Næstu skref í fæðingarorlofsmálum

Næsta skref í umgjörð um fæðingarorlof ætti því að vera að hækka þak á greiðslum. Með því er líklegra að feður fullnýti orlof sitt og ekki má gleyma mæðrum sem fullnýta í flestum tilvikum sitt orlof óháð tekjum sínum.

Um áramótin tók gildi breyting á lögum um fæðingarorlof þannig að nú hefur hvort foreldri um sig 6 mánuði til ráðstöfunar en 6 vikur eru framseljanlegar milli foreldra. Nokkur umræða var um þetta fyrirkomulag og mætti það andstöðu meðal annars vegna þess að frelsi foreldra til að skipta mánuðum á milli sín er mjög takmarkað. Höfundur setti fram hugleiðingar um málið meðan það var enn í meðförum þingsins (https://www.deiglan.is/frelsid-og-forraedishyggjan/). 

Það var ánægjulegt að sjá að hugmyndir um að stytta tímann til töku fæðingarorlofs úr 24 mánuðum í 18 urðu ekki að veruleika,enda er bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla flókið úrlausnarefni margra foreldra. Það verður áhugavert að sjá hvernig þessi nýja breyting mun hafa áhrif á töku fæðingarorlofs feðra. Mikið ánægjuefni yrði ef breytingin leiddi til þess að feður færu í auknum mæli að fullnýta fæðingarorlof sitt. Það er þó hætt við að þessi breyting muni ekki ná því fram því þak á greiðslumtil foreldra hækkaði ekki samfara breytingum. Það hefur nefnilega sýnt sig að með hækkandi tekjum fækkar þeim feðrum sem fullnýta orlof sitt. Það væri miður ef þessi breyting á lögum um fæðingarorlof yrði ekki til þess að lengja tímann sem ung börn hafa til samvista við foreldra sína. Markmið laganna er jú einmitt að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína. 

Næsta skref í umgjörð um fæðingarorlof ætti því að vera að hækka þak á greiðslum. Með því er líklegra að feður fullnýti orlof sitt og ekki má gleyma mæðrum sem fullnýta í flestum tilvikum sitt orlof óháð tekjum sínum. Það er líka fjárhagslega erfitt fyrir mæður að taka fæðingarorlof þó minna beri á því í umræðunni. Hærra þak á greiðslum kemur því mörgum mæðrum líka vel. 

Þá mætti einnig huga að því í tengslum við fæðingarorlofið hvernig auðvelda megi foreldrum ferlið við að snúa til vinnu aftur eftir fæðingarorlofið. Það þekkja það margir foreldrar hversu strembinn tími það er að snúa til baka til vinnu. Það reynir á foreldra, það reynir á barnið og það getur líka reynt á vinnustaðinn. Þegar ung börn byrja í dagvistun veikjast þau gjarnan talsvert á fyrstu vikum meðan ónæmiskerfið er að aðlagast og það kallar á fjarveru foreldra úr vinnu. Þá er fæðingarorlof sem slíkt misjöfn upplifun milli fólks og margir foreldrar eru örþreyttir eftir fyrstu mánuði barnsins og jafnvel ennþá erfiðleikar með svefn og rútínu barnsins þegar foreldrar snúa aftur til vinnu. Vinnustaðir eru því oft að taka á móti starfsfólki sem er undir miklu álagi, vansvefta og að upplifa streitu. Ofan á það bætast kannski veikindi barns á upphafsvikum dagvistunar. 

Mögulega mætti koma til móts við foreldra með því að hafa einn mánuð til viðbótar fyrir þá foreldra sem það kjósa sem væri eins konar aðlögunarmánuður fyrir alla. Foreldri gæti fengið greiðslur einn umfram mánuð í fæðingarorlofi þrátt fyrir að barnið væri byrjað í dagvistun. Þessi mánuður væri hugsaður til að bregðast við veikindum og til að aðlaga bæði börn og foreldra að breyttu fyrirkomulagi í streituminni aðstæðum. Í einhverjum tilvikum þar sem vel gengur að aðlaga börn dagvistun gætu foreldrar einfaldlega nýtt þennan tíma í smá „orlof eftir fæðingarorlof“. Hlaðið sín eigin batterí og mætt orkumeiri og afslappaðri aftur til vinnu. 

Það er vel þekkt það mikla álag sem er á foreldrum ungra barna og tíminn frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn komast á efsta stig leikskóla er gríðarlega krefjandi fyrir margar fjölskyldur. Það væri því til mikils að vinna að létta undir aðlögunarferlinu að snúa aftur til vinnu. Foreldrar upplifðu minni streitu í aðlögun barnsins og afslappaðir foreldrar skapa streituminna umhverfi fyrir barnið. Vinnustaðir fengju úthvílda starfsmenn til baka og fjarvistir á fyrstu vikum fæðingarorlofs yrðu mögulega færri.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.