Hvenær hverfa þær af síðum dagatalsins?

Myndirnar í Pirelli-dagatalinu eiga að vera fallegar, listrænar og síðast en ekki síst fullar kynþokka en þær eru í raun ekkert annað en ýkt afbökun á því hvernig eðlilegur, heilbrigður kvenlíkami á að líta út. Sumar fyrirsæturnar líta nefnilega út fyrir að vera með átröskun. Kannski á það samt ekki að koma mér jafnmikið á óvart og það gerði.

Pirelli-dagatalið er talið vera eitt af íkonum tískuheimsins. Fyrirsætur sækjast eftir því að sitja fyrir á myndum dagatalsins auk þess sem tískuljósmyndarar keppast um að mynda súpermódelin. Pirelli-dagatalið er í raun ekki annað en dýrari útgáfa af hinu „klassíska“ nektarmyndadagatali þar sem konur fækka fötum og sitja fyrir í kynþokkafullum stellingum. Dagatalið er ekki fjöldaframleitt heldur aðeins dreift til útvaldra viðskiptavina ítalska dekkjarisans Pirelli.

Á netinu má finna mikið af myndum sem teknar voru fyrir dagatalið í ár. Ef til vill hafa einhverjar þeirra ratað á dagatalið sjálft en að sjálfsögðu er opinberu útgáfuna hvergi að finna þar sem hún er aðeins fyrir útvalda. Ég rakst á nokkrar þessara mynda inni á heimasíðunni models.com. Ég skoðaði myndirnar og fékk vægt sjokk, ekki vegna þess að myndirnar voru allar af allsberum konum (nekt getur jú verið falleg) heldur vegna þess hversu sjúklega grannar sumar af fyrirsætunum virðast vera.

Myndirnar í Pirelli-dagatalinu eiga að vera fallegar, listrænar og síðast en ekki síst fullar kynþokka en þær eru í raun ekkert annað en ýkt afbökun á því hvernig eðlilegur, heilbrigður kvenlíkami á að líta út. Sumar fyrirsæturnar líta nefnilega út fyrir að vera með átröskun (sjá Natöshu Poly, Millu Jovovich og Kate Moss). Kannski á það samt ekki að koma mér jafnmikið á óvart og það gerði. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að fyrirsætur í dag eru allt 20% undir kjörþyngd en stúlkur eru greindar með anorexíu ef þær fara 15% undir kjörþyngd eða neðar. Það er því spurning hversu langt niður fyrir kjörþyngd fyrirsæturnar „ná“ að fara áður en þær hverfa alveg af síðum Pirelli-dagatalsins.

Einhverra hluta vegna hélt ég að tískuheimurinn væri farinn að senda réttari skilaboð um eðlilegan líkamsvöxt. Ljósmyndir á borð við þær sem fjallað hefur verið um hér senda síst af öllu rétt skilaboð til ungra stelpna, sem eru áhættuhópur þegar kemur að átröskunarsjúkdómum. Umræddar myndir eru aðgengilegar hverjum sem er á internetinu; ég datt til dæmis inn á þær eftir að hafa gúgglað ofurfyrirsætuna Löru Stone. Þegar beinaberar, sjúklega grannar fyrirsætur eru sýndar á jafnafgerandi, og að því er virðist, jákvæðan hátt er auðvelt að fá alls konar ranghugmyndir um útlit og eðlilegan líkamsvöxt. Pirelli-dagatalið eins og það er árið 2012 er því tímaskekkja. Tískuheimurinn á að vera kominn lengra: það á að senda rétt skilaboð.

Heimild: American Psychiatric Association (2000). Diagnostic and statistical manual of mental 
disorders
(4. Útgáfa-endurskoðun). Washington, D.C.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.