Kill them!

Newt Gingrich fékk mikið klapp þegar hann útskýrði að kjarninn í utanríkisstefnu sinni væri að drepa óvini Bandaríkjanna. Ron Paul fékk hins vegar bágt fyrir að leggja til að „gullna reglan“ gæti verið gagnleg til þess að draga úr átökum og hatri milli þjóða.

Prófkjör Repúblikana í Suður Karólínu fer fram í dag, laugardag. Útlit er fyrir að þessi kosning muni skjóta Newt Gingrich aftur upp á stjörnuhimininn. Hann á enn eina endurfæðingu sína því að þakka að hafa verið harðari og ófyrireitnari í svörum en hinir frambjóðendurnir í kappræðum um daginn.

Í kappræðunum fengu frambjóðendur meðal annars tækifæri til þess að svara því hvernig best væri að bregðast við svokölluðum óvinum Bandaríkjanna. Mitt Romney, sem er líklegasti frambjóðandinn i hópnum, sagði eitthvað á þá leið að það bæri að elta þá uppi og hafa hendur í hári þeirra. Fyrir þetta hlaut hann umtalsvert klapp. Viðbrögð salarins við svari Newt voru hins vegar miklu hressilegri, enda svar hans einfaldara. „Kill them!“ Það ætlaði allt um koll að keyra – hér var komið forsetaefni sem talar töff. Atirðið hefði getað verið klippt beint út úr jónvarpsseríunni 24 – eða einhverju ámóta. Newt myndi líklega ekki lata það duga að taka helstu óvini Bandaríkjanna af lífi – ætli hann myndi ekki lesa yfir þeim svala línu í anda Clint Eastwood í hvert sinn sem einhver óvinurinn er drepinn. „That´s what happens when you mess with the US of A, punk.“

En þeir voru ekki allir svona harðir. Ron Paul, sem ég skrifaði um fyrir nokkrum dögum, virðist hafa ætlað að höfða til þess að í Suður Karólínu er kristin trú höfð í sérstökum hávegum. Hann vitnaði í gullnu regluna og lagði til að í utanríkismálum hefðu Bandaríkin þá stefnu að koma fram við önnur lönd eins og Bandaríkjamenn vilja að komið sé fram við þá. Þessi hugmynd féll í grýttan jarðveg og uppskar Ron Paul hávært baul fyrir þessa kristilegu linkind sína.

Nú má velta fyrir sér hvernig viðbrögð á Vesturlöndum yrðu við því ef framámaður í til dæmis kínverska kommúnistaflokknum léti þvílíkt og annað eins út úr sér eins og Gingrich gerði. Líklega væri það stórfrétt og efniviður í miklar umræður. Og hvað þá ef viðbrögðin við svona tali væru á þann veg sem raunin var í Suður Karólínu.

Þeir sem þekkja sæmilega til bandarískra stjórnmála vita auðvitað að það er ekki endilega nauðsynlegt að taka svona kosiningablaðri alltof bókstaflega. En það búa auðvitað ekki allir að slíkri þekkingu. Þeir sem búa í öðrum heimshlutum gætu trúað því að maður, sem gæti orðið næsti forseti öflugasta herveldis heims, sé svo brjálaður að meina það þegar hann segir svona hluti.

Á þessari þróun í bandarískum sjtórnmálum bera ýmsir ábyrgð. En mesta ábyrgð bera þó auðvitað stjórnmálamennirnir sjálfir sem leyfa sér sífellt geðveikislegri yfirlýsingar til þess að höfða til ótta og vanþekkingar kjósenda þar sem það hentar. Fyrir vikið fá þeir, sem leggja sig fram um að stilla málflutningi sínum í hóf, á sig þann stimpil að vera hálfgerðir aumingjar – jafnvel þótt þeir lofi líka alls kyns hernaði og ofbeldi. Einn frambjóðandinn í prófkjörinu, Rick Santorum, hefur meira að segja sagst mundu ráðast á Íran nái hann kjöri. Í Bandaríkjunum er semsagt maður í framboði sem hefur það á opinberri stefnuskrá sinni að fara í stríð við annað land.

Það er auðvitað barnaskapur að fara á taugum yfir svona málflutningi. Þessir menn – að minnsta kosti Gingrich – eru líklegra skynsamari en svo að þeir meini það sem þeir segja. Kjör hans myndi ekki breyta miklu um utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Það er svosem nógu slæmt – en það sem verra er; þessi stöðuga þróun í átt til öfgafyllri málflutnings getur rutt brautina fyrir raunverulegan öfgamann. Og málflutningur sem þessi í bandarísku forsetakosningunum er auðvitað vatn á myllu öfgamanna í þeim heimshlutum þar sem er að finna fólk og foringja sem bera bæði óttast og hata Vesturlönd.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.