„Hinn eini sanni“

Níu óraunhæfar hugmyndir sem geta komið í veg fyrir að fólk finni heppilegan maka.

Nú þegar dagar á borð við bóndadaginn, konudaginn og Valentínusardaginn eru á bak og burt varpa margir öndinni léttar. Þeir sem eru í sambandi finna fyrir samfélagslegri pressu að gera eitthvað fallegt fyrir ástina sína á þessum dögum. Það er auðvitað ekkert nema frábært að gleðja elskuna sína á góðum dögum en með tilkomu Facebook þá snýst það upp í keppni líkt og svo margt annað á þeim bænum. Sá sem gerir mest og gefur flottustu gjöfina er flottastur á Facebook. Þeir sem svo gleyma þessum dögum reyna að afsaka sig með því að þessir dagar séu asnalegir og mun betra sé að gleðja ástina alla aðra daga, en ekki einhverja fyrirfram ákveðna daga. Svo eru þeir sem eru einhleypir sem eru minntir á það þessa daga að þeir eiga ekki maka til að gleðja, alveg burtséð frá því hvort þeir hafi yfir höfuð áhuga á því að eiga einhvern maka.

Nýlega voru fréttir af námskeiðum fyrir Íslendinga í makaleit sem Kvíðameðferðarstöðin stendur fyrir. Þetta eru 8 vikna námskeið þar sem farið yfir þau atriði sem á einn eða annan hátt stuðla að því að kynnast öðrum. Það er ekkert nema gott um slík námskeið að segja og sjálfsagt að leita sér aðstoðar í makaleit líkt eins og að fara á námskeið í matreiðslu.

Hvað er það sem skiptir máli í makaleit? Karlar og konur virðast oft ekki leita að því sama. Karlar virðast oftar horfa á útlit en konur líta meira á stöðu karlmanna en útlit þeirra. Makaleit, verandi áhugaverð hegðun mannanna, hefur verið talsvert rannsökuð innan sálfræði. Í rannsókn frá 1993 (Sorenson, Russell, Harkness and Harvey, 1993) kom fram áhugaverður kynjamunur þegar karlar og konur útskýrðu hvers vegna síðasta samband þeirra hafði ekki enst. 40% kvenna voru óánægðar með að maki þeirra hafi ekki viljað tala mikið um tilfinningar sínar og sambandið, 40% karla voru svo óánægðir með skort á vilja maka þeirra til að stunda kynlíf og nefndu það sem ástæðu fyrir sambandsslitum. Þetta eru niðurstöður sem koma líklega fáum á óvart.

Er þá eitthvað sérstakt sem ber að varast í makaleit? Larson (1992) benti á það sem hann telur vera níu óraunhæfar hugmyndir um makaval sem geti hindrað fólk í því að finna heppilegan maka.

„Hinn eini sanni“
Í fyrsta lagi er það hugmyndin um „hinn eina sanna“ (the one and only) en það er sú hugmynd að það sé aðeins til ein fullkomin manneskja fyrir hvern og einn. Þeir sem trúa því statt og stöðugt gætu látið góð sambönd renna sér úr greipum þar sem þeir bíða alltaf þeirri tilfinningu sem þeir halda að þeir finni þegar hinn eini sanni mætir á staðinn.

„Hinn fullkomni maki“
Í öðru lagi er það hugmyndin um fullkominn maka (the perfect partner) sem er sú hugmynd að maður þurfi að finna fullkominn maka áður en maður getur gert hann að sínum lífsförunauti. Þeir sem leita sífellt að fullkomnum maka eru líklegri til að vera í stuttum samböndum, sem verða oft einskonar prófraun fyrir makann. Samböndin endast stutt því viðkomandi kemst fljótt að því að makinn er ekki fullkominn, enda er það enginn.

„Hið fullkomna sjálf“
Í þriðja lagi er það hugmyndin um að maður sjálfur þurfi að vera fullkominn (the perfect self) til að geta eignast lífsförunaut. Það er sama vandmálið og með hinn fullkomna maka að fólk getur verið of upptekið að því að finnast það sjálft ekki nógu gott og fer því á mis við góð sambönd.

„Hið fullkomna samband“
Í fjórða lagi er hugmyndin um að samband verði að vera fullkomið (the perfect relationship) til að hægt sé að gera það að einhverju varanlegu. Fólk sem trúir á það fellur oft í þá gryfju að vera sífellt að prófa sambandið til að sjá hvort það séu nógu sterkt til að vera varanlegt. Það getur orðið til þess að makinn gefist hreinlega upp og sambandið fjari út.

„Bara að reyna nógu mikið“
Í fimmta lagi er það hugmyndin að hægt sé að vera hamingjusamur í hvaða sambandi sem er ef maður bara reynir nógu mikið að láta það ganga (try harder). Þeir sem trúa því stökkva auðveldlega í ný sambönd og eiga oft mörg sambönd að baki. Þetta verður til þess að farið er af stað út í sambönd sem eru dauðadæmd frá byrjun.

„Ástin er allt sem þarf“
Í sjötta lagi er hugmyndin um að ástin sé nóg (love is enough). Þeir sem trúa því statt og stöðugt að ástin bjargi öllu lenda oft í vandræðum og reka sig á það að í góðum samböndum þarf oft miklu meira til en ást. Þessir einstaklingar eiga oft auðvelt með að falla kylliflatir og demba sér hratt út í sambönd þar sem ástríðan er mikil þar sem þeir eru fullvissir að það muni ganga þar sem ástin sé jú svo mikil.

„Nauðsynlegt að búa saman fyrst“
Sjöunda hugmyndin sem Larson (1992) ræðir er sú hugmynd að fólk þurfi að búa saman (cohabitation) í einhvern tíma áður en farið er út í langtímaskuldbindingu, líkt og hjónaband. Hann bendir á rannsóknir sem sýni að ánægja í hjónabandi hafi verið meiri hjá þeim pörum sem ekki bjuggu saman áður. Þessi hugmynd er líklega sú sem okkur Íslendingum mest framandi enda er það frekar venjan hér en ekki að fólk búi saman og eignist börn saman án þess að gifta sig.

„Andstæður bæta hver aðra upp“
Áttunda hugmyndin er sú að að bestu samböndin séu þau þar sem einstaklingarnir séu mjög ólíkir og geti þannig bætt upp galla hvors annars (opposites compliment). Þetta verður til þess að fólk á erfitt með að brjóta odd af eigin oflæti og einnig leitar fólk að mjög ólíkum einstaklingi sem getur orðið til þess að parið eigi lítið sameiginlegt.

„Það á að vera auðvelt að finna maka“
Síðasta hugmyndin (choosing should be easy) gengur út að það að finna maka eigi að gerast af sjálfu sér og sé á einhvern hátt ætlað að gerast. Þetta veldur oft vonbrigðum hjá þeim sem trúa þessu því hentugur maki bankar yfirleitt ekki óvænt upp á.

Priest, Burnett, Thompson, Vogel og Schvaneveldt (2009) komust svo að því að fjöldi sambanda skipti máli um hvort fólk hafi óraunhæfar hugmyndir (líkt og þær að ofan) um makaval. Þeir sem áttu fleiri sambönd að baki voru mun ólíklegri til að hafa óraunhæfar hugmyndir um makaval en þeir sem áttu færri sambönd að baki. Það má því vera að fólk læri af reynslunni í þessum málum.

Það er greinilega vandratað í heimi makaleitar og margt sem ber að varast. Fyrir þá sem hafa hug á að finna maka á næstunni ættu þó allavega að passa sig að falla ekki í þá gryfjur sem nefndar voru hér að ofan.

Heimildir:
Larson, J. H. (1992). You’re my one and only: Premarital counseling for unrealistic beliefs about mate selection. American Journal of Family Therapy, 20, 242-253

Priest, J., Burnett, M., Thompson, R. Vogel, A. og Schvaneveldt, P.L. (2009). Relationship dissolution and romance and mate selection myths. Family Science Review, 14, 48-57.

Sorenson, K. A., Russell, S. M., Harkness, D. J., og Harvey, J. H. (1993). Account-making, confiding, and coping with the ending of a close relationship. Journal of Social Behavior and Personality, 8, 73-86.

Námskeið fyrir fólk í makaleit
http://www.kms.is/index.php?option=com_content&view=article&id=132&Itemid=111

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.