Viðbjóðslegt samfélagsmein

Fyrst fæ ég kökk í hálsinn, svo fæ ég illt í magann. Mig langar til að gráta og æla á sama tíma. Andleg vanlíðan fylgir með: sorg, reiði og leiði. Svona líður mér þegar ég fletti í gegnum albúm Hildar Lilliendahl, „Karlar sem hata konur“.

Fyrst fæ ég kökk í hálsinn, svo fæ ég illt í magann. Mig langar til að gráta og æla á sama tíma. Andleg vanlíðan fylgir með: sorg, reiði og leiði. Svona líður mér þegar ég fletti í gegnum albúm Hildar Lilliendahl, „Karlar sem hata konur“.

Það er staðreynd að ég bý í samfélagi með einstaklingum sem telja:

a) að ef að kona reiti mann til ofsareiði þá missi hann væntanlega stjórn á sér. Þá má hún allt eins eiga von á barsmíðum.

b) að konur geti ekki lifað sig nógu mikið inn í lýsingu á fótboltaleik en fótbolti er einmitt aðalsportið í sjónvarpinu. Þar af leiðir að jafnfáar konur eru íþróttafréttamenn eins og raun ber vitni.

c) að það sé lítið hægt að vorkenna 16 ára stelpu sem leitar til lögreglu eftir hópnauðgun í húsasundi. Hver veit nema hún hafi komið sér í þessar aðstæður sjálf og halló! Þá má auðvitað nauðga henni.

d) að ekki sé hægt að vita hvort nauðgun hafi átt sér stað í húsasundinu því stelpur láti nú svo oft hamra í sig á slíkum stöðum.

e) að ef að kona klæði sig eins og druslu að þá verði komið fram við hana eins og druslu.

Þetta eru fimm dæmi úr umræddu albúmi en skjáskotin af öðrum ummælum eru mun fleiri.
Mér þykir það allt í senn sorglegt, hræðilegt og óskiljanlegt að í íslensku samfélagi skuli búa einstaklingar sem haldi fyrrgreindum skoðunum fram. Skoðanirnar eru settar fram á internetinu. Þá er auðvitað í lagi að segja allt og hafa skoðanir á öllu – líka á því hvenær, hvar og hvers vegna lemja eigi konu eða nauðga stelpu.

Ég velti ýmsu fyrir mér í þessu samhengi. Til dæmis því hvernig viðbrögðin yrðu ef fólk skrifaði svona um börn í almennri umræðu á internetinu. Allir vita jú að börn geta verið óþekk og gjarnan gert fullorðið fólk pirrað, jafnvel reitt, kannski ofsareitt. Á þá að lemja þau?

Viðbrögð við albúmi Hildar hafa ekki látið á sér standa. Það fer mikið fyrir brjóstið á sumum að hún skuli nefna það „Karlmenn sem hata konur“. Hvernig dirfist hún? Já, hvernig vogar hún sér? Það er gripið í gamlar tuggur um að femínistar hafi aldrei fengið að ríða og hún kölluð nöfnum eins og femínistatussa, og eitthvað annað álíka ömurlegt.

Það er rétt að titill albúmsins er settur fram til að stuða, en hvað með það? Það er sjálfsagt að benda á það hvernig tilteknir karlmenn leyfa sér að tala um konur. Þá erum við líka komin að kjarna málsins og því sem umræðan ætti að snúast um.

Af hverju búum við í samfélagi þar sem karlmenn hafa jafn annarlegar skoðanir og þessar um konur? Af hverju erum við ekki frekar að tala um það? Viljum við að samfélagið okkar sé svona? Viljum við ekki að fólk reyni að tala af virðingu hvert um annað – alls staðar, líka á internetinu – og virði skoðanir annarra? Með því er auðvitað ekki sagt að allir karlmenn tali svona um konur. Alls ekki.

Það er ótrúlegt hvernig umræðan fer alltaf að snúast um það hvað femínistar fái oft að ríða en ekki það sem raunverulegu máli skiptir. Við eigum nefnilega að vera að tala um hið viðbjóðslega samfélagsmein sem endurspeglast í albúminu, en ekki það hvenær Hildur Lilliendahl svaf seinast hjá.

Linkar:

a) https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10150624724456248&set=a.10150612413116248.407343.638641247&type=3&theater

b) https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10150628333296248&set=a.10150612413116248.407343.638641247&type=3&theater
 
c) https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10150631247166248&set=a.10150612413116248.407343.638641247&type=3&theater

d) https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10150633507536248&set=a.10150612413116248.407343.638641247&type=3&theater

e) https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10150615192756248&set=a.10150612413116248.407343.638641247&type=3&theater
 
 
 

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.