Tímabundið í 17 ár – jafnvel lengur

Hið opinbera styrkir kvikmyndaframleiðslu á Íslandi tímabundið umfram aðrar atvinnugreinar með því að endurgreiða tiltekið hlutfall af framleiðslukostnaði kvikmyndar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Endurgreiðsla ríkisins á árinu 2011 nam um 700 mkr. eða 450% umfram heimildir fjárlaga það ár. Óljóst er hverjar tekjurnar voru á móti. En það hlítur að vera aukaatriði. Kvikmyndaiðnaðurinn er svo arðbær og skemmtilegur að þetta hlítur að borga sig einhvern veginn.

Hið opinbera styrkir kvikmyndaframleiðslu á Íslandi tímabundið umfram aðrar atvinnugreinar með því að endurgreiða tiltekið hlutfall af framleiðslukostnaði kvikmyndar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Endurgreiðsla ríkisins á árinu 2011 nam um 700 mkr. eða 450% umfram heimildir fjárlaga það ár. Óljóst er hverjar tekjurnar voru á móti. En það hlítur að vera aukaatriði. Kvikmyndaiðnaðurinn er svo arðbær og skemmtilegur að þetta hlítur að borga sig einhvern veginn.

Fyrirkomulagi endurgreiðslu framleiðslukostnaðar við kvikmyndagerð á Íslandi var komið á fót með lögum árið 1999. Þá átti þessi tímabundni ríkisstyrkur einungis að vara í 6 ár. Síðasta haust var samþykkt á Alþingi að framlengja þennan tímabundna ríkisstyrk til 2016. Það er ekki alveg útilokað að þá verði fundin rök til að framlengja þetta fyrirkomulag örlítið til viðbótar.

En gott og vel. Kvikmyndaframleiðsla er skemmtileg og spennandi og afurðirnar heilla fjölda fólks um heim allan. Svo er líka jákvætt þegar Ísland kemst á kortið og hingað streyma frægir leikstjórar og leikarar að taka upp spennandi geimverumyndir og önnur ævintýri í stórbrotnu landslagi elds og íss. Það skapar fullt af tekjum fyrir hina og þessa aðila tengda framleiðslu á kvikmyndum hér og landi og ríkið tekur af hógværð sinn skerf.

Þessu til stuðnings hefur verið reiknað út að kvikmyndaiðnaðurinn sé svo arðbær að hver króna sem hið opinbera styrkir kvikmyndaiðnaðinn skili sér fimmfalt til baka. Það er rosa gott ef rétt er og skiljanlega hefur hið opinbera þá ekki efni á að styrkja ekki kvikmyndaiðnað á Íslandi – hvað þá að leyfa almennum fjárfestum að fjárfesta fyrir sitt eigið fé, en ekki fé skattborgaranna, í slíkri peningavél. En svo er þessi ríkisstyrkur til kvikmyndagerðar bara tímabundinn. Rétt aðeins til þess að kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi nái að koma undir sig fótunum.

Rétt er að taka fram að hægt er að vera hlynntur því að hér blómstri kvikmyndaiðnaður hvers konar og á sama tíma að vera mótfallinn því að hið opinbera styrki slíkan iðnað. Þetta eiga talmenn aukinna ríkisafskipta afskaplega erfitt með að meðtaka, skiljanlega. Ekki er svo sem ætlunin hér að býsnast yfir öllum ríkisstyrkjunum til menningartengdra málefna. Um nokkurt skeið hefur náðst einskonar málamiðlun í samfélaginu að hið opinbera taki fé af skattborgurum og veiti því aftur í menningartengda starfsemi, að því gefnu að þeir peningar séu til og slíkir ríkisstyrkir verði ekki til þess að draga út hófi þrótt úr þeim þáttum samfélagsins sem búa til þá peninga.

Endurgreiðsla hins opinbera á framleiðslukostnaði við kvikmyndagerð fellur ekki vel að þeim samfélagssamningi. Í fyrsta lagi er þetta ávísun á óskilvirkt kerfi aukinnar skattheimtu hins opinberra (sem er því miður dapur veruleiki) og ýmis konar ríkisstyrkja á móti þeirri skattheimtu. Í öðru lagi er þetta kerfi fullkomlega ógegnsætt og engin leið að vita með vissu hver skuldbinding ríkissjóðs er hverju sinni né hvaða tekjur koma inn á móti. Slíkt fyrirkomulag ríkisfjármála er ólíðandi. Í þriðja lagi er á mjög sérstakan hátt verið að styrkja eina atvinnugrein umfram allar aðrar á grundvelli pólitískrar stefnu í málefnum kvikmyndagerðar á Íslandi. Slík mismunun á grundvelli pólitískar hentistefnu í atvinnumálum er ekki bara röng heldur heimskuleg. Hveru mörg víti úr fortíðinni ætli þurfi að draga fram til að rökstyðja þennan punkt? Í fjórða lagi er þetta rökstutt sem tímabundin ráðstöfun til að styrkja innlenda kvikmyndaframleiðslu. Ekki er að marka slíkan rökstuðning þar sem augljóst er að það er tóm blekking.

Það sem talsmönnum og fylgjendum þessa ríkisstyrks yfirsést er að öll þau góðu rök sem sett hafa verið fram honum til stuðnings gilda í grunninn um allan annan atvinnurekstur á landinu. Sem er að ef atvinnulífið, og samfélagið allt, býr við hóflega skattheimtu þá skilar það á endanum sér í aukinni verðmætasköpun í þjófélaginu öllu. Rétt eins og hið opinbera er ekki dómbært á að ákveða fyrir alla hvað sé góð og hvað sé vond kvikmynd þá er það jafnframt sérlega lélegur milliliður í allri verðmætasköpun samfélagsins, illa treystandi og ekki í stakk búið til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir er varða líf og hamingju fólks. Er því ekki tímabært að ríkið hætti þessari ómarkvissari millifærslu, lækki skatta og gjöld og leyfi þannig kvikmyndaiðnaðinum og allri annarri starfsemi í landinu að blómstra í friði.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.