Uppgangur útlendingahaturs

Greinilegt er að útlendingahatur og kynþáttafordómar eru meira áberandi í íslensku samfélagi heldur en flest okkar grunaði. Deiglan hefur oftsinnis fjallað um þessi málefni og m.a. gagnrýnt lagasetningu Alþingis sem virðist geta stuðlað að auknum fordómum í samfélaginu.

Á síðustu mánuðum og árum hafa komið fram merki um það að hér á landi sé landlægt kynþáttahatur og fordómar gagnvart fólki af öðrum litarhætti heldur en þorri þjóðarinnar. Til marks um það er að á síðustu árum hafa verið stöfnuð tvenn samtök sem hafa kynþáttahatur og fordóma á stefnuskrá sinni. Þá sýnir nýleg skoðanakönnun að fjórðungur þjóðarinnar vill ekki að fólk með annan litarhátt búi hér á landi. Þessi könnun er í takt við aðrar svipaðar skoðanakannanir hérlendis um viðhorf til fólks sem ekki er litlaust. Allar þær kannanir sýna töluverða fordóma.

Það er merkilegt hversu lítil viðbrögð þessar kannanir vekja því að í flestum öðrum vestrænum ríkjum hefðu þær líklega valdið töluverðum usla og jafnvel kallað á einhvers konar viðbrögð hjá þeim sem málið varða.

Þetta hlýtur að vera vatn á myllu þeirra hópa sem hafa opinberlega alið á fordómum og úlfúð gegn nýbúum hér á landi. En rasistafélögin tvö hafa legið í dvala upp á síðkastið. Lítið heyrst frá Félagi Þjóðernissinna síðan að umdeildur dómur féll sem sektaði forsvarsmann samtakanna fyrir að dreifa kjánalegum skoðunum sínum á almannafæri. Í kjölfar þess skapaðist töluverð umræða um tjáningarfrelsi og tók Deiglan þá afstöðu að þótt skoðanir þjóðernissinnans væru kjánalegar þá þyrfti honum að vera frjálst að tjá skoðanir sínar. Í pistli um þetta mál þann 29. mars 2001 sagði Þórlindur Kjartansson:

Umræðan um tjáningarfrelsi á síðustu vikum er að miklu leyti sprottin vegna þess að DV ákvað fyrir skömmu að birta stórt viðtal við ungan rugludall sem hefur að heldreipi í lífinu þá skoðun að hann sé betri en aðrir vegna þess að hann er næmur fyrir sólbruna og húðkrabbameini. Hugmyndir hans dæma sig sjálfar. Hlutverk þeirra sem vita betur er að fordæma málflutninginn og benda á það hversu kjánalegur hann í raun sé. Þessar hugmyndir geta meira að segja varla flokkast sem skoðanir, svo kjánalegar eru þær – eða er til dæmis hægt að hafa þá „skoðun“ að jörðin sé flöt? Nei. Það er einfaldlega rangt. Eins er það ekki „skoðun“ að halda því fram að sumir kynþættir séu öðrum æðri. Það er einfaldlega rangt og fólki verður að leyfast að halda kjánaskap sínum á lofti því þannig öðlast skynsamari viðhorf aukið gildi.

Hitt rasistafélagið, Félag Framfarasinna, boðar mun neytandavænna kynþáttahatur. En það félag hefur einnig látið lítið fyrir sér fara eftir að það fékk sína fyrstu opinberu viðurkenningu þegar stjórnamönnum félagsins var boðið að vera stofnfélagar í Heimssýn f.h. Félags Framfarasinna. Heimasíða þeirra hefur legið niðri um þónokkuð skeið og fátt bendir til þess að hún verði opnuð í bráð.

Það verður seint sagt að rasistafélögin tvö höfði til fjöldans með sínum kjánalega áróðri gegn innflytjendum og fólki af öðrum uppruna. Það er því ekki nema von að maður spyrji sig hvaðan þessar skoðanir fjórðungs landsmanna séu sprottnar. Varla fæðumst við svona fordómafull.

Sá félagsskapurinn sem er einna duglegastur við að dreifa áróðri gegn innflytjendum af öðrum uppruna er Alþingi. Með alls kyns löggjöf sem byggir á fordómum hafa alþingismenn lagt sitt af mörkum til að móta það fordómasamfélag sem við sjáum endurspeglast í skoðanakönnunum. Þetta er árangur sem rasistafélögunum tveimur hefði aldrei tekist að ná.

Gott dæmi um þetta eru lög um útlendinga nr. 96/2002. Þar er lögfest að ótakmarkað dvalarleyfi hér á landi sé háð því að viðkomandi einstaklingur hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Í grein eftir Pawel Bartoszek, sem birtist hér á Deiglunni þann 25. október síðastliðinn, er farið ítarlega í gegnum þessa breytingu. Pawel bendir t.d. á hún ná til hlutfallslega þröngs hóps nýbúa:

Einnig verður að skoða hverjir það munu verða sem þurfi að sækja þessi námskeið. Norðurlandabúar eru undanþegnir þeim því þeir þurfa ekki að sækja um dvalarleyfi. Sama á við alla ESB-borgara en EES samningurinn tryggir frjálsa fólksflutninga milli landa. Innan tveggja ára mun gamla austurblokkin ganga í Evrópusambandið og þá munu t.d. Pólverjar, stærsti minnihlutahópurinn, ?sleppa?. Stærsti hópur útlendinga sem munu þurfa sitja íslenskunámskeið verða þá… Bandaríkjamenn. Einhvern veginn leyfi ég mér að efast um að það hafi verið ætlun þeirra sem settu hugmyndina fram. Vegna þrýstings að vestan munu USA-borgarar áreiðanlega einnig sleppa við námskeiðin svo loks mun það lenda á Asíubúum einum að þurfa sitja námskeiðin góðu.

Pawel kemst að þeirri niðurstöðu að hún sé vafasöm frá sjónarhóli mannréttinda og ólíkleg til að skila árangri.

Annað dæmi um fordóma Alþingis er lagabreytingatilaga sem liggur fyrir Alþingi um breytingu á lögum um ríkisborgararétt nr. 100/1952. Breytingin felur í sér að gert er að skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar að viðkomandi umsækjandi geti haldið uppi almennum samræðum á íslensku. Tillagan var lögð fram á síðasta þingi en var ekki tekin fyrir og bíður nú afgreiðslu. Andri Óttarsson skrifaði um breytingatillöguna hér á Deiglunni þann 21. apríl síðastliðinn þegar hún lá fyrir síðasta þingi. Þar fjallaði hann um ókosti og galla breytingartilögunnar og spurði síðan:

Gæti það verið yfirskyn að frumvarpið eigi að stuðla að íslenskukunnáttu nýbúa? Það bendir margt til þess að raunverulegt markmið breytingarinnar sé að takmarka almennt veitingu ríkisborgararéttar, sérstaklega veitingu til þeirra sem koma frá framandi menningarheimum. Þetta er frekar ógeðfelldur tilgangur og ber stækan keim af þjóðernishyggju.

Það eru svona lagasmíðar sem senda kolvitlaus skilaboð út í þjóðfélagið. Skilaboð sem segja að innflytjendur og hörundsdökkir séu annars flokks. Að við eigum ekki að sýna þeim umburðarlyndi og taka á móti þeim sem jafningjum heldur þurfi að þvinga þá til að læra íslensku og aðlagast íslensku samfélagi því annars muni þeir aldrei gera það. Er nema von að fjórðungur þjóðarinnar vilji ekki að litaðir búi hér á landi þegar löggjafinn segir þá ekki eiga skilið snefil af umburðarlyndi.

Baldvin Þór Bergsson skrifaði pistil um kynþáttahatur hérlendis í kjölfar könnunar DV og birtist hann hér á Deiglunni þann 22. október síðastliðinn. Þar fjallaði hann m.a. um þá einstaklinga sem eru á móti innflytjendum af öðrum uppruna:

Fólk sem á annað borð samþykkir það að litað fólk sé á einhvern hátt verra en litlausir tekur líklega engum rökum. Sumir eru eflaust þeirrar skoðunar að litaðir séu ekkert verri en við heldur sé bara miklu betra að þeir haldi sig heima hjá sér, þá verði engin átök eða vandamál milli hópa. Þetta er eflaust alveg rétt en viljum við virkilega búa í samfélagi sem lítur á aðskilnað sem lausn við samfélagslegu og siðferðislegu vandamáli? Er þá ekki bara miklu auðveldara að banna hommum og lesbíum að kyssast úti á götu? Ekki af því að við erum á móti þeim heldur vegna þess að einhverjir aðrir gætu tekið upp á því að ráðast á samkynhneigða?

Baldvin hittir naglann á höfuðið þegar hann segir að segir að varla verði þeim snúið sem á annað borð telja að fólk af öðrum hörundslit fólk sé frábrugðið okkur eða eigi ekki að búa hérna. Það er hins vegar ákaflega mikilvægt að Alþingi láti ekki undan þeirri freistingu að taka undir slíkan málflutning eða reyni að koma til móts við slík sjónarmið. Þau sjónarmið sem búa að baki útlendingahatri og kynþáttafordómum eru án vafa þau ógeðfelldustu og hættulegustu sem mannkynið þekkir. Það er því mikilvægt að rasistar og útlendingahatar fái að vita að sjónarmið þeirra séu einskis metin í samfélaginu og að ekkert verði gert til þess að koma til móts við brenglaðar lífsskoðanir þeirra.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)