Hvað ef Brasilía vinnur ekki HM?

Þeir eru eflaust ófáir sem bíða með óþreyju eftir því að klukkan slái átta á fimmtudagskvöld þegar flautað verður til leiks í São Paulo þar sem opnunarleikur Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu fer fram. Heimamenn taka þá á móti Króatíu og hefja þar með veisluna, eins og HM er gjarnan kallað, en mótið er vinsælasti íþróttaviðburður í heimi og slær út sjálfa Ólympíuleikana.

Þeir eru eflaust ófáir sem bíða með óþreyju eftir því að klukkan slái átta á fimmtudagskvöld þegar flautað verður til leiks í São Paulo þar sem opnunarleikur Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu fer fram. Heimamenn taka þá á móti Króatíu og hefja þar með veisluna, eins og HM er gjarnan kallað, en mótið er vinsælasti íþróttaviðburður í heimi og slær út sjálfa Ólympíuleikana.

Í augum margra í Brasilíu er þó ekki um mikla veislu að ræða. Fréttir af mótmælum almennings í landinu vegna HM hafa vart farið framhjá mörgum sem og fréttir af dauðsföllum verkamanna sem unnið hafa hörðum höndum við að byggja leikvanga og önnur mannvirki í tengslum við mótið. Fréttir af auknu barnavændi og mansali í kringum keppnina hafa einnig borist. Allt varpar þetta skugga á hina svokölluðu veislu sem hefur að einhverju leyti dregið úr ástríðu Brasilíumanna þegar kemur að knattspyrnu.

Fyrir fjórum árum síðan, þegar að HM var í Suður-Afríku, ferðaðist ég til São Paulo í febrúar. Þá þegar mátti sjá í búðum og verslunum að heimsmeistaramótið í knattspyrnu var “handan við hornið”, eða eftir fjóra mánuði, þar sem gluggaútstillingar og skreytingar í verslunum voru í brasilísku fánalitunum og með flennistórum myndum af landsliðshetjunum.

Í apríl sl. fór svo vinkona mín til Rio de Janeiro að undirbúa mastersverkefni sitt, en hún er að skoða hvaða væntingar millistéttin í borginni hefur til keppninnar. Fólk sem hún talaði við benti henni á að hvergi í verslunum væri nú að finna mikið um skreytingar eða útstillingar í tilefni HM. Borgarbúar væru líka ekki mikið að hengja brasilíska fánann upp í glugga heima hjá sér, eins og venja er þegar að keppnin nálgast, vegna þess hversu óánægðir þeir eru með allt sem gengið hefur á við undirbúning mótsins.

Brasilía er langt því frá fátækt ríki en misskipting auðs er þar gríðarleg og sést ef til vill best á því hvernig komið er fyrir menntakerfi landsins. Þær fjölskyldur sem hafa fé milli handanna geta veitt börnum sínum góða menntun í einkareknum grunn-og menntaskólum en opinbera menntakerfið hefur setið eftir. Það er ekki skólaskylda í Brasilíu og því var það lengi svo að fátækar fjölskyldur sendu börnin sín ekki í skóla heldur létu þau vinna fyrir salti í grautinn. Yfirvöld hafa reynt að stemma stigu við þessu með því að borga foreldrum fyrir að senda börnin sín í skóla og hlýtur mikill meirihluti fátækra fjölskyldna slíka fjárhagsaðstoð.

Gallinn við Bolsa Familía, eins og prógrammið heitir, er hins vegar sá að gæði menntunar í opinberum skólum eru ekki tryggð. Mótmælin í kringum HM snúast nefnilega að mestu leyti um léleg gæði menntunar og heilbrigðiskerfis í Brasilíu, því á meðan ríkisstjórnin hefur dælt peningum í að byggja íþróttamannvirki hefur velferðarþjónustan setið á hakanum. Peningar hafa svo að sjálfsögðu farið í að auka löggæslu og aðgerðir á hendur glæpagengjum en hvers vegna? Ekki vegna öryggis almennings í Brasilíu heldur vegna þess að tryggja þarf öryggi ferðamanna sem byrjaðir eru að streyma til landsins, flestir frá háþróuðum vestrænum ríkjum, til að taka þátt í “veislunni.”

Afleiðingar af hertri löggæslu og aðgerðum í fátækrahverfum Rio de Janeiro eru m.a. annars þær að glæpagengin að einhverju leyti flutt starfsemi sína frá borginni og fært sig til til dæmis Salvador og Belo Horizonte. Einnig eru hverfi sem áður voru talin örugg á mælikvarða Rio orðin hættulegri vegna rótsins í kringum heimsmeistaramótið.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála á HM í ár, ekki síst utan vallar. Umrædd vinkona mín, sem er einmitt aftur komin til Rio vegna rannsóknar sinnar, sagði mér frá því hvað brasilísku vinir hennar sögðu við hana í fyrri ferð hennar í apríl. Þeir telja, líkt og margt annað ungt fólk, að úrslitin á HM liggi nú þegar fyrir. Brasilía muni vinna. Brasilía verður að vinna. Annars verður fjandinn laus og það vita Dilma Rousaeff, forseti landsins, og FIFA.

Því að hvað ef Brasilía kemst ekki í úrslitaleikinn? Ef að liðið dettur út í undanúrslitum? Þá er mótinu sjálfhætt því þá mun verða mótmælt sem aldrei fyrr. Til hvers var annars gestgjafinn að eyða öllum þessum pening í veisluna ef hann sjálfur er ekki hrókur alls fagnaðar?

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.