Stéttaskipting á Íslandi?

Eitt af meginstefunum í fréttum þessarar vikur hefur verið þessi spurning: „Hvernig samfélagi búum við eiginlega í?“ Hvers vegna er spurt að þessu? Jú, vegna þeirrar undarlegu staðreyndar að metfjöldi Íslendinga skellir sér í verslunarferð til Boston fyrir jólin á meðan talið er að allt 10.000 manns þiggi mataraðstoð í desember.

Eitt af meginstefunum í fréttum þessarar vikur hefur verið þessi spurning: „Hvernig samfélagi búum við eiginlega í?“ Hvers vegna er spurt að þessu? Jú, vegna þeirrar undarlegu staðreyndar að metfjöldi Íslendinga skellir sér í verslunarferð til Boston fyrir jólin á meðan talið er að allt 10.000 manns þiggi mataraðstoð í desember.

Eðlilega spyrja einhverjir sig hvort þetta sé merki um aukna misskiptingu í samfélaginu – jafnvel hvort að hér séu að verða til einhvers konar stéttir en hingað til höfum við talið að lítil sem engin stéttaskipting sé til staðar á Íslandi. Að mati Ingu Dóru Sigfúsdóttur, félagsfræðiprófessors við HR, þurfa þessar andstæður – verslunarferðir til Boston og mataraðstoð – ekki endilega að þýða það að misskipting sé að aukast. Hún telur að þjóðin sé í einhvers konar sjálfsmyndarkrísu og að neyðin sé nú sýnilegri en áður.

En þó misskipting sé kannski ekki að aukast má leiða líkum að því að stéttaskipting verði staðreynd á Íslandi eftir nokkur ár. Þar kemur aðallega tvennt til. Í fyrsta lagi að svo virðist sem að ákveðinn hópur sem stóð fjárhagslega illa fyrir hrun standi enn verr í dag. Hætta er á að fátæktin festi rætur og að afkomendurnir erfi hana, ef svo má að orði komast. Í öðru lagi er það húsnæðismarkaðurinn en Þórður Snær Júlíusson, blaðamaður á Fréttablaðinu, vakti athygli á þessu fyrir um viku síðan.

Staðan er þannig hjá ungu fólki í dag að ef það á ekki fjórar milljónir á sparireikningnum til nota sem útborgun í íbúð eru íbúðarkaup fjarlægur draumur. Nema ef vera skyldi að foreldrar, eða aðrir fjölskyldumeðlimir, geti hlaupið undir bagga og lánað fyrir útborguninni. Einhverjir eru svo heppnir að eiga fjárhagslega vel stæða foreldra en hvað með hina? Mun það virkilega verða þannig að sumir munu geta eignast íbúð en aðrir munu þurfa að sætta sig við að leigja á okurverði – bara vegna þess að þeir fá ekki lán hjá mömmu og pabba?

Vonandi ekki. Vonandi mun þetta breytast. Bæði hvað varðar viðvarandi fátækt hjá ákveðnum hópi fólks og húsnæðismarkaðinn. Pólitískan vilja þarf til að viðhalda hér stéttlausu samfélagi og búa þannig um hnútana að allir hafi jafna möguleika á því sem við köllum sjálfsögð réttindi: að hafa þak yfir höfuðið og mat í ísskápnum.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.