Uggvænleg þróun

Árið 2008 voru framkvæmdar á bilinu 43-48.000.000 fóstureyðinga í heiminum og 86% þeirra voru framkvæmdar í þróunarlöndum. Þetta sýnir ný rannsókn Alþjóða Heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Guttmacher stofnunarinnar. Alvarlegustu tíðindi rannsóknarinnar eru hins vegar þau að árið 1995 voru 44% fóstureyðinga flokkaðar sem óöruggar en 2008 hafði hlutfall slíkra fóstureyðinga hækkað upp í 49%

Árið 2008 voru framkvæmdar á bilinu 43-48.000.000 fóstureyðinga í heiminum og 86% þeirra voru framkvæmdar í þróunarlöndum. Fæstar voru fóstureyðingar í Vestur-Evrópu, 12 á hverjar þúsund konur en flestar í Austur – Evrópu, 43 á hverjar þúsund konur. Þetta sýnir ný rannsókn Alþjóða Heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Guttmacher stofnunarinnar sem birt var í hinu virta breska læknisfræðitímariti, Lancet. Eru niðurstöður hennar nokkuð sláandi að mörgu leyti. Samskonar rannsóknir voru framkvæmdar árin 1995 og 2003 og er því möguleiki á samanburði og því að rekja þróun þessara mála á tímabilinu.

Fyrir það fyrsta sýnir rannsóknin fram á að fjöldi fóstureyðinga á milli áranna 2003 og 2008 stendur hér um bil í stað með 28 af hverjum þúsund konur á aldrinum 15-44 ára og fimmtungur þungana endaði með fóstureyðingu. Rétt er þó að geta þess að vegna fjölgunar manna fjölgar fóstureyðingum í raun um 2,2 milljónir á tímabilinu. Alvarlegustu tíðindi rannsóknarinnar eru hins vegar þau að árið 1995 voru 44% fóstureyðinga flokkaðar sem óöruggar en 2008 hafði hlutfall slíkra fóstureyðinga hækkað upp í 49%. Óöruggar fóstureyðingar eru í þessu sambandi skilgreindar sem fóstureyðingar sem eru framkvæmdar án handleiðslu læknis og utan spítala eða annarra sjúkrastofnana eða þá ólöglega. Rannsóknin sýnir ennfremur fram á að 97% fóstureyðinga í Afríku teljist óöruggar og 95% í Suður-Ameríku. Á sama tíma teljast 91% fóstueyðinga í Evrópu öruggar.

Breska ríkisútvarpið gefur tölunum andlit með sláandi frásögn sinni af Kenýskri konu og tveimur fóstureyðingum sem hún lét framkvæma. Báðar fóru þær fram á einhvers konar læknastofu. Aðgerðin var framkvæmd án deyfingar. Þessu fylgdu miklir kviðverkir næsta árið og í kjölfarið fann hún fyrir miklu og langvarandi þunglyndi sem leiddi til tveggja sjálfsvígstilrauna.

Réttmæti fóstureyðinga hefur lengi verið bitbein víða um heim. Eru margir þeirrar skoðunar að slíkt sé ekki undir neinum kringumstæðum réttlætanlegt vegna þeirrar líftöku sem á sér óneitanlega stað. Á hinum enda litrófsins eru síðan þeir sem umgangast viðfangsefnið af nokkru kæruleysi. Þar á milli finnast fjölbreytilegar skoðanir eins og gengur en ekki er ætlunin að gera grein fyrir slíku hér.

Fóstureyðingar ber að umgangast af virðingu. Stíga varlega til jarðar og reyna sem mest má að halda þeim í lágmarki. Fyrirbyggjandi aðferðir hljóta alltaf að vera heillavænlegri í þessum efnum. Það má aldrei verða svo að fólk umgangist aðgerðina af léttúð og líti á hana sem hverja aðra getnaðarvörn. Á sama tíma megum við ekki vera einföld. Við verðum að mæta veruleikanum þar sem hann er staddur hverju sinni. Fóstureyðingar eru staðreynd. Þær eru framkvæmdar ár hvert í einhverjum mæli í öllum löndum veraldar og auðvitað koma geta þær aðstæður komið upp að fóstureyðing er skiljanlegur valkostur.

Með heilsu og líf þeirra kvenna sem þennan valkost nýta sér í huga er nauðsynlegt að horfast í augu við staðreyndir. Bann við fóstureyðingum ber engan árangur. Þetta staðfestir ofangreind rannsókn. Í hinum vestræna heimi fækkaði framkvæmdum fóstureyðingum úr 36% þungana í 26% á tímabilinu meðan að í þróunarlöndum, þar sem fóstureyðingar eru víðast hvar ólöglegar, var hið sama ekki upp á teningnum og fjölgaði þeim jafnvel í sumum tilfellum. Mikilvægasti þátturinn er hins vegar sá að með frjálslyndari löggjöf í þessum efnum er heilsa kvenna betur tryggð. Heilsufarslegar afleiðingar hættulegra fóstureyðinga eru færri í þeim löndum þar sem fóstureyðingar eru löglegar. Það þarf engan að undra enda eru þær þá framkvæmdar innan hins faglega kerfis heilbrigðisþjónustu í viðkomandi landi. Tölur segja okkur þetta líka. Í Nepal voru fóstureyðingar lögleiddar árið 2002. Síðan þá hefur hlutfall dauðsfalla tengdum fóstureyðingum fækkað úr 54% meðgöngutengdra dauðsfalla í 28%.

Þetta segir sig sjálft. Frjálslynd löggjöf í þessum efnum stendur íhaldssamari framar. Konur mega ekki gjalda slíka löggjöf með lífi sínu. Samfara slíkri löggjöf er hins vegar nauðsynlegt að grípa til annarra ráðstafana. Svo sem ráðgjafar varðandi getnaðarvarnir og barneignir. Bætts aðgengis að getnaðarvörnum og almenna fræðslu þar af leiðandi. Veruleikaflótti skilar engu. Almenn skynsemi og föst tök á raunheimum blíva þarna sem máttarstólpar mannlegs samfélags líkt og annars staðar.