Herlaus þjóð í stríði – kynjastríði

Ég lít enn upp til Vigdísar Finnbogadóttur sérstaklega eftir að hún lét þau orð falla í viðtali við Monitor að hún vilji jafnrétti fyrir bæði stelpur og stráka og sagði jafnframt að allar öfgar væru hættulegar. Við eigum ekki að etja kynjunum saman. Við erum frábært teymi konur og karlar, við bætum hvert annað upp.

Það er samt einhvern veginn þannig, held ég, að konur eru frekar áhrifavaldar hjá stelpum og karlar hjá strákum án þess að maður sé eitthvað að pæla sérstaklega í því. Ég held að það sé bara vegna þess að maður samsamar sig frekar við sitt kyn, en þetta er auðvitað ekki algilt.

Ég horfði alltaf til Vigdísar Finnbogadóttur frá því að ég man eftir mér, ég er fædd 1977 og hún var kjörin forseti 1980. Mér fannst bara eðlilegt og sjálfsagt að kona væri forseti, ég þekkti ekkert annað.
Síðar gerði ég mér grein fyrir því hversu einstakt það væri að við ættum kvenforseta og það fyllti mig stolti. Vigdís komst á Bessastaði eftir eitilharða kosningabaráttu við karla. Hún komst þangað í krafti eigin verðleika og án allra kynjakvóta, sem mér finnst vera svo mikill sigur, sérstaklega í ljósi umræðunnar í dag og fyrirhugaðs kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Í mínum huga eru aðrar ástæður, en fordómar gegn konum, sem liggja að baki þvi að það eru færri konur í stjórnum einkafyrirtækja en karlar, sem ég ætla ekki að útlista nánar hér. Það er efni í næsta pistil.

„Ungar sjálfstæðiskonur á móti kynjakvóta til að þóknast körlunum í sjálfstæðisflokknum“
Ég er sjálfstæðiskona og og hef alltaf verið á móti kynjakvótum. Fyrir það hef ég fengið ýmsar svívirðingar frá kynsystrum mínum í öðrum flokkum, til dæmis hef ég fengið að heyra að ég sé einungis á móti kynjakvótum til að þýðast karlana í Sjálfstæðisflokknum. Þetta er með því ljótasta sem hefur verið sagt við mig á ævi minni. Því ég get ekki skilið þessi orð öðruvísi en svo að verið sé að ýja að því að ég hafi ekki sjálfstæða hugsun. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig kona sem segist vera kvennréttindakona getur sagt slíkt við stallsystur sína í öðrum flokki, en svona rista hugsjónirnar stundum grunnt. Það eru til mismunandi leiðir til að ná fram jafnrétti og að tala niður til þeirra sem ekki eru fylgjandi valdboði til að ná fram kynjajafnrétti finnst mér vægast sagt einkennileg baráttuaðferð svo ég orði það nú mildilega. Mín vegna mega vinstrimenn vera fylgjandi kynjakvóta, þeir eru það á sínum forsendum eins og ég er á móti honum á mínum forsendum.

Ég er alveg sammála því að það mættu vera fleiri konur í stjórnunarstöðum, bæði hjá hinu opinbera og í einkafyrirtækjum. Mér finnst gaman að fylgjast með öflugum konum sem hafa náð árangri. Jóhanna Sigurðardóttir er ein þeirra, sama hvað hverjum finnst, þá hefur hún náð hátindi stjórnmálamannsins. Ég ber mikla virðingu fyrir henni. Hún er fyrsti kvenforsætisráðherra þjóðarinnar, ein valdamesta manneskja Íslands. Að auki er hún lesbía sem gerir þetta einhvern veginn enn þá svalara. Við Íslendingar erum frjálslynd þjóð. Við berum virðingu fyrir einstaklingnum, hvort sem hann er karl eða kona, lesbía eða hommi eða hvað annað. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem stundum eru kallaðir „kverúlantar“ sem vilja ekki sjá konu hér eða karl þar. Það verður alltaf þannig sama hvað við gerum til að reyna að breyta því.

Þú rekur ekki út fordóma með fordómum
Ég held að það sé ekki hægt að kveða allar þessar raddir í kútinn og ég held að aðferðin til að þagga niður þessar raddir sé ekki að draga fram skítinn sem fólkið lætur út úr sér á netinu um konur og karla. Það er leið niðurifs, þú rekur ekki út fordóma með fordómum. Ég held að okkur væri nær að benda til dæmis á þær konur sem hafa náð langt og benda stelpunum sem líta upp til kvennanna á þessar flottu konur sem eru um allt samfélagið í stað þess að draga fram einstaklinga sem segja eitthvað í bræði í kommentakerfinu og gera það að aðalumræðuefni samfélagsins. Væri ekki nær að benda á það sem gengur vel í stað þess að velta sér alltaf upp úr því versta. Ég er sannfærð um að í 99,9% tilvika hrífast karlar af því sem konur gera og öfugt. Leggjum niður vopnin, hættum að stríða og förum að njóta kosta hins kynsins og fjölbreytileikans sem felst í því að vera ólík – það er svo miklu skemmtilegra.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.