Bændasamtökin eru merkilegt fyrirbæri. Fyrir nokkrum árum, þegar Ísland taldi sig vera á hraðri leið með að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð, nokkurs konar Ísland ehf. þar sem flestir myndu lifa á hlutabréfaviðskiptum eða kolefnisjöfnun, fór ekki mikið fyrir landbúnaði frekar en öðrum slíkum málum.
Athyglin og umfjöllunin beindist að flestu öðru. Morgunblaðið hélt t.d. lengi vel úti sérstakri ritstjórnardeild um sjávarútvegsmál og gaf út veglegt aukablað, sem hét Úr Verinu (ekki þjálasta nafnið, prófiði að kynna ykkur sem blaðamaður í Úr Verinu) en á hápunkti góðærisins var þetta orðið að litlum dálki innarlega í blaðinu og var loks lagt af.
Örlög Bændasamtakanna virtust að mörgu leyti vera á svipaðri leið. Engum fannst landbúnaður spennandi. Bændur héldu ekki töff partý, framfleyttu ekki þorpi í Afríku eða kepptu í Gumball. Þeir komust helst í fréttirnar fyrir að selja jarðirnar sínar til milljarðamæringanna og láta af búskap og það hefði ekki endilega komið á óvart á þessum árum að sjá frétt um að einhver útrásarvíkingurinn hefði hreinlega bara keypt Bændasamtökin. Sjálfsagt lagt þau niður en ef til vill getað nýtt starfsmennina til að sinna útistörfum á sveitasetrum víðs vegar um heim og svo hefði kannski verið hægt að krydda eitthvert partýið með því að bjóða upp á heilgrillaðan íslenskan smalamann.
Svo varð þó ekki og fyrr en varði snerist allt á hvolf hér á landi. Viðmiðin snerust við og útrás og fjárfestingar urðu skammaryrði. Þessi breyting þýddi líka að menn á borð við þá sem skipa Bændasamtökin voru ekki lengur gamaldags og púkó heldur hinir nýju landsfeður; vinnusamir framleiðendur, no-nonsense menn sem kalla ekki allt ömmu sína.
Íslenskir bændur eru nefnilega einn af þeim hópum sem stóðu hrunið hvað best af sér; svolítið fornir, þverir og jafnvel sérlundaðir en á góðan hátt. Þeim var lítt gefið um þann spjátrungshátt sem einkenndi útrásina og íslensku fjármálamennina. Bara það eitt að bankamennirnir höfðu ekki mokað skít eða smalað sauðfé, hvað þá mjólkað belju, gaf hinum alíslenska bónda tilefni til tortryggni.
Og hvað var þá annað að gera en ganga á lagið þegar leiðin opnaðist? Bændur hafa styrkt pólitíska stöðu sína verulega frá hruni. Þeir sem reynt hafa að tala fyrir breytingum á ríkisstyrktasta landbúnaðarkerfi í öllum heiminum hafa gefist upp fyrir þónokkru síðan. Í embætti landbúnaðarráðherra situr holdgervingur þeirra gilda sem samtökin standa fyrir. Framleiðslustyrkir, tollvernd og sjóðafrumskógurinn í kringum íslenskan landbúnað hafa raunar aldrei staðið sterkari fótum en núna. Í umræðum á þingi kemur hver talsmaðurinn fyrir óbreyttu ástandi á fætur öðrum upp og mærir kerfið en nánast enginn talar fyrir breytingum.
Í útrásinni urðu til alls konar sérkennileg hugtök, sem flest þykja frekar hjákátleg í dag. Í Kaupþingi var t.d. stundað „Kaupthinking“ sem átti að lýsa því hugarfari sem ríkti innan bankans. Bændasamtökin hafa að sama skapi kynnt nýtt hugtak, sem er fæðuöryggi. Fyrir þá sem ekki vita þá þýðir hugtakið að þjóðin verði að geta brauðfætt sig ef til stríðsátaka úti í heimi kæmi.
Það er vel þekkt trix í pólitískri umræðu að höfða til ótta fólks. Ástæðan er einfaldlega sú að það er svo erfitt að andmæla slíkum málflutningi. Í Bandaríkjunum kom Bush-stjórnin um tíma flestum sínum málum í gegn með stöðugum vísunum í þjóðaröryggi og með því að snúa því upp á andmælendur sína að þeir gengju erinda óvina þjóðarinnar væru þeir á móti. Þar með var fátt um svör.
Á sama hátt hafa Bændasamtökin slengt fram hugtakinu fæðuöryggi. Þannig að ef til heimsstyrjaldar kæmi þá myndi Ísland – litla Ísland – eiga ákveðið tromp í erminni, annað en aðrar þjóðir heims, sem þjást af bullandi óöryggi í fæðumálum, nefnilega stétt bænda sem geta fætt þjóðina svo vikum og mánuðum skiptir. Ísland 1 – umheimurinn 0!
Að vísu er nokkrum spurningum vegna þessarar ógnvekjandi framtíðarsýnar ósvarað. Hvernig stríð er væntanlegt? Hvar mun Ísland standa í þessu stríði? Hvað með aðrar vörur og hráefni? Hvernig á t.d. að fá olíu til landsins á meðan? Hvernig verður án olíu hægt að keyra traktora, mjókurbíla, flutningabíla osfrv.? Hver mun leiða íslensku andspyrnuhreyfinguna ef við verðum hernumin? Hvað gerist ef stríðið stendur yfir í nokkur ár og allar íslenskar vörur klárast? Verða hvítliðarnir kallaðir út í stríðinu og ef svo er, er Sigurður Líndal ekki of gamall til að taka þátt í líkamlegum átökum?
Í reynd má segja að rökfræði Bændasamtakanna sé eitt af því sem kallast „spurning sem ekki er hægt að svara“. Svona svipað og þegar guðspekingar og trúleysingjar spyrja sig að því hvort Guð gæti skapað svo stóran stein að hann gæti ekki lyft honum sjálfur?
Spurningin sem eftir stendur er svo hvort íslenskir bændur geti búið til svo stórt lamb að Íslendingar lifi á því til æviloka?
Kannski er samt aðalspurning sú hvenær einhver almenn skynsemi kemst aftur í umræðuna um landbúnaðarmál!?
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021