Við erum frjáls

Í gærkvöld frumsýndi Borgarleikhúsið leikritið Sölumaður deyr, e. Death of a Salesman, eftir Arthur Miller. Þar er á ferðinni einstök leikhúsupplifun enda eitt besta verk sem skrifað hefur verið.

Leikritið Sölumaður deyr eða Death of a Salesman eins og það heitir á frummálinu er eitt þekktasta leikhúsverk seinni tíma. Höfundur þess Arthur Miller hlaut Pulitzer verðlaunin fyrir það enda hefur söguhetjan Willi Lohman verið reglulegur gestur í leikhúsum, sjónvörpum og kvikmyndahúsum í rúmlega 50 ár. Miller ólst upp í skugga kreppunnar miklu sem hafði mikil áhrif á hugsunarhátt hans en brostnir draumar er eitt af meginþemum verksins.

Willi Lohman, sem fer að ljúka starfsæfi sinni, hefur greitt upp húsið sitt og komið sér vel fyrir, en þá er honum sagt upp eftir áralangt heilladrjúgt starf. Lohman rifjar upp fyrri tíma, afrek sín og uppeldi sona sinna sem áttu að eiga betra líf en hann sjálfur. Hann hefur alið þá upp í þeirri trú að í lífinu sé líklega bara eitt sem hafi raunverulegt gildi, peningar og frægð. Þegar hann áttar sig á að svo er ekki, renna upp fyrir honum mistökin og vonbrigðin og hann ákveður að hverfa og láta líftrygginguna renna til fjölskyldunnar svo hún geti hafið nýtt líf. Willi er nefnilega bara venjulegur maður, en ekki hetja og þá sérstaklega ekki í augum sona sinna. Þessi uppgötvun eru stærstu vonbrigðin.

Það sem gerir sýningu Borgarleikhússins svo áhugaverða er hversu langt er gengið í því að láta leikarann og textann njóta sín. Sviðsmyndin er nánast engin og lýsing er einföld. Allt hjálpar þetta til við að skapa stemmningu sem finnst sjaldan í íslensku leikhúsi. Vinkona mín sagði um daginn að góður texti þyrfti hvorki leikmynd né leikmuni, einungis leikara til að flytja hann. Texti Miller fellur vissulega undir þessa kenningu enda einn sá besti sem skrifaður hefur verið.

Í gegnum verkið kemur í ljós hversu mikilvægt það er fyrir Willi að eignast hluti. Hann er enn að borga af húsinu, bílnum og ísskápnum og þegar hann loksins eignast eitthvað þá þarf það að fara í viðgerð. Þetta lífsmynstur er jafnþekkt í dag og það var fyrir rúmlega 50 árum en Miller er í raun og veru ekki að deila á samfélagið, heldur miklu frekar einstaklingana sem eru aldrei ánægðir með það sem þeir eiga. Þegar Willi fyrirfer sér undir lok verksins til að fjölskylda hans fái líftrygginguna lítur hann á sjálfsvígið sem hetjudáð. Hann fórnar sér til að þau geti lifað betra lífi. Eiginkona Willi stendur við gröfina í lok verksins og spyr hvers vegna hann hafi gert þetta nú þegar þau hafi verið að borga síðustu skuldirnar nú þegar þau væru orðin frjáls.

Það er óhætt að mæla með sýningunni fyrir alla leikhúsunnendur því flestir geta fundið í henni eitthvað við sitt hæfi. Sölumaður deyr er í hópi bestu leikrita sem skrifuð hafa verið enda á það jafnmikið erindi við okkur í dag og fyrir 50 árum. Þetta er hins vegar ekki þægileg sýning. Tilfinningar í brjósti áhorfenda eru misjafnar enda óvíst hvort Willi er hetja eða skúrkur, hvort hann eigi skilið samúð og hvort hann hafi í raun og veru eyðilagt líf sona sinna? Þessum spurningum verður ekki svarað hér heldur í brjósti hvers og eins þegar hann yfirgefur leikhúsið.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)