Gráðug ríkisstjórn

Ríkisstjórnin verður sífellt gráðugri í að taka sér ráðstöfunarrétt yfir þeim verðmætum sem til verða á Íslandi. Réttlætingin er fyrst og fremst sótt í aðra höfuðsynd – öfundina.

Steingrímur J. Sigfússon var kampakátur í gær þegar hann kynnti nýtt frumvarp um stóraukna skattlagningu á sjávarútveginum. Frumvarpið felur líka í sér ýmis spennandi tækifæri fyrir stjórnmálamenn til þess að stjórna því hvernig uppbyggingu og nýliðun í greininni sé háttað. Framsal aflaheimilda, undirstaðan í hagkvæmni íslensks sjávarútvegs, er takmarkað verulega og gríðarlegri óvissu er bætt ofan á rekstrarskilyrði íslenskra útvegsfyrirtækja.

Ég samgleðst ekki með Steingrími yfir því að stóraukinn hluti af arðsemi mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar verði látin renna beinustu leið í ríkissjóð. Það er alveg sama hversu oft Steingrímur og Jóhanna halda því fram að ég eigi einhvern hlut í verðmætasköpuninni á sjó – ég hreinlega sé það ekki. Ég kann ekki að stýra bát, ég kann ekki að leggja net, ég hef enga þekkingu á veiðislóðum, ég kann ekkert að verka fisk, ég kann ekki að búa hann til flutnings, ég veit ekki hvert ég á að senda hann og hvernig ég fæ best verð fyrir hann. Samt segja Steingrímur og Jóhanna að ég eigi að vera mjög sáttur við að fólkið sem kann þetta allt þurfi að gefa mér meira af þeim verðmætum sem það skapar. Mér líður bara ekkert vel með það. Þar hef ég sjálfur ekkert lagt af mörkum og finnst ég ekki eiga heimtingu á hlutdeild í afrakstrinum.

Græðgi er ein af höfuðsyndunum. Flest forn speki varar sérstaklega bæði við henni og öfund. Á þessu tvennu virðist ríkisstjórnin nærast hvað helst. Græðgi er ekki að vilja verða ríkur eða njóta velgengni á eigin forsendum. Græðgi er að vilja sópa til sín afrakstri vinnu annarra án þess að hafa til þess unnið. Öfund er ekki það sama og að þrá að lifa jafn góðu lífi og einhver annar. Öfund er að hatast við velgengni annarra og þola ekki að horfa upp á hamingju þeirra eða árangur.

Hugsunin á bak við stóraukna skattlagningu í sjávarútvegi byggist á græðgi sem er réttlætt með öfund.

Með svipuðum rökum og nú eru notuð til þess að sjúga hagnaðinn út úr sjávarútveginum er hægt að réttlæta aukna skattlagningu á nánast allt sem vel gengur. Nýtur til dæmis ekki CCP góðs af því að hér á Íslandi er ríkisrekið menntakerfi? Væri ekki rétt að félagið greiði sérstaklega fyrir það? Hvað með Gylfa Þór Sigurðsson? Ólst hann ekki upp í niðurgreiddri íslenskri íþróttahreyfingu og naut góðs af yfirbyggðum íþróttahöllum? Væri ekki rétt að hann borgaði aukalega fyrir afraksturinn af þeirri fjárfestingu almennings núna þegar hann slær í gegn?

Stjórnmálamenn á borð við Steingrím J. og Jóhönnu gera út á að lofa fólki að fá eitthvað fyrir ekkert. En sannleikurinn er sá að í raun eru þau smám saman að mylja undir sig meiri völd. Þau virðast ekki skammast sín fyrir að telja sig eiga nánast takmarkalaust tilkall til þeirra verðmæta sem aðrir skapa. Þetta er græðgisvæðing íslenskra vinstri manna.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar eru búnir að fella grímuna. Þeir fara ekki í felur með þá grundvallarafstöðu sína að afrakstur allrar vinnu á Íslandi, sérstaklega þeirrar sem þykir markaðsvara í útlöndum, sé eign ríkisins og að þeir hafi rétt til þess að ráðstafa henni. Þetta kemur fram í því þegar fjargviðrast er yfir því að „dýrmætum gjaldeyri“ sé eytt í fjárhættuspil á netinu, þegar lífeyrissjóðirnir eru neyddir til að flytja erlendar eignir til Íslands og lána ríkinu (undir hótunum um stórfelldar skattahækkanir), og þegar gjaldeyrislögreglan ryðst inn í stórt alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki, væntanlega vegna gruns um að ekki sé farið eftir ólögunum sem hér gilda um höft á gjaldeyrisviðskiptum.

Ekki er það geðslegra að svo vilji til að sú innrás eigi sér stað daginn eftir að hið skaðlega frumvarp um sjávarútveg er kynnt.

Einstaklingar og fyrirtæki eru þannig nánast flokkaðir eins og starfsmenn stjórnvalda. Réttur manna til þess að eiga sjálfir það sem þeir afla er algjörlega fótum troðinn og léttvægur metinn. Ef þessu er ekki snúið við þá er hér um grundvallarbreytingu á samfélagsskipaninni að ræða. Þeir stjórnarþingmenn sem ennþá telja sig frjálslynda hljóta að fara spyrna fótum við þessari þróun.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.