Ísak og sparnaðarskatturinn

Það er ástæða til að vera hugsi yfir stöðugum kröfum stjórnmálamanna um að nýta beri fjármuni lífeyrissjóðanna í ýmisleg verkefni. Ímyndaði vinur minn, Ísak, er að minnsta kosti skeptískur.

Ímyndaði vinur minn, Ísak, á mjög skynsama foreldra. Þeim hefur gengið vel í lífinu og vilja að sjálfsögðu að það sama gerist hjá syni þeirra. Þau hafa því alla tíð lagt mikið upp úr því að Ísak afli sér sjálfur tekna, allt frá unglingsaldri, en láti ekki spillast af þeirri tilhugsun að mamma og pabbi geti hvort sem er alltaf hlaupið undir bagga með honum.

En freistingin er samt til staðar. Það er alvega sama hvað efnaðir foreldrar segja við börnin sín um gildi þess að spara peninga og sýna skynsemi – innst inni trúa börnin því auðvitað að pabbi og mamma komi alltaf til bjargar ef allt fer á versta veg.

Þetta er líklega ástæðan fyrir því að foreldrar Ísaks gerðu við hann samkomulag þegar hann byrjaði fyrst að fá tekjur. Þau myndu ekki skipta sér af því hvernig hann færi með peningana sína og hann mætti búa eins lengi og hann vildi á hótel mömmu, svo lengi sem hann legði til hliðar 15 prósent af laununum sínum. Þessi sparnaðar var lagður inn á reikning sem foreldrar hans réðu yfir og myndi safna vöxtum þangað til hann þyrfti á peningunum að halda til þess að gera eitthvað gáfulegt, eins og kaupa fyrstu íbúðina sína eða fara í dýrt nám.

Ísak fannst þetta ekki spennandi tilhugsun til að byrja með. En eftir því sem árin liðu varð hann stöðugt sáttari við þetta öryggisnet. Hann hefur unnið mikið og aflað sér töluverðra tekna í gegnum tíðina. Foreldrar hans hafa auðvitað leyft honum að fylgjast með gangi mála á söfnunarreikningnum hans og innstæðan hefur smám saman bólgnað upp í dágóða upphæð. Peningarnir hafa verið geymdir á ákaflega traustum verðtryggðum reikningi og aldrei hefur komið til greina að freista gæfunnar með því að kaupa áhættusöm verðbréf til að flýta fyrir auðsöfnunni. Viðkvæðið hefur verið að sígandi lukka sé best í þessum efnum.

Í trausti þess að eiga þennan ágæta sjóð vísan hefur Ísak þar að auki getað gert hvað sem honum dettur í hug við alla þá peninga sem hefur aflað umfram skatta og skyldusparnaðinn. Hann hefur með góðri samvisku og áhyggjulaus eytt hverri einustu umframkrónu í áhugamál sín, ferðalög, áfengi og skemmtanir. Sparnaðarfyrirkomulagið á heimilinu hefur séð til þess að hann hefur ekki þurft að hafa neinar áhyggjur af framtíðinni.

Nú vantar Ísak aðeins nokkur ár í þrítugt, kominn með ágæta vinnu, og löngu kominn tími á að hann flytji út frá foreldrum sínum og kaupi sér íbúð. Það er því ekkert annað að gera heldur en að ræða við pabba og mömmu, fá nýjustu stöðuna á sparnaðarreikningnum, fá peninginn og borga væna útborgun.

En þegar Ísak talaði við foreldra sína fékk hann fréttir sem komu honum aðeins úr jafnvægi. Foreldrar hans höfðu verið óheppin í fjármálum á síðustu árum. Hrun bankanna hafði þurrkað út stóran hluta af sparnaðinum þeirra. Og það sem var verra þá átti ennþá eftir að ganga frá sólpallinum í garðinum. Þau höfðu því ákveðið að taka nota peningana á reikningnum hans Ísaks til að borga fyrir sólpallinn. Hann gat því að svo stöddu ekki fengið peninginn. Ísak varð vitaskuld æfur við þessar fregnir, en foreldrar hans mölduðu í móinn. Sólpallurinn myndi jú hækka verðgildi hússins og þar með stækka væntanlegan arf. Hann ætti því frekar að hugsa um þetta sem fjárfestingu, og kannski bara ágæta í ljósi þess hversu vextirnir á sparnaðarreikningnum voru orðnir lágir.

En Ísak er samt sem áður frekar svekktur út af þessu. Hann segist hafa treyst á þessa upphæð í lengri tíma og gert ráð fyrir að geta nýtt sér hana eins og talað hefði verið um í öll þessi ár. Foreldrar hans hafa sýnt honum skilning og segja að það sé sjálfsagt að hann fái að búa lengur hjá þeim á meðan hann safnar sér sjálfur nægilega hárri upphæð til að borga út í íbúð. Það ætti nú ekki að muna um það fyrir hann að vera þar í tvö til þrjú ár í viðbót. Í ofanálag hafa þau boðið honum að hætta að borga á sparnaðarreikninginn.

En Ísak er samt ekki alveg nógu sáttur. Hann getur reyndar ekkert gert, því hann hafði jú lagt peninginn inn á reikning sem foreldrar hans réðu, en ekki hann sjálfur. Ætli hann þurfi ekki að sætta sig við þetta, þótt gramur sé, og gera bara eins gott úr þessu og hægt er. Það hlýtur að mega læra eitthvað af þessu.

Það er því kannski ekki skrýtið að Ísak sé hugsi yfir þeirri umræðu sem nú á sér stað um að í ljósi efnahagsástandsins eigi að nota fjármuni lífeyrissjóðanna í „samfélagslega mikilvæg verkefni“ og til þess að styðja við gengi krónunnar.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.