Hvaða skoðun hefur trúuð lattelepjandi kjötæta?

Samfélag manna tekur sífelldum breytingum og það virðist jafnframt sífellt verða flóknara og margbreytilegra. Það er því að vissu leyti skiljanlegt að leitað sé leiða til að skilja og skilgreina aðra. Vandamálið er hins vegar að skoðanir einstaklinga eru eins fjölbreyttar og þær eru margar. Þessi endalausa þráhyggja að flokka fólk og skilgreina það útfrá ákveðinni lífsskoðun, samfélagsstöðu, kyni, kynþætti, kynhneigð eða hvað eina er of mikil einföldun. Það gengur ekki upp að nota ákveðið viðhorf eða skoðun á einu málefni sem forsendu eða staðfestingu á öðru algjörlega ótengdu málefni.

Samfélag manna tekur sífelldum breytingum og það virðist jafnframt sífellt verða flóknara og margbreytilegra. Það er því að vissu leyti skiljanlegt að leitað sé leiða til að skilja og skilgreina aðra. Vandamálið er hins vegar að skoðanir einstaklinga eru eins fjölbreyttar og þær eru margar. Þessi endalausa þráhyggja að flokka fólk og skilgreina það útfrá ákveðinni lífsskoðun, samfélagsstöðu, kyni, kynþætti, kynhneigð eða hvað eina er of mikil einföldun. Það gengur ekki upp að nota ákveðið viðhorf eða skoðun á einu málefni sem forsendu eða staðfestingu á öðru algjörlega ótengdu málefni.

Samfélag dagsins í dag rúmast illa innan hefðbundinna skilgreininga í hægri og vinstri, auk þess sem fólk virðist leggja misjafnan skilning í þessa skiptingu. Ef til vill erum við einfaldlega komin of langt frá frönsku byltingunni til að þessi einfalda skipting gangi upp. Sumir eru íhaldsamir á vissum sviðum en mjög frjálslyndir á öðrum, aðrir byggja skoðanir sínar á trúarbrögðum eða lífsskoðunum og sumum er bara einfaldlega sama um suma hluti en hafa brennandi ástríðu fyrir öðrum.

Í upplýstu samfélagi verða hugmyndir og viðhorf að vera metin út frá innihaldi þeirra en ekki út frá öðrum skoðunum eða viðhorfum þess einstaklings eða hóps sem stendur þeim að baki. Það er miður að góðum hugmyndum er ítrekað hafnað vegna þess að þær hafa í upphafi verið flokkaðar í ákveðinn flokk eða koma frá aðilum sem tilheyra flokki sem okkur gengur illa að samsama okkur við. Að sama skapi hefur hörmulegum hugmyndum verið hrint í framkvæmd í skjóli þess úr hvaða flokki þær koma. Við verðum að hafa hugrekki til að gagnrýna slæmar hugmyndir og þá jafnframt styðja við þær góðu, út frá innihaldi þeirra en ekki uppruna.

Hvaða skoðun sem við höfum á ákveðnum málefnum væri það góð byrjun að hætta því að gera fólki upp ákveðna skoðun út frá einhverri forsendu sem maður gefur sér sjálfur, samhengið er ekki endilega til staðar og skoðanir eru ekki endilega rökrétt framhald af öðrum skoðunum. Ég er til dæmis femínisti en á móti kynjakvótum, íhaldssöm á sumum sviðum en frjálslynd á þeim flestum, ég vil lítil afskipti ríkisvalds en sterkt velferðarsamfélag, er hvorki með eða á móti ESB, fylgjandi umhverfisvernd en jafnframt hóflegri nýtingu auðlinda, trúuð en fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju, elska íþróttir en líka menningu og listir, kjötæta en áhugamenneskja um velferð dýra, fædd og uppalin á landsbyggðinni en drekk latte. Hvar viltu svo að flokka mig?

Latest posts by María Guðjónsdóttir (see all)

María Guðjónsdóttir skrifar

María hóf að skrifa í Deigluna í júlí 2008.