Ísland fyrir Íslendinga

Samkvæmt könnun DV eru 24,7% landsmanna andvígir varanlegri búsetu litaðra einstaklinga á Íslandi. Eigum við að þegja um slíkar skoðanir eða ræða þær? Taka fordómafullir einstaklingar yfirleitt einhverjum rökum?

Úrtak könnunarinnar voru 600 manns sem skiptust jafnt á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Spurt var: Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) varanlegri búsetu fólks af öðrum litarhætti á Íslandi? 24,7% voru andvíg varanlegri búsetu, 62,8% voru fylgjandi, 8,2% voru óákveðin og 4,3% neituðu að svara. Skipting milli kynjanna sýndi að hærra hlutfall karla var á móti, eða 30,3% karla á móti 26% kvenna.

Þótt vitað hafi verið í langan tíma að Ísland sé ekkert frábrugðið öðrum Norðurlöndum þegar kemur að fordómum gagnvart útlendingum þá koma þessar tölur mörgum á óvart. Við gefum okkur yfirleitt út fyrir það að vera opnari og umburðarlyndari en flesta aðra og vegna þess hversu lágt hlutfall Íslendinga er af erlendum uppruna höfum við komist upp með það. Með auknum fjölda litaðra einstaklinga á Íslandi koma fordómarnir þó sífellt betur í ljós.

Skemmst er að minnast opnuviðtals við formann félags íslenskra þjóðernissinna í DV, en þar birtust á prenti kreddufullar yfirlýsingar sem enginn heilvita maður myndi láta hafa eftir sér. Sem betur fer hefur málstaður þessara samtaka ekki fengið mikinn hljómgrunn, enda vilja fáir láta kenna sig við nasisma. Áhyggjurnar felast frekar í málflutningi þeirra sem best verður lýst sem kynþáttahöturum í neytendaumbúðunum eins og Félagi framfarasinna.

Um alla Evrópu hafa sprottið upp stjórnmálaflokkar sem beita populiskum málflutningi til að kveikja hatur fólks á ólíkum kynþáttum, enda einfalt verkefni að einangra hópa og kenna þeim um allt sem aflaga fer. En það versta við þetta allt saman er að fólk virðist tilbúið til að trúa þessu. Landið okkar væri betra ef innflytjendum yrði snúið til baka og þjóðinni haldið hreinni. Vandamál þjóðarinnar myndu á einhvern dularfullan hátt leysast ef litað fólk hyrfi á brott.

Þótt auðvelt sé að hrekja slík rök þá hlýtur sú spurning að vakna hvort það hafi yfir höfuð nokkurn tilgang. Fólk sem á annað borð samþykkir það að litað fólk sé á einhvern hátt verra en litlausir tekur líklega engum rökum. Sumir eru eflaust þeirrar skoðunar að litaðir séu ekkert verri en við heldur sé bara miklu betra að þeir haldi sig heima hjá sér, þá verði engin átök eða vandamál milli hópa. Þetta er eflaust alveg rétt en viljum við virkilega búa í samfélagi sem lítur á aðskilnað sem lausn við samfélagslegu og siðferðislegu vandamáli? Er þá ekki bara miklu auðveldara að banna hommum og lesbíum að kyssast úti á götu? Ekki af því að við erum á móti þeim heldur vegna þess að einhverjir aðrir gætu tekið upp á því að ráðast á samkynhneigða?

Könnun DV hefur einnig vakið upp spurningar um tilgang slíkra kannanna. Viðtalið við formann félags þjóðernissinna vakti upp miklar deilur um það hvort slíkar skoðanir mættu birtast á prenti. Þessi könnun gæti orðið vatn á myllu þeirra sem vilja beita rasisma til að koma sér á framfæri. Vissulega hefur umfjöllun fjölmiðla áhrif en við getum aldrei réttlætt það að fjölmiðlar þegi um slíkar skoðanir almennings. Reyndar ættum við að gera þá kröfu að fjölmiðlar fjalli um þetta samfélagsvandamál, greini það og reyni að leysa úr því. Fordómar sem þessir byggjast á fáfræði sem fjölmiðlar reyna yfirleitt að útrýma.

Það er ekki oft að ég skammast mín fyrir það að vera Íslendingur, en þegar ég sá þessar tölur brá mér óneitanlega. Þeir sem telja sig vera talsmenn hvort sem er einstaklinganna eða samfélagsins ættu að sameinast í baráttu gegn slíkum málflutningi hvar og hvenær sem hann birtist. Tölur sem sýna fordóma á meðal ungs fólks eru sláandi, hópsins sem hefur alist upp með lituðum einstaklingum. Ef við bregðumst ekki við strax gæti það orðið of seint.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)