Nú þegar aðalmeðferð í landsdómsmálinu langt komin er eitt atriði áberandi varðandi fréttaflutning af málinu, sem fer að mestu fram á twitter, og lýsir þetta atriði kannski ágætlega vanda málsins. Þrátt fyrir öll vitnin og spurningarnar hefur enn ekki komið fram hvaða afmarkaða ákvörðun eða aðgerð hins opinbera hefði getað afstýrt hruni bankanna.
Af þeim sökum gengur vitaskuld erfiðlega að ná utan um hvað sé saknæmt í málinu. Þegar dæmd er refsing fyrir sakir sem byggja á athafnaleysi eða ábyrgðarskyldum, liggur fyrir hver hin rétta aðgerð eða hinar réttu aðgerðir hefðu átt að vera. Ef gengið er fram á mann í lífsháska ber að bjarga honum og getur athafnaleysi í slíkum tilfellum verið refsivert, ef fyrir liggur að sá sem kom að hefði getað bjargað viðkomandi eða kallað á aðstoð. Hið sama á við um skipstjóra á skipi sem vanrækir að sinna öllum viðvörunum og vísbendingum og siglir skipinu í strand. Hann hefði getað beygt og afstýrt slysinu.
En þegar ekkert liggur fyrir um hvaða aðgerðir hefðu bjargað málunum, er vitaskuld ekki hægt að dæma til refsingar. Ef skip steytir á skeri og fyrir liggur að ekki var hægt að beygja framhjá því er ekki réttlátt að láta skipstjórann sæta refsiábyrgð.
Hvað þá að hægt sé að láta einn aðila bera ábyrgð á jafnstóru og margþættu máli og gjaldþroti banka og fjármálastofnana.
Auðvitað er enginn einhugur um þá söguskýringu sem leiddi til falls bankanna í október 2008. En um heildarmyndina eru menn nokkuð sammála, þ.e. að bankarnir uxu hratt og bættu jafnt og þétt við eignir sínar og skuldir sínar árin 2004-7 með almennri velþóknun stjórnmálamanna, eftirlitsstofnana, fjölmiðla og almennings, þótt auðvitað megi eftir á rifja upp einstaka varúðarorð frá þessum tíma. Þessi almenna velþóknun studdist ekki síst við þann glæsilega árangur sem bankarnir sýndu samkvæmt uppgjörum og ársreikningum, trekk í trekk. Í kringum þennan vöxt bankanna varð til mikið og þétt net af minni fjármálafyrirtækjum, fjárfestingafélögum og einkahlutafélögum, sem allt áttu það sameiginlegt að nærast á áframhaldandi vexti. Hann var undir lok þessa tímabils greinilega að miklu leyti drifinn áfram með því að bankarnir lánuðu inn í þennan vef til að passa að hann færi ekki í þrot. Þetta gat ekki gengið til lengdar og gekk alls ekki þegar möguleikar bankanna á að útvega sér fjármögnun á alþjóðlegum mörkuðum þrengdust verulega og nánast lokuðust alveg eftir því sem leið á árið 2008.
Í dag tengja margir „hrunið“ við þá gríðarlegu þjóðfélagsbreytingu og atburði sem urðu á þessu tímabili, ekki síst á vettvangi stjórnmálanna. En gjaldþrot bankanna þriggja, dagana 6. – 8. október 2008, var í sjálfu sér einfaldari atburður og gekk einfaldlega út á það að forsvarsmenn viðkomandi banka sáu fram á að bankinn myndi ekki geta staðið við skuldbindingar sínar daginn eftir og að við blasti gjaldþrot. Bankar eru þannig fyrirbæri að þeir þurfa á degi hverjum að standa skil á tilteknum skuldbindingum og sé ekki fé fyrir hendi til þess að ráða við þær skuldbindingar er ballið búið. Inn á milli eru svo stærri afborganir, eins og í tilfelli t.d. Glitnis haustið 2008, þar sem háar afborganir voru á gjalddaga um miðjan október og þær sáu menn fyrir með töluverðum fyrirvara. Þegar banki á framundan stóra afborgun af láni getur í grunninn tvennt gerst. Annað hvort er hún greidd eða ekki. Ef hún er greidd getur það komið til vegna þess að bankinn fékk endurfjármögnun eða vegna þess að hann átti fyrir greiðslunni. Ef hann getur ekki greitt, tekur gjaldþrot við.
Þetta er ágætt að hafa bak við eyrað þegar rætt er um þær leiðir sem unnt var að fara til að bjarga bönkunum, eins og oft er sagt. Því miður virðist sú hugsun enn ráðandi hjá mörgum sem tjá sig um þetta mál að stjórnvöld hefðu hæglega getað afstýrt þessu öllu, t.d. bara með því að skipa réttu nefndina og tryggja að hún ynni nógu markvisst og skrifaði nógu góðar fundargerðir, eins og einn ákæruliðurinn í landsdómsmálinu tekur fram. Eina leiðin fyrir hið opinbera til að bjarga bönkum sem gátu það ekki sjálfir var að setja inn í þá fé. Það hefði þurft að fjármagna með risalántökum ríkissjóðs – peningar sem hefðu án efa glatast í dag og stæðu eftir á reikningi skattgreiðenda.
Hin leiðin hefði verið sú að brjóta upp bankakerfið fyrr en gert var við setningu neyðarlaganna. Slík lagasetning er eitt af því sem hljómar svo sjálfsagt og eðlilegt í dag en var algerlega óraunhæft á þeim tíma. Menn geta velt því fyrir sér hvernig sú atburðarrás hefði spilast, t.d. í ársbyrjun 2008, ef þáverandi forsætisráðherra hefði einn góðan veðurdag, eftir lokun markaða, mætt í pontu á Alþingi og tilkynnt að nú yrðu þingmenn að afboða sig heim í kvöldmat, því framundan væri kvöldfundur þar sem rætt yrði um löggjöf til að skera íslenska bankakerfið upp, þar sem allt væri í skralli.
Á þessum tíma hefði þurft ansi hressilegan skammt af spádómsgáfu til að sjá hið óorðna. Þrátt fyrir að erfiðleikar væru í loftinu benti margt til þess að bankarnir myndu standast þá erfiðleika. Þeir nutu góðrar lánshæfiseinkunnar fram eftir ári. Eftirlitsstofnanir gerðu ekki athugasemdir á opinberum vettvangi. FME sendi ekki frá sér „svarta skýrslu“ um bankakerfið og Peningamál Seðlabankans um vorið 2008 töluðu um að efnahagskerfið stæði styrkum fótum. Þeir sem telja að þessar opinberu skýrslur Seðlabankans hafi falið í sér einhverja íslenska sveitamennsku geta svo kynnt sér skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því um mitt ár 2008 þar sem talið var að íslenska fjármálakerfið stæði þrátt fyrir allt traustum fótum. Bankarnir sýndu allir umtalsverðan hagnað um sumarið 2008 þegar uppgjör fyrir annan ársfjórðung voru kynnt.
Svo má ekki gleyma því að afleiðingarnar af slíkri löggjöf, jafnvel þótt tekist hefði að koma henni í gegn, hefðu í stórum dráttum orðið þær sömu, þ.e. að gömlu bankarnir færu í þrot, enda hefðu lánadrottnar gjaldfellt lán sín á bankana og nýir bankar komið í staðinn og tekið við tilteknum eignum og lánasöfnum gamla bankans.
Auðvitað voru höfð upp viðvörunarorð á sínum tíma um að illa kynni að fara og sum þeirra voru nokkuð nærri lagi um hvað myndi gerast. Engu að síður gat enginn séð fyrir það sem gerðist nákvæmlega, þ.e. að á þremur dögum í októberbyrjun myndu þrír stærstu bankarnir fara á hausinn, hver á fætur öðrum. Og viðvörunum fylgdu sjaldnast útfærðar aðgerðir um hvað gera skyldi. Og þótt það sé auðvelt í dag að setja sig í stellingar og teikna upp einhverja ímyndaða atburðarrás aftur í tímann þar sem stjórnvöld áttu að hafa sett lög sem brutu upp bankana og björguðu málunum, þá passar slíkt einfaldlega ekki við raunveruleikann á þeim tíma. Hvað þá að unnt sé að sakfella einn tiltekinn mann fyrir vikið.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021