Allt er best í hófi

Hóf er hagkvæmast.
Allt kann sá er hófið kann.
Meðalhóf er best.
Vandratað er meðalhófið.
Meðalhófið er marghæfast.

Hóf er hagkvæmast.
Allt kann sá er hófið kann.
Meðalhóf er best.
Vandratað er meðalhófið.
Meðalhófið er marghæfast.

Allt eru þetta íslenskir málshættir og spakmæli sem margir þekkja. Hófsemi hefur alltaf verið talin dyggð í íslensku samfélagi og að sama skapi hefur óhóf verið talin mikill löstur.

Á fáu kann heimskur hóf.
Eftir óhóf kemur örbirgð.
Fá eru óhófin löng.
Óhófið fær sult um síðir.
Ekkert óhóf kann lengi að standast.

Fréttir er snúast að hófsemi í ýmiskonar mat og drykk eru einnig vinsælar; rauðvín er talið gott í hófi, einnig súkkulaði, fita og svo lengi mætti telja. Oft eru nú reyndar mis áreiðanlegar heimildir og rannsóknir á bakvið slíkar fréttir en þó er erfitt að neita því að hófsemi sé dyggð og óhóf sé löstur.

Vigdís Finnbogadóttir er hógvær kona. Hún hefur á áranna rás verið stórkostleg fyrirmynd í íslensku samfélagi og það að Íslendingar hafi verið fyrsta þjóð í heiminum til að kjósa sér konu sem forseta er enn merkilegt og stór þáttur í hversu opið og fordómalítið íslenskt samfélag er. Í kringum alþjóðlega kvennadaginn þann 8.mars, birti The Independent grein um bestu og verstu löndin í dag til að vera kona, heilt yfir og skv. ákveðnum þáttum. Í fyrsta sæti heilt yfir var Ísland og í því síðasta var Jemen í Mið-Austurlöndum. Norðurlöndin koma sterk inn varðandi barneignir, Lúxemborg til að græða peninga og í Japan lifa konur lengst.

Þrátt fyrir að Ísland sé talið mjög framarlega og jafnvel fremst í jafnrétti þá er margt rétt sem Vigdís bendir á í viðtali við Monitor blaðið í síðustu viku. Launajafnrétti er ekki algjört og í mörgum tilvikum eru störf kvenna ekki metin að jöfnu við störf karla, þó þetta sé ekki algilt. Við erum heppin hversu framarlega við erum í jafnrétti og mikið af því hefur verið áorkað án nokkurskonar kynjakvóta. Þó alltaf megi gera gott betur er engin ástæða fyrir fólk og fjölmiðla að hafa allt á hornum sér, fara í vörn og etja saman fólki, til þess eins að skapa spennu og leiðindi fyrir að minnast á að öfgar geti eyðilagt góðan málstað. Að mati greinahöfundar er jákvæð mismunun td. engan veginn skref í átt að jafnrétti, heldur einungis mismununun og alls ekki jákvæð, því er fullkomlega eðlilegt að við þurfum líka að vera á varðbergi gagnvart karlrétttindum.

Öfgar í trú, pólitík, mat, lífi og svo lengi mætti telja geta aldrei talist góðar, en að reyna að snúa út úr og túlka orð Vigdísar sem árás mætti því vel kalla öfgablaðamennsku, sem einungis snýst um að flettingar og fjölda athugasemda. Margir feministar eru að vinna gott og óvinsælt verk með að benda á óþægilega hluti og hafa sig ötullega frammi til að halda umræðunni gangandi og er ekki annað hægt en að hrósa þeim fyrir það. Því miður er þó engum til framdráttar að láta draga sig niður á umræðustig sorprita og hafa upp úr sér ummæli er varða útúrsnúning á móðurlegum ráðum einnar helstu kvenfyrirmyndar okkar kynslóðar og ummæli um ‘photoshop’ í blaði sem er þekkt fyrir þann myndvinnslustíl að semí-teiknimyndagera forsíður og myndir í blaðinu. Með að skoða forsíður Monitor aftur í tímann þá sést að þetta er allt sami stíllinn, ýktir litir og mýktar línur.

Monitor viðtalið við Vigdísi er mjög einlægt og opið. Það skín í gegn hversu vel og fallega Vigdís talar um Ísland og hversu vænt henni þykir um fólk. Hættum að láta öfgablaðamennsku ata okkur saman af hvaða kyni eða þætti sem við erum. Við erum öll ólík og frábær á okkar hátt, við getum lært af hvort öðru og kennt hvort öðru, en aðeins ef stöndum saman og gætum þess að láta ekki stía okkur í sundur af græðgi einni saman, skvettum ekki olíu á eldinn.

http://www.ms.is/Islenska/Islenskuatak/Listi-yfir-malshaetti/
http://www.independent.co.uk/news/world/politics/revealed-the-best-and-worst-places-to-be-a-woman-7534794.html
http://mbl.is/monitorblod/M2012-03-22.pdf
http://www.mbl.is/folk/monitor/blodin/

Latest posts by Erla Margrét Gunnarsdóttir (see all)