Áramótaskaup stjórnmálanna

Stjórnmálamenn ákváðu að bæta þjóðinni upp vonbrigðin með áramótaskaupið með smá sýningu í kringum áramótin.

Stjórnmálamenn ákváðu að bæta þjóðinni (já, ég tek að mér að tala fyrir hönd þjóðarinnar í þessu máli) upp vonbrigðin með áramótaskaupið með smá sýningu í kringum áramótin.

Furðulegt er fyrsta orðið sem kemur upp í hugann til að lýsa breytingunum á ríkisstjórninni (þótt gefa verði henni kredit fyrir fækkun ráðuneyta á kjörtímabilinu), sem virtust þó aðallega hafa það að markmiði að losna við Jón Bjarnason.

Allskonar kenningar eru uppi um hvers vegna svo mikil áhersla hafi verið lögð á að hann færi úr stjórninni. Sjálfur hefur Jón sett fram þá hógværu og lítillátu kenningu að því hafi verið sérstaklega fagnað í Brussel að hann færi úr ríkisstjórninni, svona eins kommisarnir í ESB hafi ekki hugsað um annað öll jólin en hvort sjávarútvegsráðherra Íslands haldi embætti sínu. Ætli Obama pósti því ekki fljótlega á vegginn sinn að Jón Bjarnason sé hættur og Hillary læki?

Sjálfsagt eru jarðbundnari skýringar á brotthvarfi hans úr stjórninni nær lagi, s.s. þær að hann hafi verið erfiður í samvinnu, átt erfitt með að svara spurningum í fjölmiðlum og útskýra mál sitt og Steingrímur smám saman talið vinnubrögð hans óverjandi.

En til að milda höggið var ákveðið að taka nokkra snúninga í leiðinni. Steingrímur gegnir nú fjórum ráðherraembættum, til sögunnar er kominn fjármálaráðherra, Oddný Harðardóttir, sem er alger snilld samkvæmt öllum í Samfylkingunni en þó ekki meira en svo að hún verður bara ráðherra í nokkra mánuði eða þar til Katrín Júlíusdóttir tekur við af henni í þá örfáu mánuði sem eftir verða af kjörtímabilinu. Og Árni Páll var látinn taka pokann sinn.

Breytingar sem þessar þurfa að vera samþykktar af flokksstofnunum stjórnarflokkanna. Allajafna eru tillögur um þetta bornar upp án mikilla vandkvæða en á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar var tekist á um þetta í eina fjóra tíma, m.v. frásagnir af fundinum. Það verður að hafa í huga að hér er verið að tala um tillögu sem færir flokknum þá draumastöðu í stjórnarsamstarfi að vera með forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðuneytið en á endanum var tillagan samþykkt með þremur fjórðu atkvæða eftir miklar umræður.

Annar landsfundur í Samfylkingunni?
Ennfremur var því skotið til framkvæmdastjórnar flokksins tillögu um að halda landsfund í vor, þótt landsfundur Samfylkingarinnar frá því í október sé nýafstaðinn. Landsfundir eru að jafnaði haldnir á tveggja ára fresti. Það eru stór tíðindi sem lítið er fjallað um og t.d. ekkert minnst á í frétt á vef flokksins um fundinn. Ekki þarf margar háskólagráður til að skynja að krafa um landsfund strax í kjölfar þess sem var að klárast er ekki sett fram því fólk langar svo mikið til að hittast aftur og grilla pulsur heldur kemur sú krafa fram vegna óánægju. Hluti hennar er að Samfylkingin fórnar Árna Páli úr ríkisstjórninni sem hefur talað fyrir heilbrigðri skynsemi í mörgum málum.

Breytingarnar núna styrkja mjög stöðu hans innan flokksins á kostnað annarra hugsanlegra arftaka í formennsku flokksins enda gera þær honum kleift að fjarlægja sig frá ríkisstjórninni á síðari hluta kjörtímabilsins. Valið hjá Samfylkingunni virðist standa milli þess að fara inn í kosningar 2013 með óbreytta forystu og heyja vonlausa varnarbaráttu fyrir afrekaskrá ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu eða að gera breytingar og fá nýtt fólk til forystu. Í hinni skoðaðanakannamiðuðu Samfylkingu eru allar líkur á að síðari kosturinn verði fyrir valinu.

Vantraust?
Spurningin um vantraust á hendur ríkisstjórninni hlýtur að koma upp í kjölfar breytinganna. Tölurnar tala sínu máli. Í upphafi kjörtímabilsins voru 34 þingmenn í stjórnarmeirihlutanum en stjórnarandstaðan taldi hins vegar 29. Þráinn Bertelsson hafði svo vistaskipti úr stjórnarandstöðu yfir í stjórn en Atli, Lilja og Ásmundur gengu úr skaftinu stjórnarmegin. Staðan er því, strangt til tekið, 32 gegn 31, stjórninni í vil.

Ef Jón Bjarnason hættir hins vegar að styðja stjórnina eins og yfirlýsing hans í kjölfar stólaskiptanna bar með sér að hann myndi gera, er í raun aðeins 31 þingmaður fylgjandi stjórninni, að því gefnu að afstaða þingmanna hafi ekki breyst frekar frá síðustu atkvæðagreiðslu um vantraust. Ef svo er, þá er komin upp sú sérkennilega staða að líf stjórnarinnar byggir í raun á stuðningi eða hlutleysi Guðmundar Steingrímssonar við stjórnina. Guðmundur vildi ekki skrifa upp á andstöðu við stjórnina í síðustu vantrauststillögu, þar sem hann sat hjá, en staðan kynni að hafa breyst núna þar sem hann er kominn í framboð sjálfur. Ef hann ætlar að vera líflína stjórnarinnar á sama tíma og hann kynnir nýjan flokk verður erfitt fyrir hann að útskýra fyrir mögulegum kjósendum sínum að atkvæði til nýja flokksins sé ekki í raun bara atkvæði til síns gamla flokks Samfylkingarinnar.

Frekara samstarf?
En fari svo að stjórnin standi af sér vantraust, er VG og Samfylkingunni engu að síður vandi á höndum upp á framhaldið. Stjórnarsamstarfið virðist fúnkera þannig að ákveðinn kjarni í báðum flokkum nýtur sín vel í samstarfinu, situr í nefndum og ráðum, hefur áhrif á framvindu mála og er ekki með blammeringar í fjölmiðlum. Innan beggja flokka er hins vegar stækkandi hópur sem er ósáttur og finnst stjórnin vera komin langt frá sínum flokki.

Innan VG sakna menn hins róttæka Steingríms sem hélt eldmessur í stjórnarandstöðu í nærri tvo áratugi en minnir meira á þýskan embættismann í ráðherrastól. Þjóðernisíhaldið innan VG getur illa sætt sig við áframhaldandi umsókn að ESB og þurfa að sitja undir skotum frá samherjum sínum á bjórkvöldum Heimssýnar. Hjá Samfylkingunni er hægri hlutinn í flokknum, sem stækkaði mikið í kosningunum 2009, hins vegar orðinn þreyttur á síhækkandi sköttum, stöðnun í atvinnumálum og tortryggni samstarfsflokksins í garð erlendra fjárfestinga og atvinnulífsins almennt.

Þegar líður á árið 2012 rennur upp kosningavetur og flokkarnir þurfa að tækla þessar spurningar innan sinna raða sem og að svara spurningum um hvort flötur sé fyrir áframhaldandi samstarfi. Yrði það raunhæfur kostur ef til dæmis Árni Páll leiddi Samfylkinguna en Steingrímur leiddi áfram VG? Trúlega ekki. Steingrímur – eða hver sem leiðir VG í næstu kosningum mun líka þurfa að koma til móts við gagnrýnisraddir í sínum flokki og færa hann til vinstri. Samfylkingin undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gæti sjálfsagt hugsað sér að fylgja því og hugsanlega undir stjórn Össurar. Ekki þarf þó að velta lengi vöngum yfir slíkum valkosti þar sem flokkarnir munu ekki fá nægjanlegt fylgi í kosningum til að á þetta reyni.

Pólitíski markaðurinn
Líklegast í spilunum núna er að kosningarnar 2013 fari þannig að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn nái saman um meirihluta. Það er orðið nokkuð staðfest og stöðug niðurstaða í skoðanakönnunum, þ.e. hjá þeim sem ætla á annað borð að kjósa þá flokka sem eru til staðar núna. Það sem gæti breytt þessari stöðu er hvort ný framboð nái að stela senunni eins og Besti flokkurinn gerði í Reykjavík og tekið þá jafnt af öllum flokkunum sem fyrir eru.

Nýjasti „bitinn á pólitíska markaðnum“ er án efa forsetinn fráfarandi sem gæti sjálfsagt séð margt verra fyrir sér en að enda ferilinn sem forsætisráðherra í nokkur ár áður en hann stingur af og finnur laut (pæling: maður vissi það að Mugison væri búinn að meika það þegar hann gat upplýst þjóðina um það í beinni útsendingu á RÚV að eitt lagið hans hefði orðið til eftir að hann hafði horft á klámmyndir úti á sjó í fjóra mánuði og jafnréttisfulltrúi RÚV rauf ekki útsendingu).

Sjálfsagt yrði Ólafur Ragnar að leita á náðir einhverra af þeim nýju framboðum sem eru að verða til frekar en að fara inn í einhvern þeirra sem fyrir er. Lilja Mósesdóttir og félagar úr hagsmunasamtökum heimilanna gætu verið sá flokkur. Forsetinn hefur lagt sig fram við að ná til fólksins, eins og sást vel á þingsetningunni í október í fyrra þar sem hann gaf sér tíma til að heilsa mótmælendum. Og af viðbrögðunum að dæma var þessu ekkert illa tekið. Einn kálhaus lenti reyndar á honum en svo tóku allavega fjórir eða fimm í hendina á honum. Það er sennilega betra hlutfall en flestir aðrir stjórnmálamenn hefðu náð og var staðfest með vali hans sem manni ársins á Útvarpi Sögu, fjölmiðli hinna reiðu.

Spáin fyrir árið er því sjálfsagt eitthvað á þá leið að það mun draga til tíðinda í pólitíkinni. Náttúran mun minna á sig með eftirminnilegum hætti en með vorinu mun sólin hækka á lofti á nýjan leik.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.