Dan Ariely er prófessor í sálfræði og hegðunarhagfræði (e. behavioural economics) við Duke háskólann í Bandaríkjunum. Hann hefur mikið skoðað hegðun fólks í mismunandi aðstæðum og eitt af því sem hann hefur rannsakað er hvernig fólki líður þegar það borgar fyrir hluti og hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á líðan okkar og hvenær okkur líður verr við að greiða fyrir upplifun eða hluti. Ariely og fleiri kalla þetta ‘borgunarsársauka’ (e. the pain of paying). Það eru allskonar þættir sem hafa áhrif á upplifun okkar af mat og hlutum og einn af þeim er hvernig og hvenær við greiðum fyrir þá. Stundum væri gott ef borgunarsársaukinn væri meiri, td. til þess að minnka mánaðarútgjöldin en í öðrum aðstæðum væri betra ef borgunarsársaukinn væri minni. Ariely hefur fundið út að fólki finnst verst að greiða með peningum, debetkortið er næst og kreditkortið hefur minnst áhrif á okkur. Það sem hefur einnig mikil áhrif er hvenær við greiðum fyrir hlutina. Td. ef við erum að fara í skemmtiferðarsiglingu þá njótum við siglingarinnar betur ef við höfum greitt fyrir hana nokkrum mánuðum fyrirfram heldur en ef við eigum að greiða fyrir hana á síðasta degi siglingarinnar. Auðvitað er betra fyrir budduna að geyma peninginn lengur inn á okkar reikning en í þeim aðstæðum þá erum við að hugsa um peningana síðustu dagana og það að fá sem mest fyrir peninginn í stað þess að njóta ferðarinnar.
Ariely gerði eitt sinn tilraun á nemendum sínum yfir hádegisverði. Nemendurnir áttu að greiða fyrir hádegisverðinn með því að borga fimmtíu sent fyrir hvern bita sem þau borðuðu. Þetta varð til þess að allir reyndu að taka sem stærsta bita og upplifunin af matnum var mun lakari og líðanin einnig þrátt fyrir að flestir hafi sparað einhverja dollara með þessari aðferð.
Nú hefur náttúrupassinn mikið verið til umræðu á Íslandi og margar neikvæðar raddir gegn honum. Margir vilja frekar að greitt sé á hverjum stað fyrir sig í stað þess að greiða 1500kr á þriggja ára fresti. Vegna kenninga Ariely og fleiri um borgunursárskauka þá er ég hlynnt náttúrupassanum í stað greiðslu á hverjum stað. 500kr á ári í þágu íslenskrar náttúru er ekki mikill peningur. Með náttúrupassanum, að því gefnu að peningarnir fari til uppbyggingar á hverjum stað, höldum við upplifuninni og þurfum ekki að taka upp veskið í hvert skipti sem við förum að skoða helstu náttúruperlur Íslands. Einnig tel ég að hættan væri sú að greiði fólk á hverjum stað fyrir sig muni ágangur aukast, því fólk er enn með hugsunina að það hafi nú verið að greiða fyrir þetta og eigi því meiri rétt í staðinn fyrir að njóta upplifunarinnar.
- Orðum fylgir ábyrgð - 22. apríl 2015
- The Pain of Paying - 9. febrúar 2015
- 105 er nýi 101 - 20. október 2014