Jólahugvekja 2012

Í hugvekju á jóladag 2012 fjallar Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson um að betra sé að deila með náunganum heldur en að deila við hann.

Á Þorláksmessu velti ég því fyrir mér hvað tungumálið er skrýtið og skemmtilegt. Hvað merking orða getur verið breytileg eftir því i hvaða samhengi þau standa. Eitt augljósasta dæmið er orðið hljóð sem merkir annars vegar þögn en hins vegar hávaða.

En það var annað orð sem greip athygli mína. Orð sem að blasir við í hvert sinn sem farið er inn á fésíðuna. Orðið deila. Það getur verið nafnorð í kvenkyni í samhengi eins og t.d. deilan um frumvarp um mannanöfn tekur engan enda og málþóf tefur fyrir lokaafgreiðslu.

En siðan kemur í ljós að biskupinn deilir við forsetann um stöðu kirkjunnar í landinu og hér er orðið sagnorð í merkingunni að þræta. Þannig deilum við um niðurstöðu kosninga og deilan getur orðið býsna hörð og óvægin.

Og við margföldum og deilum á milli okkar ágóðanum af vinnunni. Og við getum líka átt von á því að deila landsins gæðum með sauðkindinni um ókomin ár.

En við deilum á þá sem með ranginum hafa haft af öðrum en við viljum að Rauði krossinn deili út matargjöfum til stríðshrjáðra barna.

En hvaða tengingu hafa þessar vangaveltur við jólin.

Þetta hefur auðvitað heilmikið með jólin að gera þegar betur er að gáð. Jólin fjalla um það að Guð deilir kjörum með mannkyninu og staðfestir það í Jesú frá Nazaret. Göngum nær og inn í drama jólanna.

Fátækt fólk var á ferð. Yfirvöldin voru stöðugt í deilum og átökum. Bæði við sitt eigið fólk og aðrar þjóðir. Það varð að skrásetja alla heimsbyggðina svo skattleggja mætti alla og allt sem lífsanda dró enda átti það auðvitað að vera í þágu alþýðunnar að herinn væri vel vopnum búinn svo lægja mætti öldur ófriðar og stilla til friðar þar sem deilur voru uppi og menn áttu í útistöðum við ríkjandi valdhafa.

Fátækt fólk var á ferð. Það hafði aðrar áhyggjur en valdhafarnir. Þegar komið var á áfangastað var stund konunnar kominn og hún ól son og vafði reifum og lagði í jötu en ekki var pláss fyrir þau í gistihúsinu. Það er sagt frá þessum atburði í Lúkasarguðspjalli. Hvað svo sem segja má um sagnfræðina þá skín úr frásögninni samúð með alþýðufólki sem dregur fram lífið í sveita síns andlits. Samstaða með fólki er rauður þráður í guðspjallinu.

Það voru fátækir hirðar sem fyrstir fengu að heyra erindi englanna um að frelsari væri fæddur og þeir hröðuðu sér að jötu lausnarans og veittu honum lotningu.

Þannig var upphafið í Betlehm og seinna þegar barnið varð maðurinn Jesús frá Nazaret þá voru fyrstu fylgjendur hans fiskimenn og fólk á jaðri samfélagsins. Og kirkjusagan kennir okkur að það var fátækt fólk sem í upphafi umfaðmaði hina nýju trú og bar hana fram til sigurs.

Við altari Dottins deila allir sömu kjörum hvernig svo sem högum fólks er komið að öðruleiti. Það er staðfest í útdeilingunni í altarissakramentinu að við erum öll dýrmæt í augum Guðs. Við deilum sameiginlegum kjörum hvert með öðru. Ríkur og fátækur mætast en Drottinn skapaði báða.

Jesú frá Nazaret sem fæddist í Betlehem og lagður var í jötu lágt ríkir nú á himnum hátt. Um kenningar hans hafa verið skrifaðar þykkar bækur en hinn einfaldi kristindómur er að hver sá sem vill hafa orð Jesú í huga og vill fylgja þeim verður að vera reiðubúinn að deila kjörum með samferðafólki sínu og koma fram við aðra eins og hann vill að aðrir komi fram við sig.

Það gengur ekki upp að tala um ljósið en bera út myrkur með verkum sínum. “Sá sem sáir ranglæti uppsker ógæfu. Hinn örláta munu menn blessa því að hann gefur hinum fátæka af brauði sínu. En góður er auður sem vel er fenginn. ( Orðskviðir Salómons )

Á fésíðunni deili fólk lífi sínu og skoðunum með öðrum. Í anda Jesú frá Nazaret deilir kirkjan fagnaðarerindinu um að við eigum að vera óhrædd en lifa fyrir og með fólki. Deila kjörum með öðrum en forðaðst deilur og átök. Minnug þess að: “að gott mannorð er betra en mikill auður.”

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

Gleðileg jól.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)