„Bíðiði bara“

Forsetinn hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í embætti. Það er ágætt. Ólafur Ragnar Grímsson getur þá loksins talað frjálst og gert það sem honum sýnist. Sem hefur nú kannski ekki verið vandamálið hingað til.

Forsetinn hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í embætti. Það er ágætt. Ólafur Ragnar Grímsson getur þá loksins talað frjálst og gert það sem honum sýnist. Sem hefur nú kannski ekki verið vandamálið hingað til.

Ólafur Ragnar breytti forsetaembættinu. Hann breytti í raun allri leikjafræðinni í kringum stjórnskipan og lagasetningu á Íslandi. Eitt dæmi þess er að við afgreiðslu Svavarssamningsins greiddu sumir þingmenn atkvæði með, en lýstu strax yfir að þeir hvöttu forsetann til að synja lögunum staðfestingar. Þeir voru sem sagt með en líka á móti. Slík afstaða hefði líklegast verið óhugsandi fyrir fyrstu beitingu forsetans á synjunarvaldinu. Þá vissu þingmenn að valdið væri þeirra en ekki annarra.

Forsetinn bauðst sem sagt að taka til sín hluta af völdum og ábyrgð þingmanna og þeir þingmenn sem ekki gátu horfst í augu við eigin ákvarðanir þáðu það með þökkum. Boltinn væri hjá forseta, var sagt. Forsetinn áframsendi boltann á kjósendur, og sagði ákvörðunina vera þeirra. Þannig þóttust þeir aðilar sem fara með löggjafarvald skv. stjórnarskráni komast hjá því að gera það.

Þess ber reyndar að geta að þrátt fyrir að flestir hefðu lengst af talið að vald forsetans í þeim efnum væri raunverulegt, þá var sá skilningur löngum algengastur, til dæmis í kosningabaráttunni 1996, að um væri að ræða “neyðarventil” en ekki tæki til að kalla fram þjóðaratkvæði, þjóðaratkvæðis vegna. Einn forsetaframbjóðandi lagði þó þann síðari skilning í ákvæðið. Sá fékk mikla athygli en minna fylgi.

Hafi beiting valdsins sem neyðarventils hugsanlega átt rétt á sér í fyrstu tveimur tilfellunum, fjölmiðlafrumvarpinu og IceSave II, og verið rökstudd með þeim hætti, þá er hæpið að slíkt hafi gilt í því þriðja. Aðalrökin þá voru einhvern veginn á þá leið að kjósendur ættu að fá að kjósa um málið aftur því þeir hefðu kosið um það áður. Þingið hafði samþykkti lögin með drjúgum meirihluta en þrír af fimm kjósendum vildu fella þau fyrir rest. Niðurstaðan af þrefaldri notkun 26. greinarinnar er sem sagt sú að þingmenn munu framvegis síður geta tekið óvinsælar ákvarðanir. Sama hvað afdrifum einstaka mála og ánægju manna með þau líður þá er þetta afleiðingin þegar til langs tíma er litið.

Skipun Ólafs á sjálfum sér í hlutverk sendiherra íslensks viðskiptalífs gerir verk þess sem vill finna í gömlum orðum hans fullyrðingar sem í dag standast síður skoðun auðvelt. Hér má finna ræðu Ólafs frá ráðstefnu á vegum Kaupþings þar sá tónn er sleginn að gagnrýni á íslenskt bankakerfi byggi á fáfræði. Niðurstaða: Við þurfum að byggja á glæstri sagnahefð okkar og kynna enn betur fyrir heiminum hvað við erum frábær. Sambærileg dæmi eru mörg.

Nú enn og aftur kveður við svipaðan tón hjá forseta. Í þetta skipti er þetta niðurstaða forsetans: “[Þjóðaratkvæðagreiðlsurnar um IceSave] vísuðu veginn í átt að auknu lýðræði, vöktu athygli og jafnvel aðdáun í öðrum löndum. Fjármálakreppan heldur enn mörgum þjóðum í heljargreipum og æ fleiri vilja kynnast því hvernig Ísland valdi aðra leið, kaus að láta lýðræðislegan rétt fólksins ráða för.” Þetta er úr nýársávarpi forsetans. Því síðasta.

Því er gjarnan haldið fram að að forseti eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Um árangur Ólafs á því sviði er hverjum auðvelt að dæma. En óskandi væri að eftirmaður hans fyndi sér aðra leið til að sameina Íslendinga en þá að reyna á hverjum tíma að kynda undir þær klisjur sem best falla að eyrum okkar.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.