkar þann hvata sem við annars hefðum til þess að fara vel með okkur. Hún veitir okkur óhóflegan hvata til þess að leita okkur læknisþjónustu. Og hún leiðir einnig til þess að okkur er nokk sama hvað þjónustan sem við fáum kostar þegar við lendum inni á spítala.

Skynsemi þess að ríkið fjármagni hina ýmsu þætti heilbrigðiskerfisins veltur sem sagt á því hvor þátturinn vegur þyngra: kostir áhættudreifingar eða gallar þeirra hvata sem henni fylgja.

Hugleiðum aðeins hvers konar áföll það eru sem algengt er að fólk tryggi sig gegn. Í fyrsta lagi tryggir fólk sig almennt gegn eldsvoða og árekstrum í umferðinni. Margir tryggja sig einnig gegn innbrotum og sumir kaupa sér líftryggingu. Öll þessi áföll eiga tvennt sameiginlegt. Þau gerast sjaldan en eru afskaplega stór áföll þegar þau eiga sér stað.

Hugleiðum næst hvers konar áföll fólk tryggir sig almennt ekki gegn. Fólk tryggir sig almennt ekki gegn smááföllum sem eiga sér stað hvað eftir annað, svo sem leiðinlegu veðri í fríinu, hækkun á bensínverði, höfuðverk, leiðinlegri sjónvarpsdagskrá, bilunum á heimilistækjum o.þ.h.

Hugleiðum loks í hvorn flokkinn hinir ýmsu þættir heilbrigðisþjónustunnar falla. Í fyrsta lagi er nokkuð ljóst að flestar innlagnir á spítala flokkast undir alvarleg áföll sem eiga sér stað sjaldan. Einnig er ljóst að kaup á verkjalyfjum flokkast undir smááföll sem eiga sér stað hvað eftir annað. En í hvorn flokkinn fellur heilsugæslan og tannlækningar. Að mínu mati virðist eðlilegast að heilsugælsan falli í seinni flokkinn. Það getur varla flokkast undir stóráfall að fara til heimilislæknis þegar maður er með flensu, útbrot eða höfuðverk. Á hinn bóginn getur tannlæknakostnaður auðveldlega hlaupið á tugum ef ekki hundruðum þúsunda. Fyrst fólk er reiðubúið að bera áhættuna sem felst í tannlæknakostnaði sé ég ekki af hverju það ætti ekki að vera reiðubúið að bera áhættuna sem felst í því að fara til heimilislæknis.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.