Framboði fylgir ábyrgð

Innan Sjálfstæðisflokksins hefur ætíð verið rík lýðræðishefð. Þannig hafa flokksmenn getað haft áhrif á val á forystu flokksins á landsfundi, kjörnum fulltrúum í prófkjörum og stefnu flokksins á landsfundi. Stundum hafa átökin innan flokksins verið hörð en flokkurinn hefur þó yfirleitt borið gæfu til þess að fólk hefur tekist á, um menn eða málefni, innan þeirra marka sem lýðræði, virðing og góðir mannasiðir krefjast. Á þessu eru þó því miður undantekningar og þeim fer fjölgandi.

Innan Sjálfstæðisflokksins hefur ætíð verið rík lýðræðishefð. Þannig hafa flokksmenn getað haft áhrif á val á forystu flokksins á landsfundi, kjörnum fulltrúum í prófkjörum og stefnu flokksins á landsfundi. Stundum hafa átökin innan flokksins verið hörð en flokkurinn hefur þó yfirleitt borið gæfu til þess að fólk hefur tekist á, um menn eða málefni, innan þeirra marka sem lýðræði, virðing og góðir mannasiðir krefjast. Á þessu eru þó því miður undantekningar og þeim fer fjölgandi.

Formannsslagur Bjarna Benediktssonar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur virðist vera að stigmagnast. Það var svo sem viðbúið en aðferðirnar eru ekki til fyrirmyndar. Fyrst birtust skoðanakannanir sem sýndu yfirburðarfylgi Hönnu Birnu. Síðan dúkkuðu skyndilega upp gömul ummæli Bjarna um fjárfestingar útlendinga hér á landi sem mátti túlka í andstöðu við núverandi afstöðu hans til sölu Grímsstaða á Fjöllum. Þessu var svarað með leka um utanlandsferð Hönnu Birnu og birtu fjölmiðlar fréttir um hvar hún hafði gist á Flórída. Þetta kallaði á annan leka um vitnaleiðslur yfir Bjarna vegna Vafningsmálsins. Nýjasta útspilið er einkar ómerkilegt myndband þar sem snúið er út úr gömlum ummælum Hönnu Birnu og hennar nánasta fólki varðandi staðsetningu flugvallarins í Reykjavík.

Þessi framvinda ætti ekki að koma neinum á óvart sem hefur fylgst með innanflokkskosningum eða prófkjörum innan Sjálfstæðisflokksins. Það gerist núna æ oftar að frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra sýni meiri áhuga á því að ausa upp óhróðri um andstæðinga sína fremur en að koma eigin stefnumálum á framfæri. Hjá þeim sömu er það viðhorf á undanhaldi að besta leiðin til að ná framgangi innan flokksins sé að sannfæra kjósendur um eigið ágæti. Þess í stað er kröftum beint að því að reyna að draga andstæðingana niður.

Formaður úr fílabeinsturni?
Hið gamla orðatilæki sýndu mér vini þína og ég skal segja hver þú ert hefur fengið nýja og útvíkkaða merkingu. Orðatiltækið nær núna ekki bara til vina, heldur líka til kunningja, starfsfélaga og raunar allra sem hist hafa á ævinni og er iðulega notað á neikvæðan hátt. Þannig eiga frambjóðendur nú á hættu að vera spyrtir við hvern þann sem þeir hafa átt samleið með á ævinni ásamt öllum þeirra kostum en þó aðallega göllum. Fyrir vestan er þetta kallað „guilty by association“. Ef frambjóðendur þekkja útrásarvíking, þá tóku þeir þátt í útrásinni. Ef þeir þekkja einhverja sem komu nálægt Sjóvá á sínum tíma, þá tæmdu þeir persónulega bótasjóðina. Ef þeir unnu hjá banka í góðærinu, þá bera þeir persónulega ábyrgð á öllu því sem fór úrskeiðis hjá hverjum einasta starfsmanni bankans. Ef þeir þekkja einhvern í sjávarútvegi, þá eru þeir handbendi LÍÚ. Svona mætti lengi telja. Þetta heldur náttúrulega ekki vatni en virðist engu að síður flokkast sem lögmæt röksemdarfærsla hjá mörgum.

Því miður virðist þetta svínvirka. Guð hjálpi þeim frambjóðanda sem hefur á einhverjum tímapunkti átt samskipti við útrásarvíkinga, bankastjóra eða fjárfesta. Það virðist í augum sumra hafa sömu pólitísku áhrif og finnast með látinni vændiskonu inn á hótelherbergi. En þessi samsömun teygir anga sína víða, jafnvel til einstaklinga sem hafa, nánast allt sitt líf, helgað Sjálfstæðisflokknum krafta sína. Þannig er nú reynt að gera tortryggilegt að þekkja Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson eða aðra þekkta fyrrverandi áhrifamenn í flokknum. Hvaða einstaklingur sem hefur verið virkur í starfi flokksins síðasta áratuginn þekkir ekki einhvern þessara manna?

Við sjáum merki um þessar aðferðir í núverandi formannsslag og sumir stuðningsmanna frambjóðenda eru óþreytandi við að benda á ýmis tengsl andstæðingsins við þekkta einstaklinga eða fyrirtæki, sama hversu fjarlæg eða fjarstæðukennd þau eru. Með þessu er náttúrulega verið að senda þau skilaboð að ef fólk vill ná einhverjum frama innan Sjálfstæðisflokksins sé best að tala ekki við nokkurn mann, þekkja engan og gera ekki neitt. Að besti formaður flokksins komi úr fílabeinsturni.

Púkinn á öxlinni
Það er alþekkt að tíma frambjóðenda sé best varið á meðal kjósenda en ekki að sinna almennum rekstri kosningabaráttunnar. Það þykir þess vegna ekki góð latína að frambjóðendur stjórni eigin kosningabaráttu og verða þeir því jafnan að reiða sig á stuðningsmenn sína í þeim efnum. Stuðningsmenn frambjóðenda eru hins vegar jafn misjafnir og þeir eru margir. Því miður eiga frambjóðendur það stundum til að sýna algjöran dómgreindarbrest þegar þeir velja ráðgjafa úr hópi stuðningsmanna og taka inn í sinn innsta hring einstaklinga sem eru alls ekki vandir að virðingu sinni. Þeir verða síðan eins og lítill púki á öxl frambjóðandans sem hvíslar í eyru hans alls kyns vafasöm ráð sem oftar en ekki verða að veruleika.

Þessir einstaklingar eru oftast sannfærðir um að ekkert sé athugavert við tillögur þeirra eða vinnubrögð. Þeir geta haft ansi brenglaða mynd af umhverfi sínu og halda gjarnan að stuðningmenn allra annarra frambjóðenda beiti svipuðum meðulum. Þetta er náttúrulega kolrangt mat á aðstæðum en í því felst hins vegar að þeir fara ekki leynt með „afrek“ sín og reyna að tryggja að frambjóðandinn viti hversu „duglegir“ þeir hafa verið. Af þeim sökum hljóma yfirleitt fullyrðingar frambjóðenda um þekkingarleysi á atferli stuðningsmanna sinna ótrúlega. Burt séð frá því þá eru allar slíkar afsakanir óásættanlegar. Frambjóðendur verða einfaldlega að hafa stjórn á stuðningsmönnum sínum og tryggja að þeir hagi sér eins og siðmenntað fólk og virði lýðræðishefðir Sjálfstæðisflokksins.

Framboði fylgir ábyrgð
Maður getur ekki annað en vonað að fólk sem býður sig fram til æðstu embætta innan Sjálfstæðisflokksins geri það vegna djúprar sannfæringar um að það geti bætt flokkinn. Slíku framboði fylgir mikil ábyrgð. Í því felst meðal annars að viðkomandi frambjóðandi verður að tryggja að háttsemi stuðningsmanna sinna verði ekki til þess að minnka tiltrú flokksmanna og almennings á flokknum. Þessi upphlaup í fjölmiðlum og rógur er eingöngu til þess fallinn að skaða flokkinn.

Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir verða að sýna ábyrgð í kosningabaráttu sinni. Þau mega ekki falla á prófinu og gefa misvitrum stuðningsmönnum lausan tauminn. Það er ekki þess virði að fórna siðferði og heilindum á altari valdanna. Þau verða að tryggja að framboð þeirra séu flokknum og baráttumálum hans til framdráttar og þeim sjálfum ekki til minnkunar.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.