Að vinna að framgangi lífsins

Í janúar 1942 vann fjölskyldan á Veturhúsum í Eskifirði mikla hetjudáð. Þá nótt bjargaði fjölskyldan 48 breskum hermönnum úr klóm íslensks vetrar. Það er viðeigandi að draga þessa sögu fram á páskum. Efni hennar rímar vel við boðskap þeirra.

Í janúar 1942 vann fjölskyldan á Veturhúsum í Eskifirði mikla hetjudáð. Þá nótt bjargaði fjölskyldan 48 breskum hermönnum úr klóm íslensks vetrar. 48 unglingsstrákum sem lagt höfðu upp frá Reyðarfirði þá um morguninn og ætluðu sér á skíðum yfir fjallaskörð til Eskifjarðar. Hér er á ferðinni ein magnaðasta saga hernámsáranna á Íslandi. Raunar er um að ræða eitt magnaðasta björgunarafrek íslenskrar sögu. Sagan af þessum atburðum hefur enda verið lifandi meðal þeirra sem búið hafa á svæðinu í gegnum tíðina. Legsteinar þeirra hermanna sem þarna létu lífið standa í öðrum kirkjugarði Reyðfirðinga og fólkið sem að björguninni komu verið hluti af samfélagi austfirðinga. Hvoru tveggja minnir á liðna tíð. Þá er sögunni einnig haldið á lofti í Stríðsárasafninu sem staðsett er á Reyðarfirði og þannig reynt að miðla henni áfram.

Nú sjö áratugum síðar hefur sagan síðan hlotið réttbæran sess meðal þjóðarinnar. Fyrir skömmu gaf Arnaldur Indriðason sögunni gaum í einni bóka sinna. Fyrr á árinu var eini eftirlifandi heimilismaðurinn á Veturhúsum heiðraður af breskum stjórnvöldum og nú að kvöldi páskadags verður heimildarmynd Þorsteins J. Vilhjálmssonar um atburðina frumsýnd á Stöð 2. Allt er þetta vel enda á sagan talsvert erindi við almenning.

Að morgni 20. janúar 1942 lagði hópur manna af stað frá herbúðum á Reyðarfirði í fallegu vetrarveðri. Leið þeirra lá upp Svínadal og þaðan ætluðu þeir yfir Hrævarskörð og til Eskifjarðar á skíðum. Harðfenni og hált var vestan undir skarðinu og varð því úr að hópurinn fór lengra inn Svínadal og loks út Tungudal og Eskifjarðarheiði niður í Eskifjörð en sú leið var lengri sem nam nokkrum klukkustundum. Eftir því sem leið á daginn versnaði veðrið stöðugt. Undir kvöld komu þeir loks á Eskifjarðarheiði og var þá skollið á aftakaveður með talsvert mikilli ofankomu. Vindurinn stóð á móti mönnunum og óðu þeir krapaelg í lækjum upp undir hné. Voru margir orðnir örmagna og svo fór að hópurinn tvístraðist á leið sinni niður af heiðinni. Veturhús heitir bærinn sem stóð næst heiðinni og bjó þar Þorbjörg Kjartansdóttir ásamt hluta barna sinna. Um tíuleytið þetta kvöld gengu þau til náða þreytt eftir dagsverkið. Þar sem sá eldri þeirra bræðra Páll liggur í rúminu og heyrir veðurofsann telur hann réttast að gæta að útihúsunum. Fer hann því út og gengur fram á þúst. Reynist þústin vera aðframkominn hermaður og styður Páll hann til bæjar. Halda þeir bræðurnir, Páll og Magnús, síðan út í nóttina og bjarga þeim sem lífs eru inn úr veðrinu. Eru þannig 48 menn í litla kotinu þar sem þær mæðgur hlúa að þeim með því litla sem til var. Þegar veðrinu slotar um morguninn er ljóst að átta menn hafa látið lífið um nóttina en langflestum er bjargað.

Það er viðeigandi að draga þessa sögu fram á páskum. Efni hennar rímar vel við boðskap þeirra. Þjónusta við lífið og skuldbinding gagnvart framgangi þess er það sem rekur fjölskylduna á Veturhúsum áfram í fórnfúsu starfi þeirra um nóttina. Líf í nauð fær þá hjálp sem það þarf burtséð frá afleiðingum þess fyrir þá sem koma til hjálpar. Unglingspiltar vinna karlmennskuverk af þeirri stærðargráðu að mann setur hljóðan. Þjónustuskyldan gagnvart náunganum nauðstöddum, hröktum, köldum og svöngum hefur forgang umfram allt annað. Óþarfi er að draga fram hliðstæðuna í guðspjöllunum. Hana þekkja allir.

Okkur er hollt að taka söguna af fjölskyldunni á Veturhúsum inn í páskahelgina. Ígrunda hana og skoða í hinu stóra samhengi og reyna þannig að tileinka okkur þá lífsafstöðu sem rak þessa fjölskyldu áfram kalda vetrarnótt fyrir sjö áratugum síðan.