Talið niður í TAFTA

Beggja megin Atlantsála er núna að skapast tækifæri til að láta langþráðan draum um fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Bandaríkin loks rætast. TAFTA – Trans-Atlantic Free Trade Agreement, er svo augljóslega snilldarhugmynd að furðu sætir að ekki hafi verið gengið frá slíku efnahagslegu NATO samkomulagi fyrr. Þá er augljóst að Ísland verður að vera með í slíkum fríverslunarsamningi.

Beggja megin Atlantsála er núna að skapast tækifæri til að láta langþráðan draum um fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Bandaríkin loks rætast. TAFTA – Trans-Atlantic Free Trade Agreement, er svo augljóslega snilldarhugmynd að furðu sætir að ekki hafi verið gengið frá slíku efnahagslegu NATO samkomulagi fyrr. Þá er augljóst að Ísland verður að vera með í slíkum fríverslunarsamningi.

Hugmyndin að Norður-Atlantshafs fríverslunarsvæði er ekki ný á nálinni en það hefur ekki enn tekist að hrinda henni í framkvæmd. Ýmsar ástæður eru fyrir því. Hafa ber í huga að viðskipti milli Evrópu og Bandaríkjanna eru gríðarlega umfangsmikil og hafa löngum verið. Evrópusambandið er stærsti útflutnings- og innflutningsmarkaður Bandaríkjanna og öfugt. Þá eru tollar milli þessara aðila ekki ýkja háir eða almennt um 5-7%.

Í miðri efnahagskreppu er horft til þess að fríverslun myndi fjölga störfum og auka fjárfestingu. Í skýrslu sem The German Marhall Fund tók saman í febrúar 2012 kemur fram að afnám tolla milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna geti þýtt hátt í 86 milljarða dollar aukningu í landsframleiðslu ESB ríkjanna og 82 milljarða dollar aukningu í Bandaríkjunum. Það er því eftir einhverju að slægjast og rétti tíminn er núna.

Fráfarandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, sagði í ræðu í nóvember sl. að verið væri að ræða alvarlega að koma á fót samningaviðræðum við Evrópusambandið um alhliða samning sem myndi auka viðskipti og efla efnahagslegan vöxt bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Hún nefndi jafnframt að fjarlægja þyrfti viðskiptahindranir, eins og landbúnaðarverndarstefnu ESB, til auka mætti viðskipti og einfalda markaðsaðgengi. Þá er eftir því beðið að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefi nýtt kjörtímabil með því að leggja áherslu á fríverslunarsamningur við Evrópu verði að veruleika.

Ljóst er að innan Evrópusambandsins er mjög svo vaxandi áhugi, sérstaklega meðal Breta og Þjóðverja, á að efla viðskiptin við Bandaríkin. Almennilegur fríverslunarsamningur gæti verið það sem þyrfti til að vekja til lífsins veik og stöðnuð hagkerfi ESB ríkjanna. Að minnsta kosti eru þau lönd innan Evrópusambandsins, sem vilja veg verndarstefnu og áætlunarbúskaps sem mestan, byrjuð að átta sig á að frekari aukning ríkisútgjalda án hagvaxtar gengur ekki upp.

En þótt kostir fríverslunarsamkomulags milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna eru margþættir þá er þar með ekki sagt að samningaviðræðurnar verði einfaldar og stuttar. Evrópusambandið kann að krefjast þess að samkomulagið verði meira skylt við regluþrungið tollabandalag á meðan Bandaríkin kysu samning svipuðum NAFTA. Þá er augljóst að viðræður um sölu landbúnaðarafurða og afnám allskyns hindrana á því sviði og fleirum mun taka meira en einn dag. Það hefur allavega ekki skort hinar og þessar ástæður fyrir því að ekki hefur náðst samkomulag fram að þessu. Aukinn áhugi og vilji núna til að yfirstíga þessar hindranir mun vonandi duga til.

Ísland hefur augljósa hagsmuni af því að tilheyra þessum væntanlega stærsta og mikilvægasta fríverslunarsamningi heims. Nærtækast væri fyrir íslensk stjórnvöld að hefja þegar undirbúning og að styðja á alla lund að EFTA ríkin tækju jafnframt þátt í samningaviðræðum Evrópusambandsins og Bandaríkjanna og yrðu aðilar að slíkum fríverslunarsamningi. Ákjósanlegast væri að TAFTA yrði á endanum fríverslunarsvæði NAFTA, EFTA og ESB.

En allt eru þetta væntingar og allsendis óvíst um leiðir og samningsstöðu Íslands eða hvort af þessum viðræðum og fríverslunarsamningi verður. Eitt er þó víst. Ísland á efnahagslega allt undir því að landið sé opið fyrir utanríkisverslun og frjálsræði ríki í viðskiptum við umheiminn. Grípa verður því hvert tækifæri, að ekki sé talað um risatækifæri eins og nú er í burðarliðnum, til að treysta stöðu þjóðarinnar á þessu sviði.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.