Af íþróttamönnum ársins

Heiðar Helguson knattspyrnukappi og markalús QPR var fyrir skemmstu valinn íþróttamaður ársins, af samtökum íþróttafréttamanna. Ekki er erfitt að sjá ástæðu þess, enda hefur Dalvíkingurinn séð um að halda uppi heiðri íslenskra knattspyrnumanna undanfarið. Í þau 56 skipti sem sambandið hefur kosið íþróttamann ársins, hafa verðlaunahafarnir í 88% tilfella komið úr fjórum íþróttagreinum, frjálsum íþróttum, fótbolta, handbolta og sundi.

Heiðar Helguson knattspyrnukappi og markalús QPR var fyrir skemmstu valinn íþróttamaður ársins, af samtökum íþróttafréttamanna. Ekki er erfitt að sjá ástæðu þess, enda hefur Dalvíkingurinn séð um að halda uppi heiðri íslenskra knattspyrnumanna undanfarið, á mjög svo erfiðum tímum, og er hann lang markahæsti leikmaður úrvalsdeildarliðsins.

Með valinu varð Heiðar sjöundi fótboltamaðurinn til að vera valinn íþróttamaður ársins og tryggði knattspyrnuíþróttinni sinn níunda titil eftir nokkur erfið ár þar sem handboltamenn einokuðu titilinn. Síðasti fótboltamaðurinn til að sigra var Margrét Lára Viðarsdóttir árið 2007 sem jafnframt er eina knattspyrnukonan til að vinna titilinn í sögunni. Það á reyndar við um allar konur sem hafa unnið titilinn íþróttamaður ársins, að þær eru þær einu í sögunni í sinni grein.

Verðlaun hafa verið veitt fyrir íþróttamann ársins allt frá árinu 1956. Fyrst um sinn var þetta ekkert voðalega spennandi kosning, getur maður ímyndað sér, enda sigraði Vilhjálmur Einarson ólympíumedalíuhafi fimm af fyrstu sex kosningum. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og fjölmargir sigurvegarar stigið á svið.

Allir íþróttaáhugamenn eiga sínar uppáhaldsíþróttir sem þeir fylgjast mikið með en svo eru aðrar íþróttagreinar sem ekki fá eins mikla athygli. Maður getur ímyndað sér að slíkt eigi líka við um íþróttafréttamenn, með fullri virðingu fyrir þeirri göfugu starfsstétt. Að minnsta kosti hefur verið nokkuð mikill stöðugleiki í ákvarðanatöku þeirra þegar kemur að því að velja íþróttamann ársins.

Í þau 56 skipti sem sambandið hefur kosið íþróttamann ársins, hafa verðlaunahafarnir í 88% tilfella komið úr fjórum íþróttagreinum, frjálsum íþróttum, fótbolta, handbolta og sundi. Oftast hafa frjálsíþróttastjörnur landsins verið heiðursins aðnjótandi, eða í 21 skipti og þar af ein kona, Vala Flosadóttir sem hlaut bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Sidney. Meðal karlanna eru Vilhjálmur Einarsson með fimm verðlaun, Hreinn Halldórsson og Einar Vilhjálmsson með þrjú verðlaun hvor og Jón Arnar Magnússon með tvenn verðlaun, svo einhverjir séu nefndir.

Handboltamenn hafa næst á eftir verið í uppáhaldi í vali á íþróttamanni ársins, eða 11 sinnum og fótboltamenn fylgja svo fast á eftir með 9 verðlaun. Svo virðist reyndar sem ákveðið boltaæði hafi runnið á íþróttafréttamenn sl. áratug, en aðeins íþróttamenn úr handbolta eða fótbolta hafa unnið á síðustu 10 árum. Þessi tíu ár hafa líka kannski verið mjög óvenjuleg, þar sem við höfum fengið á sjónarsviðið án efa allra besta handbolta- og fótboltamenn Íslandssögunnar í þeim Ólafi Stefánssyni og Eiði Smára Guðjohnsen, en þeir eiga sex af þessum tíu verðlaunum.

Þessar íþróttir sem standa upp úr, þ.e frjálsar íþróttir, handbolti og fótbolti, eiga það sameiginlegt að vera meðal sjö vinsælustu íþróttagreina íslands, ef litið er til iðkunnar, skv. tölfræði ÍSÍ. Fótbolti er vinsælastur, með tæp 21. þús iðkendur, golf er næstvinsælast, svo hestamennska, og loks fimleikar, handbolti, körfubolti og frjálsar íþróttir. Af þessum sjö greinum hafa allar átt íþróttamann ársins, nema fimleikar og golfíþróttin sem þó er næstvinsælasta íþrótt landsmanna, með um 17.000 iðkendur. Því er spurning hvort kylfingar landsins þurfi ekki að spýta í lófana?

Þrátt fyrir að vera nokkuð vanafastir í vali sínu á íþróttamanni ársins, er forvitnilegt að skoða þá flippbylgju sem virðist hafa riðið yfir nefndina 1993 og 1994, þegar Sigurbjörn Bárðason hestamaður og Magnús Scheving þolfimimeistari unnu titilinn mitt á milli frjálsíþróttaskeiða hjá samtökunum. Eru þeir einu málsvarar sinnar íþróttar á stallinum háa.

Fast á hæla fótboltamanna koma sundmenn með 8 titla, sem er aðeins einum titli færra en fótboltamenn hafa fengið, þrátt fyrir að sundíþróttin teljist aðeins í 11. sæti yfir vinsælustu íþróttir landsins og verður það að teljast mjög góður árangur. Lyftingarmenn hafa lyft titlinum þrisvar (ættu nú kannski að eiga auðveldast með að lyfta honum), og svo koma hestaíþróttir, þolfimi, júdó og körfubolti með einn sigurinn hvor.

Ekki hefur mikið farið fyrir konum í þessu vali, alls hafa fjórar konur verið valdar frá byrjun. Sigríður Sigurðardóttir, handknattleiksmaður var valin 1964, Ragnheiður Runólfsdóttir, sundkona, árið 1991, Vala Flosadóttir, stangastökkvari, árið 2000 og Margrét Lára Viðarsdóttir, fótboltakona, árið 2007.

Það eru því fjölmargar þættir sem skemmtilegt er að skoða til að spá fyrir um íþróttamann ársins, sl. 10 ár hafa allir sigurvegarar komið úr fótbolta eða handbolta. Ef við bætum við sundi og frjálsum íþróttum við þá erum við kominn með 49 af 56 titlum frá upphafi . Karlar hafa hampað 52 titlum á móti 4 hjá konum og aldrei hefur golfari unnið þrátt fyrir 17.000 iðkendur.

En hver veit, kannski verður kvenkyns kylfingur íþróttamaður ársins 2012.

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.