Breyttar áherslur í stjórn?

Líkt og með margt annað í viðskiptum á Íslandi ríkja einfeldnisleg viðhorf til stjórnarsetu í fyrirtækjum. Mjög er misjafnt hvernig slíku er háttað erlendis. Stjórn Landsímans hefur verið milli tannana á fólki undanfarið.

Hér á landi þykir flott að sitja í stjórnum fyrirtækja. Það þykir upphefð, merki um ábyrgð, völd og jafnvel að viðkomandi hafi eitthvað til brunns að bera, t.d. gáfur eða góð sambönd. Þannig telja margir að stjórnarsetan felist í því að sitja nokkra fundi á ári, fara yfir ársreikninga, lesa nokkrar skýrslur og rétta svo upp hönd við og við þegar gæta þarf hagsmuna sinna hluthafa. Ég held líka að þetta sé ágæt lýsing á stjórnum í mjög mörgum íslenskum fyrirtækjum.

Stjórnir fyrirtækja eru kosnar á hluthafafundum og því veljast í þær fulltrúar stærstu hluthafanna. Þeirra verkefni verður því oftar en ekki að gæta hagsmuna þessara hluthafa. Hagsmunir hluthafa eru oftast sameiginlegir, að fyrirtækið vaxi og dafni. En þó eru oft einhverjir sem hafa sérhagsmuni sem þeir telja að þeir þurfi að gæta að.

Umræða undanfarinna daga um stjórnarlaun hefur nokkuð einkennst af þessu bitlingaviðhorfi, enda eru stjórnarlaun í mörgum fyrirtækjum líklega miðuð við það. Í þeim löndum þar sem viðskiptalífið hefur tekið út meiri þroska en hér á Íslandi er þessu að nokkru öðruvísi farið. Í Bandaríkjunum tíðkast það t.d. yfirleitt ekki að stjórnarformenn stærri fyrirtækja sinni öðrum störfum. Hvað þá að þeir séu forstjórar í öðrum stórfyrirtækjum eða sinni stjórnarformennsku í fjölmörgum fyrirtækjum.

Stjórnarmenn stórfyrirtækja annars staðar en hér eru oft ekki fulltrúar ákveðinna hluthafa, heldur sérfræðingar á ákveðnum sviðum sem tengjast rekstri fyrirtækisins. Þar sem því er ekki til að dreifa eru í staðinn settar saman ráðgjafanefndir með slíkum sérfræðingum. Stjórnarlaun í þessum fyrirtækjum eru yfirleitt há, enda um sérfræðinga að ræða sem vinna dýrmæta vinnu. Hérlendis eru stjórnarlaun aftur á móti frekar lág, enda virðist oft sem um nokkurs konar tómstundagaman sé að ræða.

Stjórnir fyrirtæka eru ekki einungis rödd hluthafa. Þær eiga einnig að stjórna stefnumótunarvinnu og vera leiðandi um skipulag og stjórnun fyrirtækjanna. Þær gegna einnig mikilvægu eftirlitshlutverki fyrir hluthafa auk þess sem ekki má gleyma að stjórn ber ábyrgð gagnvart yfirvöldum á greiðslu opinberra gjalda o.þ.h. Það á því ekki að vera hobbí eða grín að sitja í stjórn stórfyrirtækis heldur mikil vinna sem fyglir gríðarleg ábyrgð.

Stjórn Landsímans var að mestu skipuð gæðingum úr flestum flokkum en ekki sérfræðingum í fjarskiptum og rekstri. Hlutverk þeirra var fyrst og fremst pólitískt en ekki rekstrar- eða stjórnunarlegs eðlis og því sjálfsagt að laun fyrir stjórnarsetu væru ekki mjög há. Stjórnin var skipuð á röngum forsendum í upphafi, gamla góða íslenska leiðin var höfð að leiðarljósi.

Hækkun launa stjórnarmanna hlýtur að fela í sér skilaboð um að hér sé faglegri stjórn á ferðinni, án þess að ég vilji kasta nokkurri rýrð á fyrrum stjórnarmenn, enda veit ég að sumir þeirra voru mjög hæfir. Enginn efast um að nýr stjórnarformaður sé mjög hæfur til starfans. Slíkri hæfileikamanneskju þarf að greiða góð laun, þótt sjálfur hefði ég hugsanlega viljað að viðkomandi gengdi ekki svo ábyrgðarmiklu starfi fyrir.

Rök samgönguráðherra um að greiða þurfi góð laun til hæfs fólks eru réttmæt í ljósi þeirra hremminga sem Síminn hefur gengið í gegn um undanfarið. Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun að skipta um stjórn og hækka launin. En við verðum þá að gera kröfu á móti að stjórnin sé virk og færi fyrirtækinu og hluthöfum aukinn hagnað en sitji ekki eingöngu sem pólitískir fulltrúar.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)