Horfðu í spegilinn – bara ekki of lengi!

Eyðir þú löngum tíma fyrir framan spegilinn? Finnst þér gaman að vera að miðpunktur athygli? Ertu viss um að þú eigir eftir að ná langt í lífinu? Ertu flottastur á Facebook? Lestu þá áfram

Við þekkjum öll svona fólk, ef það er ekki í okkar nánasta umhverfi eða hreinlega við sjálf þá er það öruggt að við eigum einn (eða fleiri) svona vini á Facebook. Hér er verið að tala um sjálfselskendur (e. narcissists).

Hvað er sjálfsást (narcissism)
Enska orðið narcissist er tekið úr grískri goðafræði og vísar í Narkissos, manninn sem var svo upptekinn af sjálfum sér að hann eyddi öllum sínum tíma í að stara á spegilmyndina af sjálfum sér.

Sálfræðingar eru ekki á einu máli um hvernig beri að líta á sjálfsást. Ýmist er litið á hana sem einhvers konar sjálfsblekkingu, hugræna skekkju eða persónuleikaröskun. Sjálfsást er þó að finna í handbók um greiningu og upplýsingar um geðsjúkdóma (DSM IV) og er þar kölluð heitinu narcissistic personality disorder. Þar er sjálfsást skilgreind sem tilkomumiklar hugmyndir um eigið ágæti og mikilvægi (Coleman, 2009). Sjálfsást er fyrirbrigði á eins konar rófi en er ekki annað hvort eða fyrirbrigði en í næstu handbók (DSM V) sem kemur út árið 2013 stendur til að breyta skilgreiningum til samræmis við þetta (Kaufman, 2012).

Hvernig má koma auga á sjálfselskanda (narcissist)?
Sjálfselskendur eru uppteknir af draumórum um ótakmarkaða velgengni sína, völd, fegurð og fleiri eftirsóknarverða eiginleika. Þeir telja sig eiga umgangast flott og mikilvægt fólk, þeir hafa mikla þörf fyrir dýrkun og telja sig eiga að njóta sérmeðferðar hvar sem þeir eru (Coleman, 2009). Maður gæti haldið að þannig fólk væri einfaldlega óþolandi asnar sem enginn nennti að umgangast en svo er yfirleitt ekki með sjálfselskendur. Þeir eru einmitt skemmtilegir og spennandi ásamt því líka að vera yfirgangssamir og góðir í að vefja fólki um fingur sér. Sjálfselskendur vilja mun fremur að fólk dýrki þá en líki vel við þá.

Í innganginnum var minnst á Facebook í þessu samhengi, en það er einmitt kjörið tæki fyrir sjálfselskendur til að fá útrás. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að sjálfsást er algengari meðal fólks sem er fætt eftir 1982 (Twenge, Konrath, Foster, Campell og Bushman, 2008) og gæti það einmitt tengst notkun á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Twitter. Lesendur ættu ekki að vera að lengi að finna einn Facebook – vin í huganum sem gæti verið sjálfselskandi. Viðkomandi setur líklega oft inn myndir af sjálfum sér og bíður eftir like-um og athugasemdum um fegurð sína. Eins er viðkomandi líklegur til að nota Facebook til að fegra líf sitt og láta það líta út mun eftirsóknarverðara og spennandi en það er í raun. Það er í sjálfu sér áhugavert að fylgjast með þeirri þróun að fólk er í miklum mæli farið að segja frá lífi sínu (næstum því í rauntíma) á síðum eins og Facebook.

Sjálfselskendur er oft að finna á áberandi stöðum í samfélaginu, í skemmtanabransanum, stjórnmálum og sjónvarpi. Það liggur beint við að raunveruleikasjónvarp er draumastaður fyrir sjálfselskendur. Eins leita sjálfselskendur oft í einhvers konar leiðtoga og stjórnunarstöður þar sem þeir geta ráðskast með aðra að vild (Kaufman, 2012).

Karlmenn á þrítugsaldri
Sjálfsást virðist oft ná hámarki þegar einstaklingur er á þrítugsaldri en dvínar svo með aldrinum. Karlar virðast haldnir meiri sjálfsást yfir ævina en konur. Konur sem mælast háar á sjálfsást eru líklegar til að klæða sig á ögrandi hátt og stofna frekar til skyndikynna en aðrar konur. Það seinna á einnig við karla sem mælast háir á sjálfsást. Bæði karlar og konur sem falla í þennan flokk nota einnig grófara orðfæri en aðrir (Kaufman, 2012).

Hvenær er sjálfsást orðin að vandamáli?
Eins og minnst var á að ofan þá má mæla sjálfsást á rófi þar sem flestöll búum við auðvitað yfir einhverri sjálfsást. Við erum einfaldlega misjanflega staðsett á rófinu. Sjálfsást getur verið jákvæður eiginleiki, til dæmis í formi heilbrigðs sjálfstrausts. Það er ekki fyrr en við enda rófsins þar sem sjálfsást verður að persónuleikaröskun og farin að hafa veruleg áhrif á líf einstaklings og koma í veg fyrir að hann geti átt í eðlilegum samskiptum við annað fólk.

Ef þú, lesandi góður, sérð eitthvað af sjálfum þér í lýsingunum hér að ofan (og sérstaklega ef þú ert karlmaður á þrítugsaldri) þá er aðeins eitt í stöðunni. Líttu upp úr speglinum!

Til gamans má hér benda á stutt próf sem er ætlað að mæla sjálfsást. Prófið er þó ekki hávísindalegt og er hugsað sem skemmtileg dægradvöl.
http://psychcentral.com/quizzes/narcissistic.htm

Heimildir:
Coleman, A.M. (2009). Oxford Dictionary of Psychology. Oxford University Press: New York.
Kaufman, S. B. (2012). How To Spot a Narcissist? Psychology Today [netútgáfa]. Sótt þann 12.3. af http://www.psychologytoday.com/articles/201106/how-spot-narcissist
Twenge, J.M., Konrath, S., Foster, J.D., Campell, W.K. og Bushman, B.J. (2008). Egos Inflating Over Time: A Cross-Temporal Meta-Analysis of the Narcisstic Personality Inventory. Journal of Personality, 76 (4), 875-902.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.