Réttlætanlegur fórnarkostnaður?

Yfirvöld í Kreml kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að beitingu vopnavalds og þar á bæ hafa menn látið fá tækifæri úr höndum sér renna til að láta byssurnar tala. Heimsveldi Sovétríkjanna á tímum Kalda stríðsins var grundvallað á vopnavaldi, bæði hótun um beitingu þess og oftar en ekki framkvæmd slíkrar hótunar.

Yfirvöld í Kreml kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að beitingu vopnavalds og þar á bæ hafa menn látið fá tækifæri úr höndum sér renna til að láta byssurnar tala. Heimsveldi Sovétríkjanna á tímum Kalda stríðsins var grundvallað á vopnavaldi, bæði hótun um beitingu þess og oftar en ekki framkvæmd slíkrar hótunar.

Kremlarbændur sæta nú vaxandi gagnrýni, bæði heima fyrir og á Vesturlöndum, fyrir aðgerðir sínar til að binda endi á gíslatöku tsjetsjenskra uppreisnarmanna í leikhúsi í Mosvku. Eins og greint hefur verið frá í fréttum frelsuðu rússneskar sérsveitir um 700 gíslum úr klóm gíslatökumanna. Frelsunin kostaði hins vegar vel á annað hundruð gísla lífið, auk þess sem gíslatökumennirnir voru stráfelldir.

Sá sem þetta skrifar hefur ekki lagt það í vana sinn að halda uppi vörnum fyrir stjórnarherrana í Kreml, hvað þá að hann hafi mælt stríðsrekstri Rússa í Tsjetsjníu bót – þvert á móti. En hér er ástæða til að staldra við og skoða málið, áður en áfellisdómur er kveðinn upp yfir rússneskum stjórnvöldum.

Heimspressan var lengi að kveikja á því hversu alvarleg gíslatakan í Moskvu var – hún var upptekin af handtöku brjálæðings sem skotið hafði fólk á færi vestan Atlantshafs. Á meðan ruddust 50 þungvopnaðir skæruliðar inn á leiksýningu í Moskvu og hnepptu tæplega eitt þúsund manns í gíslingu.

Og krafan var ekki milljón dollarar í tösku og hraðskreiður bíll út á flugvöll – nei, krafan var að Rússar drægju herlið sitt frá Tsjetsjníu. Allir vissu, þar með uppreisnarmennirnir sjálfir, að við því myndu rússnesk stjórnvöld aldrei verða. Þegar fréttir bárust af sprengjubúnaði áföstum við gíslatökumennina, var ljóst að hryllilegasta gíslataka allra tíma var í uppsiglingu.

Það „góða“ við flestar „venjulegar“ gíslatökur er að gíslatökumennirnir vilja í flestum tilvikum komast undan og fá einhverjum af kröfum sínum framgengt. Slíkt var óhugsandi mitt i Moskvuborg með rússneskan herinn gráan fyrir járnum handan við þilið. Hér virtist því vera um að tefla hroðalega samblöndu af gíslatöku og sjálfsmorðsárás, þar sem á annað þúsund manns gætu hugsanlega beðið bana. Gíslatökumennirnar sögðu og sýndu í verki að allar hótanir þeirra skyldi taka alvarlega.

Og Kremlarbændur brugðust við á þann hátt sem maður hefði fyrirfram getað sagt sér – alla vega eftir á að hyggja. Frelsunin kostaði sjöunda hvern gísl lífið, eða vel á annað hundrað leikhúsgesta. Allir biðu þeir bana af völdum eiturgass sem sérsveitirnar notuðu til að gera gíslatökumennina óvirka.

Komið hefur fram sú gagnrýni að gasblandan hafi verið alltof sterk – en á móti hefur verið á það bent, að töluvert sterkari skammt þurfi til að svæfa fullhraustan skæruliða á þrítugsaldri, en misjafnlega á sig komna, vansvefta og soltna leikhúsgesti á miðjum aldri. Blandan reið sumsé sjöunda hverjum leikhúsgesti að fullu, en uppreisnarmennirnir sofnuðu flestir og fengu að launum kúlu í höfuðið frá grímuklæddum sérsveitarmönnum.

Spurningin er þá þessi: var aðgerðin réttlætanleg? Svarið hlýtur að vera já. Hugsanlega hefði mátt bjarga fleirum ef framkvæmdin hefði tekist fullkomnlega, en hinn kosturinn – skotbardagi í þröngum leikhússal milli fimmtíu skæruliða og kannski hundrað þungvopnaðra sérsveitarmanna – er nú kannski ekki uppskriftin að giftusamlegri björgun eitt þúsund manna úr þeim sal – og þá eru ekki taldar með sprengjur skæruliðanna, sem væntanlega hefðu gert staðinn að grafhýsi allra sem þar voru, rétt við grafhýsi Stalíns og Leníns.

Annar kostur hefði verið að semja við gíslatökumennina um lausn fólksins. Þá erum við komin að hinni pólitísku spurningu, þeirri herfræðilegu hefur þegar verið svarað.

Sá sem þetta skrifar hefur stökustu óbeit á stríðsrekstri Rússa í Tsjetsjníu. Þar hefur Rauði herinn framið slík ódæði og hryðjuverk að því verður varla með orðum lýst. Skemmst er að minnast þess er þeir grófu íbúum Grosní hinstu gröf með gegndarlausu sprengjuregni á borgina, auk ýmissa hroðaverka sem upplýst hafa verið af hálfu Rauða hersins í þessu litla Kákasuslýðveldi.

En það breytir því ekki, að það á aldrei, undir nokkrum kringumstæðum, að semja við þá sem telja sig vera að reyna ná fram rétti sínum með því að hóta eða tefla í hættu lífi saklausra borgara. Það er ekki síst vegna þess hversu auðveld gíslataka í frjálsu samfélagi er og hversu berskjaldaðir saklausir borgara eru. Væri í eitt sinn gengið að kröfum gíslatökumanna, myndi það hvetja aðra til að fylgja þeirra fordæmi – og slíkt myndi enda með hörmungum.

Örlög þeirra saklausu borgara sem létust af völdum eiturgass rússnesku sérsveitanna voru ráðin þegar þeir voru hnepptir í gíslingu og hótað lífláti af fimmtíu skæruliðum. Hugsanlega hefði mátt komast hjá jafn miklu mannfalli og raun varð á og vissulega er mannfall í röðum gíslanna hörmulega mikið. En hin pólitíska ákvörðun var rétt og hin hernaðarlega framkvæmd hennar bjargaði sex af hverjum sjö gíslum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.