„Blessuð krónan“

Umræðan um gjaldmiðlamál á Íslandi litast oft af tilfinningum – því mörgum þykir vænt um gömlu góðu íslensku krónuna, eins og okkur þykir oft vænt um hluti sem hafa fylgt okkur lengi. En gagnsemi krónunnar er því miður minna en ekkert.

Við þekkjum það líklega öll að þykja undarlega vænt um dauða hluti. Þessir hlutir voru kannski gefnir af sérstökum vinarhug eða voru áður í eigu einhvers sem okkur þykir vænt um. Þegar ég var sex ára fékk ég til dæmis pennaveski í jólagjöf frá uppáhalds frænda mínum. Pennaveskið fylgdi mér alla skólagöngu mína.

Á meðan vinir mínir fengu ný og glitrandi pennaveski nánast fyrir hvern einasta vetur, með mismunandi He-man körlum og öðrum ofurhetjum – og síðar merkjum enskra fótboltaliða, þá hélt ég tryggð við gamla mosagræna rúskinnspennaveskið mitt, með tveimur hnepptum vösum framaná. Aldrei datt mér í hug að skipta því út. Annars vegar þótti mér vænt um það vegna þess hver gaf mér það – en hins vegar batt hefðin smám saman sterkan þráð milli mín og pennaveskisins. Það var ekki þannig að ég væri að stunda einhverja sérstaka æfingu í nýtni og naumhyggju með því að notast við pennaveskið í næstum 15 ár – mér hreinlega datt ekki í hug að vilja annað.

Hlutir sem öðlast slíkan sess hjá manni geta jafnvel haft einhvers konar persónulega eiginleika í huga manns. Ekki er óalgengt að þeir þjóni sem lukkugripir, að maður tengi velgengni eða mistök við hlutina sjálfa. Og svo fer maður líka smám saman að hafa það á tilfinningunni að hollustan við hinn dauða hlut sé á einhvern hátt endurgoldinn. Einhvers staðar í sálardjúpinu eru taugar sem segja manni að maður þurfi að koma fram við pennaveskið eins og maður vill að pennaveskið komi fram við mann sjálfan.

Pennaveskið var við hliðina má mér, og geymdi á vísum stað allt sem ég þurfti, þegar ég tók erfið próf sem gengu vel – og líka þegar ég mætti illa undirbúinn og gekk illa. Pennaveskið fylgdist þannig með og stóð með mér hvað sem á gekk að öðru leyti.

En svo gerðist það á endanum að pennaveskið glataðist. Þetta var líklega á síðustu árum menntaskóla – og það skal játast að þetta olli mér umtalsverðu hugarangri. Ég var raunverulega leiður yfir missinum. Mér fannst ég hafa brugðist pennaveskinu mínu, sem var auðvitað fullkomlega óverðskuldað því aldrei hafði það brugðist mér. Ég gerði því mikla leit – og hafði lengi augun opin fyrir því. En allt kom fyrir ekki. Pennaveskið glataðist og er ennþá ófundið.

En eins vænt og mér þótti um pennaveskið – þennan trygga samferðarfélaga minn í gegnum ólgusjó íslenska menntakerfisins – þá datt mér ekki í hug að hætta skólagöngu minni þegar þess naut ekki lengur við. Og nú – löngu seinna – þegar nánast allt sem ég vinn og hugsa er sett niður á tölvu – en ekki skrifað á blað, þá er líklegt að gagnsemi pennaveskisins væri lítið meira heldur en tilfinningalegur stuðningur. Hugsanlega væri það meira að segja orðið baggi – óþarfur forngripur. Þannig var það ef til vill best að pennaveskið hvarf þegar það gerði – enn í fullu fjöri og þurfti aldrei „að upplifa“ að verða tilgangslaus minjagripur, veikt enduróm af fyrri gagnsemi.

Minningin lifir – en lífið heldur áfram.

Afstaða margra til íslensku krónunnar er ekki ósvipuð þeim kærleika sem ég finn til gamla pennaveskisins míns. Hún var á sínum tíma ein af táknmyndum sjálfstæðrar og fullvalda þjóðar – merki um að Ísland gæti gert allt sem aðrar þjóðir gátu.

En ólíkt pennaveskinu mínu þá hefur íslenska krónan ekki alltaf reynst þjóðinni vel. Stjórnmálamenn og embættismenn hafa notað hana til þess að skekkja stöðu hagkerfisins og til að hygla sumum atvinnugreinum á kostnað annarra. Öll þessi óstjórn sést hvað best á því að frá því krónan stóð jafnfætis þeirri dönsku hefur verðgildi hennar rýrnað um 99,95%. Sá sem fékk í vasann hundrað danskar og hundrað íslenskar árið 1920 gæti í dag keypt jafngildi 2.280 gamalla íslenskra króna. Þetta er ekki góður árangur, en samt þykir okkur mörgum býsna vænt um krónuna.

Reyndar þykir mörgum svo vænt um hana að þeir persónugera hana og þeim sárnar ef talað er illa um hana. Og það mætti jafnvel halda að sú trú sé við lýði að krónunni sjálfri líði illa undan vondu umtali. „Það þýðir ekki að kenna blessaðri krónunni um,“ er sagt. Og stundum er sagt: „Krónan er að bjarga okkur,“ með ákveðnu stolti – eins og um sé að ræða uppáhaldsíþróttamann sem eftir langa niðursveiflu sýnir sig og sannar þegar mest á reynir í stórleik. Sumir fá fyrir hjartað þegar „krónan er töluð niður“ – annað hvort af meðaumkun með „blessaðri krónunni“ eða jafnvel einhvers konar ótta um að krónan fari í fýlu og hefni sín – eins og hún ætlist til að þjóðin sé þögul og meðvirk með dyntunum í henni.

Svo er sagt að eina vandamálið við krónunni sé að henni sé „illa stjórnað“ – og að hið eina sem þurfi til að bjarga henni sé að koma á fót fullkominni peningamálastjórn á Íslandi. Sumir vilja meira að segja líkja umræðu um að hætta að nota krónuna við einhvers konar uppgjöf. „Við gefumst ekki upp,“ er sagt – eins og það hljóti að vera sérstök þjóðardyggð að sýna gjaldmiðlinum okkar hollustu þótt hún sé ekki endurgoldin.

Það er því miður algjörlega óraunhæft að gera ráð fyrir því að hin fullkomna peningamálastjórn muni uppgötvast á Íslandi og að henni verði svo framfylgt án feilspors um alla eilífð. Því síður er líklegt að krónan öðlist einhvern tímann nægilegan trúverðugleika til þess að þykja gjaldgeng í alþjóðlegum viðskiptum. Og þótt ekkert af þessu sé nýmæli – og að þjóðin hafi samt sem áður komist ágætlega af – þá eru afleiðingarnir á 21. öldinni alvarlegri heldur en var fyrir nokkrum áratugum. Ástæðan er sú umbylting tækni og heimsviðskipta sem orðin er. Langflest lífvænleg fyrirtæki sem stofnuð eru á Íslandi stefna að því að selja vörur sínar og þjónustu á alþjóðlegum markaði – ekki bara Íslandi. Þetta er góð og jákvæð þróun fyrir hagsæld og framtíðarhorfur þjóðarinnar – en hún er ekki góðar fréttir fyrir „blessaða krónuna.“ Litla myntin okkar átti þátt í því að blása upp einhverja stærstu bankabólu veraldarsögunnar á Íslandi – og nú á hún þátt í því að draga úr lífskjörum okkar og möguleikum til vaxtar og verðmætasköpunar.

Rétt eins og íslenskir útvegsmenn þurftu að skipta úr huggulegu þilskipunum sínum yfir í vélbáta til að komast á gjöfulli mið upp úr aldamótunum 1900, og að hesturinn hafi smám saman breyst úr því að vera nauðsynlegasti samgönguþjónninn í að verða áhugamál – þá þarf íslenska hagkerfið nú á stærri og stöðugri gjaldmiðli en krónunni að halda til þess að hægt sé að nýta sér möguleika nútíðarinnar og framtíðarinnar.

Það yrðu vissulega viðbrigði að hætta notkun á íslensku krónunni – en ef við gerum það ekki þá er nánast öruggt að sífellt fleiri höft og hindranir verða lagðar á verðmætasköpun á Íslandi. Rétt eins og pennaveskið mitt var gagnlegt á meðan var og hét, þilskipin stóðu sína plikt og íslenski hesturinn var ómissandi fararskjóti um margar aldir – þá er réttast að íslenska krónan tilheyri sem fyrst minningunni en verði ekki þjóðinni fjötur um fót á leiðinni inn í framtíðina.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.