Ný forysta í Stúdentaráði

Á fyrsta fundi nýkjörins Stúdentaráðs Háskóla Íslands í gær var Brynjólfur Stefánsson, verkfræðinemi, kosinn formaður ráðsins fyrir komandi starfsár. Var fundurinn sá fyrsti síðan 1991 þar sem fulltrúar Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, voru í meirihluta en í ráðinu sitja nú 20 fulltrúar, 11 frá Vöku og 9 frá Röskvu, samtökum félagshyggjufólks.

Á fyrsta fundi nýkjörins Stúdentaráðs Háskóla Íslands í gær var Brynjólfur Stefánsson, verkfræðinemi, kosinn formaður ráðsins fyrir komandi starfsár. Var fundurinn sá fyrsti síðan 1991 þar sem fulltrúar Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, voru í meirihluta en í ráðinu sitja nú 20 fulltrúar, 11 frá Vöku og 9 frá Röskvu, samtökum félagshyggjufólks.

Í kosningunum til Stúdentaráðs dagana 20. og 21. febrúar sl. vann Vaka mjög nauman sigur. Fékk 1617 atkvæði gegn 1613 atkvæðum Röskvu. Þróunin síðustu ár hefur verið í þá átt að munurinn á milli fylkinganna hefur sífellt minnkað og í ár náði Vaka að komast yfir hjallann. Fyrir Vökufólk hlýtur þessi áfangi að vera mjög kærkominn en sífellt betri árangur undanfarin ár hefur gert það að verkum að þrátt fyrir andstreymi hefur Vökufólk ekki misst móðinn heldur sameinað krafta sína ár eftir ár í því augnamiði að tryggja sigur í háskólakosningunum. En markmiðið með þátttöku í félagsstarfi og stjórnmálum getur þó aldrei verið svo yfirborðskennt að það snúist aðeins um kosningasigur. Markmiðin hljóta að vera háleitari.

Í rúman áratug hefur Röskva farið með meirihluta í Stúdentaráði og á því tímabili hefur ýmis árangur náðst í hagsmunabaráttu stúdenta. Hins vegar hefur það orðið sífellt greinilegra að málflutningur Röskvu hafi fremur einkennst af landspólitískum sjónarmiðum en hagsmunum stúdenta og í stað þess að stærsta hagsmunaafl stúdenta hafi einbeitt sér að því að bæta Háskóla Íslands þá hefur málflutningur ráðsins í auknum mæli einkennst af öfundaráróðri gegn öðrum skólum á háskólastigi. Stúdentaráð hefur ítrekað lýst því yfir að samkeppnisstaða Háskólans sé vonlaus og lýsir oftar yfir þungum áhyggjum að þróun mála en bjartsýni um framtíðina. Þannig hafa skilaboðin frá forystumönnum stúdenta til samfélagsins verið þau að til þess að Háskóli Íslands geti dafnað þá þurfi að leggja hindranir í veg annarra skóla.

Líklegt er að mikill viðsnúningur verði á málflutningi Stúdentaráðs við þau stjórnarskipti sem urðu í gær. Vaka hefur lagt áherslu á að forystufólk stúdenta þurfi að taka þátt í því að leysa vandamál Háskólans – því þeir sem ekki eru hluti af lausninni þeir eru hluti af vandamálinu. Stúdentaráð þarf að senda þau skilaboð út til samfélagsins, ekki síst atvinnulífsins, að Háskóli Íslands sé frambærilegur skóli sem bjóði upp á hvetjandi umhverfi og ekki síst þarf SHÍ að senda þau skilaboð til stúdenta – núverandi, fyrrverandi og verðandi – að Háskóli Íslands sé ekki hornreka heldur hornsteinn í íslensku samfélagi.

Háskólasamfélög stjórnast, eins og önnur samfélag, að miklu leyti út frá hefðum og hugarfari. Sé hugarfar fórnarlambsins ríkjandi í háskólasamfélaginu er líklegt að það drabbist smám saman niður og verði undir í samkeppninni. Sé hugarfar frumkvöðulsins hins vegar ríkjandi eru líkur á því að háskólasamfélagið nái að blómstra. Eitt af meginmarkmiðum Vöku í meirihluta Stúdentaráðs hlýtur að vera að stuðla að jákvæðara hugarfari í Háskólanum og að styrkja ímynd hans sem leiðandi afls í íslensku mennta- og menningarlífi.

Deiglan óskar nýkjörnum formanni Stúdentaráðs til hamingju og vonar að nýir straumar í forystu stúdenta muni reynast Háskóla Íslands vel.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)