Dómstólar mega ekki verða vettvangur stjórnmálabaráttunnar

Umræðan um afturköllun málshöfðunarinnar gegn Geir H. Haarde sýnir því miður vel að réttarhöldin eru fyrst og fremst pólitísk. Þeir stjórnmálamenn sem vilja vernda lýðræðishefðir og réttarríkið ættu því að fagna tækifærinu til þess að ljúka málinu.

Það er manndómsmerki að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum ef manni hafa orðið á mistök. Því miður er það sjaldgæft í pólitík. Þó hnígur öll rökleg hugsun að því að fátt sé mikilvægara í mannlegu samfélagi en einmitt það að læra af mistökum, bæði sínum eigin og annarra. Fyrir tveimur árum skrifaði ég pistil um þetta hér á Deigluna þar sem ég reyndi að færa rök fyrir því hversu skaðlegt það er íslenskum stjórnmálum að mönnum sé því sífellt núið um nasir ef þeim verða á mistök – sérstaklega ef þeir viðurkenna þau.

Ég er á þeirri skoðun að ákæra Alþingis á hendur Geir H. Haarde séu mistök. Reyndar finnst mér ekkert benda sérstaklega til þess að embættisathafnir ráðherranna fjögurra sem Atlanefndin vildi að yrðu kærð væru þess eðlis að um sakamál væri að ræða. Hins vegar er mjög skiljanlegt að margir séu reiðir og að hluti reiðinnar beinist að stjórnmálamönnum þess tíma. Það hefur hins vegar ekki talist sæma réttarríki að láta slíkan tilfinningahita og ágreining um stjórnmálaskoðanir ráða því hvort mál séu sett í farveg sakamáls.

Skrif Ögmundar Jónassonar í Morgunblaðið í morgun og yfirlýsing hans um að hann styðji tillögu um að afturkalla málshöfðun Alþingis á hendur Geir H. Haarde fannst mér því bera vott um drenglyndi og hugrekki. Reyndar kom betur í ljós eftir því sem leið á daginn hversu mikið hugrekki þurfti til. Það þarf manndóm til að fylgja eigin skoðun, eins og segir í ljóði Árna Grétars Finnssonar. Það á ekki verr við í því pólitíska andrúmslofti sem nú er, frekar en á öðrum tímum.

Það vill svo til að ég tel Geir Haarde og fjölskyldu hans til vina minna – og þykist því ekki vera hlutlaus um örlög hans eða velsæld. Þeir sem vilja geta því afskrifað þessar skoðanir ef það hentar þeim.

Það er hins vegar alls ekki einungis af umhyggju fyrir einum manni sem mér finnst landsdómsmálið hættulegt og vona innilega að fleiri þingmenn sjái að sér. Reyndar snýst málið minnst um Geir sjálfan. Réttarhöldin eru pólitísk. Þau snúast ekki um neitt sem flokkast gæti sem athæfi sem kallar á refsingu dómstóla – sérstaklega nú þegar veigamiklum þáttum málsins hefur verið vísað frá dómi. Umræðan ber þess því miður merki að mjög margir vilja reka þetta dómsmál sem hluta af einhvers konar pólitísku uppgjöri. Yfirlýsingar dagsins í dag sýna að þetta er raunin. En pólitískt uppgjör í lýðræðisríkjum á sér stað í kosningum –ekki í réttarhöldum. Þetta er algjört grundvallaratriði í því mannvænlega þjóðfélagsskipulagi sem við búum við á Íslandi. Það er meira að segja hættulegt eitt og sér að stjórnmálamenn skuli tala í þá átt að hægt sé að gera út um pólitískan ágreining með réttarhöldum. Það mengar enn frekar stjórnmálalífið á Íslandi – og þykir víst mörgum það gruggugt fyrir.

Ef Alþingi nýtir ekki tækifærið og dregur til baka kæruna gegn Geir, meðal annars á þeim málefnalegu rökum að veigamiklum ákæruatriðunum hefur þegar verið vísað frá, er raunveruleg hætta á því að svona æfingar verði einfaldlega hluti af vopnabúri stjórnmálanna á Íslandi til frambúðar. Sjá ekki allir hvernig það endar? Og hafa menn ekki heyrt upphrópin frá andstæðingum ríkisstjórnarinnar sem eru skyndilega farnir að veifa landsdómsspilinu í hvert sinn sem mjög alvarlegur ágreiningur rís um ákvarðanir stjórnmálamanna? Það er vonandi að Íslendingar þurfi ekki að horfa upp á slíkan ófögnuð á næstu árum og áratugum.

Sakirnar sem bornar eru á Geir snúast fyrst og fremst um pólitísk álitamál. Almennar kosningar og sagan dæma um árangur stjórnmálamanna og pólitísk barátta snýst um að áhrif á hvort tveggja. Dómstólar eiga vitaskuld að gera út um það ef stjórnmálamaður er sakaður um glæp, en það er hættuleg þróun fyrir lýðræðið og réttarríkið ef ágreiningur um stefnu og starfshætti lýðræðislega kjörinna yfirvalda er beint í þann farveg.

Stjórnmálamenn – bæði núverandi og fyrrverandi – mættu hins vegar gjarnan skapa andrúmsloft þar sem menn geta gert heiðarlega upp árangur sinn og mistök. Þannig er hægt að læra af fortíðinni, í stað þess að sóa framtíðinni í að rífast um hana eða svala einhvers konar hefndarþorsta. Það ættu þeir líka að hafa í huga, sem þessa dagana melta með sér hvort þeir ætli að láta eigin samvisku og bestu yfirsýn ráða í komandi atkvæðagreiðslu í þinginu. Ég leyfi mér að trúa því að sterk bein finnist víðar á Alþingi en marga grunar, að fleiri muni komast að þeirri niðurstöðu að þeir geti ekki annað en stutt afturköllun málsins og það muni duga til þess að afstýra þeirri hættulegu öfugþróun í íslenskum stjórnmálum sem hófst með málshöfðuninni.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.