Tilefnislaus fagnaðarlæti

Í fyrradag var tilkynnt með pompi og prakt að bandaríski herinn væri á heimleið eftir að hafa gert góða ferð til Íraks.

Í fyrradag var tilkynnt með pompi og prakt að bandaríski herinn væri á heimleið eftir að hafa gert góða ferð til Íraks. Herförin hófst með miklu sjónarspili aðfararnótt 20. mars 2003, eins og fjallað var um hér á Deiglunni á þeim tíma.

Ljóst er að Íraksstríðið skorar ekki hátt á vinsældarlistanum vestan hafs í samanburði við önnur stríð Bandaríkjamanna á síðustu áratugum. Vinsælust er væntanlega þátttaka þeirra í síðari heimsstyrjöldinni enda var óvinurinn þekkt stærð og tilgangurinn ljós. Kóreustríðið var tímanna tákn, Kalda stríðið að hefjast og jafntefli ásættanleg niðurstaða. Hitt kaldastríðs stríðið, Víetnam, var vont – einkum af tveimur ástæðum: því var sjónvarpað og það tapaðist. Stríðið í Afganistan var leiftursnögg hefnd eftir 11. september og til vinsælda fallið sem slíkt.

Ekki er tilefni til að fjalla sérstaklega um minniháttar erindrekstur, eins og innrásina í Grenada 1983, loftárásir á Líbýu 1986, frelsun Kúveits 1991, flugbann yfir Balkansskaga í Bosníustríðinu og árásir á Serbíu í framhaldinu, og loks misheppnuð íhlutun í borgarastríðið í Sómalíu.

Íraksstríðið er dálítið sér á parti. Landið var hernumið án mikillar fyrirhafnar, eitthvað sem tókst ekki í Kóreu, Víetnam eða Afganistan. Ólíkt fyrri stríðum jafnframt var tilgangurinn. Þótt Víetnam hafi verið umdeilt var tilgangurinn algjörlega skýr, að hindra dómínóáhrifin í útbreiðslu alheimskommúnismans.

Megintilgangur Íraksstríðsins var að uppræta gjöreyðingarvopn Saddams Hussein. Í dag er ekki lengur deilt um að þau vopn voru aldrei til. Hafi tilgangurinn verið sá að koma frá völdum grimmum og morðóðum einræðisherra sem ofsótti landa sína og einstök þjóðarbrot, þá fær bandaríski herinn væntanlega litla hvíld, slíka er enn víða að finna – jafnvel í ríkjum sem mönnum finnst fínt að láta fjármagna fjárlagahallann sinn. Rökin um að heimurinn sé betri án Saddams duga einfaldlega ekki til.

Bandaríkjamenn geta litið með miklu stolti til þátttöku sinnar í seinni heimsstyrjöldinni. Hún skipti sannarlega sköpum á tvísýnum tíma þegar einræðis- og ofbeldisöfl völtuðu yfir ríki og álfur á skömmum tíma. Án aðkomu Bandaríkjanna í þeim hildarleik væru öðruvísi um að litast í okkar heimshluta, án nokkurs vafa.

Í Kóreu gerðu þeir jafntefli og hafa síðan varið friðinn með tilvist sinni. Frá Víetnam hrökkluðust þeir, sneyptir og smáðir, eftir að hafa tapað stríðinu. Í raun töpuðu Bandaríkjamenn bara andlitinu í hernaðarlegum skilningi í Víetnam. En tap þeirra á Íraksstríðinu er mun meira. Næst þegar utanríkisráðherra Bandaríkjanna kemur á fund Öryggisráðsins og krefst hernaðaraðgerða vegna aðsteðjandi ógnar við heimsfriðinn mun skuggi innrásarinnar og hernámsins í Írak hvíla yfir og draga úr vægi hverrar einustu fullyrðingar.

Sú staða er vond, því Bandaríkjamenn hafa algjöru lykilhlutverki að gegna þegar kemur að möguleikum alþjóðasamfélagsins til að verja og viðhalda friði í heiminum. Það er ekki að undra að fagnaðarlæti Baracks Obama vegna heimkvaðningar hersins hafi verið bæði innantóm og tilgerðarleg.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.